135. löggjafarþing — 33. fundur,  29. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[21:49]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst þetta reyndar athyglisvert sjónarmið hjá hv. þingmanni og formanni fjárlaganefndar. Ég get út af fyrir sig tekið undir að það sé skoðunar virði að menn breyti þessu og að minni hlutinn kynni tillögur sínar í fjárlaganefnd, þá væntanlega í von um að hugsanlega fengjust einhverjar þeirra samþykktar.

Ég held að okkur hafi einfaldlega ekki hugkvæmst að líkur væru á því að við fengjum tillögur okkar um fjármagnstekjuskatt samþykktar í fjárlaganefnd og þær yrðu fluttar af nefndinni. Það hefðu verið veruleg tíðindi. Ef ég man rétt er Vinstri hreyfingin – grænt framboð ein um að hafa mótaða stefnu í sambandi við fyrirkomulag fjármagnstekjuskatta og leggja til beinar kerfisbreytingar eins og við höfum gert undanfarin ár. Aðrir flokkar hafa ýmist sagt lítið eða ekki neitt um það.

Eins og á mörgum fleiri sviðum höfum við þar mjög fastmótaða, ákveðna og útfærða stefnu og höfum flutt hana hér um árabil í frumvarpsformi. En ef svo hefði verið að eitthvað af þeim tillögum hefðu hugsanlega fengist samþykktar í fjárlaganefnd hefðum við fagnað því og þá er vissulega skaði að þær skyldu ekki vera (Gripið fram í.) bornar upp. En þetta er nú eitthvað sem má taka til skoðunar og til athugunar.

Varðandi embætti ríkislögreglustjóra, af því að hv. þingmaður nefndi þar niðurskurð, vil ég segja að þar er um að ræða tilfærslu. Ég var að vona að það væri alveg skýrt. Það á að auka enn verulega fjárveitingar til ríkislögreglustjóraembættisins og ein af ástæðum þess er væntanlega sú að sú undarlega skipan mála er á komin að ríkislögreglustjóraembættið er að aðstoða almennu lögregluembættin og sendir sveitir sínar þeim til aðstoðar á tilteknum tímapunktum. Við teljum þá þróun ekki rétta, að safna enn þá meira saman í þetta miðstýrða apparat á sama tíma og almenna löggæslan veikist þannig að nú viljum við áherslubreytingu. Við viljum færa hluta þessa fjármagns sem þarna á að fara að bæta við út til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og til sýslumannanna til að efla hina almennu löggæslu (Forseti hringir.) sem hefur verið allt of mikið svelt. Það ætti að spara ríkislögreglustjóra (Forseti hringir.) útgjöld á móti þannig að þetta ætti ekki að þurfa að koma svo hart niður þar.