135. löggjafarþing — 33. fundur,  29. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[21:58]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að hv. þingmaður hafi eitthvað misskilið mig eða misheyrst. Ég held ég hafi aldrei talað um að Samfylkingin ætti að vera búin að efna öll sín kosningaloforð. (SVÓ: Jú.) Nei, nei. Ég tók sérstaklega fram að ég væri aðeins að lesa brot af þeim. Ég var hins vegar að reyna að fiska eftir því hvort hún væri búin að efna einhver þeirra, hvort örlaði einhvers staðar á því og fann lítið.

Ég nefndi aðgerðaáætlunina. Hv. þingmaður getur væntanlega staðfest það. Ég sagði að hún væri falleg og háleit markmið í henni, ágæt enda tókum við henni vel. En við bentum þó á að henni fylgdi ekki neitt. Það vantaði það sem við á að éta og það vantar enn, afl þeirra hluta sem gera skal, þ.e. peninga. Að segja að ekki sé hægt að ætlast til of mikils af því að ríkisstjórnin sé bara nokkurra mánaða gömul, já hún er búin að eiga þó nokkra hveitibrauðsdaga, þá verður að hafa í huga að hér er verið að ganga frá fyrstu fjárlögum þessarar ríkisstjórnar til heils árs. (SVÓ: Þau fyrstu af mörgum.) Þau eiga að gilda allt árið 2008. Það verður nú farið að saxast pínulítið á kjörtímabilið ef ekkert á að gerast fyrr en 2009.

En það er verið að segja það, ef loka á fjárlagafrumvarpinu hér án þess að nokkuð sé gert af því tagi, stórfelld loforð sem gefin voru um frítekjumark, um 10% skatt á lífeyristekjur, um stórhækkanir á ýmsum velferðarútgjöldum, ef ekkert á að gerast í þeim efnum núna og ekki á að hefjast handa fyrr en 2009, þá alla vega njóta menn ekki góðs af því á þessu ári. Er kannski verið að gefa í skyn að eðlilegt sé að standa að málum eins og fyrri ríkisstjórn gerði? Ég hélt að Samfylkingin ætlaði ekki að skrifa upp á það, að gera allt hið góða korteri fyrir kosningar. (GÁ: Nei, í 12 ár.) Það var aðferð síðustu ríkisstjórnar. Hún varð allt í einu ofboðslega örlát þegar leið á árið 2006 og sérstaklega upp úr áramótum 2006–2007. Þá gaf hún silfrið á báða (Forseti hringir.) bóga (GÁ: Örlát í 12 ár.) eins og kunnugt er. Ég var nú að vona að Samfylkingin ætlaði ekki í þau fótspor. (Gripið fram í.)