135. löggjafarþing — 33. fundur,  29. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[21:47]
Hlusta

Frsm. meiri hluta fjárln. (Gunnar Svavarsson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil árétta að hv. þingmaður vinstri grænna, sem situr í fjárlaganefnd, hefur haft aðgang að öllum gögnum og tekið þátt í allri umræðu undanfarnar vikur og mánuði í störfum fjárlaganefndar. Við fjölluðum um ýmis mál en ég kannast ekki við að hafa séð umræddar 26 til 30 tillögur til umfjöllunar, niðurskurð í varnarmálum, niðurskurð hjá sendiráði Íslands, niðurskurð hjá ríkislögreglustjóra hvað þá heldur umræðu um aukningu á fjármagnstekjusköttum.

En vissulega má vera að vinnulagið hafi verið með þeim hætti á hinu háa Alþingi að breytingartillögur sem koma fram milli 1. og 2. umr. hafi komið fram með þeim hætti sem hér hefur verið, að minni hluti komi fram með þær eftir að tillögur eru afgreiddar úr nefnd.

Ég vil hins vegar segja, með hliðsjón af þeim ræðum sem ég hef haldið hér og líka við 1. umr. fjárlaga og síðan umræðu um fjáraukalög, að ég tel að vinna eigi þetta í nefndinni eins langt og við náum. Þar af leiðandi eiga þingmenn úr öllum flokkum, óháð því hvort menn séu í meiri hluta eða minni hluta, að lýsa sjónarmiðum sínum, koma fram með tillögur og fá afgreiðslu á tillögum þar. Allar tillögur voru bornar upp í nefndinni klukkan hálftólf á mánudaginn, fengu þar afgreiðslu og fóru þar úr nefnd með átta atkvæða meiri hluta og þremur hjásetum minni hluta.

Hugsanlega hefði verið hægt að fjalla um þessar tillögur minni hlutans á undanförnum vikum og mánuðum hefðu þær komið fram. En orð eru til alls fyrst að breyta vinnulagi og vel getur verið að við horfum til fortíðar með það. En ég hef lýst því yfir að ég vil breyta slíku (Forseti hringir.) vinnulagi.