135. löggjafarþing — 33. fundur,  29. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[22:01]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég veit ekki hvort ég get lofað hv. þm. Steinunni Valdísi Óskarsdóttur því að ég láti Samfylkinguna alveg í friði í ræðu minni því að einn þátt sem var ansi drjúgur í kosningaloforðum Samfylkingarinnar lét hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon undir höfuð leggjast að nefna, þátt umhverfismálanna (SJS: Nei, ég nefndi þau aðeins.) (Gripið fram í: Gleymdi hann honum?) Nefndi hann hann aðeins? Ég ætla að fara ítarlega ofan í þann þátt málanna í minni ræðu.

Af því tilefni að (Gripið fram í.) hv. formaður fjárlaganefndar, Gunnar Svavarsson, kom hér í andsvör við hv. þm. Steingrím J. Sigfússon og sagðist sakna þess að hafa ekki fengið að sjá breytingartillögur okkar, þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, í nefndinni langar mig til að segja við hv. þingmann að það væri voða gaman ef öll dýrin í skóginum væru alltaf vinir og það er sannarlega verðugt markmið að keppa að. Við störfum hér hins vegar í stjórn og stjórnarandstöðu og það er alveg eðlilegt að það sé ákveðin viðleitni til að skerpa skilin á milli stjórnar og stjórnarandstöðu í átakamálum, í ágreiningsmálum, og af þeim er auðvitað nóg þegar fjárlög íslenska ríkisins eru til skoðunar.

Ég vil samt segja, og ég vona að hv. þm. Gunnar Svavarsson sé að hlusta á orð mín, að hann og fjárlaganefndin höfðu tækifæri til að verða við óskum umhverfisnefndar Alþingis sem ein og öll sameinuð óskaði eftir ákveðnum hlutum við nefndina í áliti sínu sem sent var nefndinni. Þar beindu allir þingmenn umhverfisnefndar óskum til fjárlaganefndarinnar sem vörðuðu fjármál þriggja stórra stofnana umhverfisráðuneytisins, Umhverfisstofnunar, Náttúrufræðistofnunar Íslands og Skipulagsstofnunar. Þar var ekki orðið við einni einustu af þessum þremur óskum. Náttúrustofurnar fengu til sín örlítið aukið fjármagn eins og gert er á hverju einasta ári þar sem náttúrustofurnar eru skornar niður á hverju einasta ári í hverjum einustu nýjum fjárlögum — það var gert líka núna í fyrstu fjárlögunum sem Samfylkingin stendur að — og svo er það tekið inn aftur á lokasprettinum fyrir 2. umr., um 8 millj. á hverja stofu nema nú virðist ein óvart hafa orðið út undan sem á að leiðrétta. Óskirnar frá umhverfisnefnd voru hins vegar hafðar að engu. Hið sama má segja um sameiginlegar óskir (Gripið fram í.) menntamálanefndar sem líka voru að hluta til sniðgengnar af þessari fjárlaganefnd sem þó vill, eftir því sem hv. formaður segir, að öll dýrin í skóginum séu vinir.

Ég byrja bara ræðu mína á þessum málaflokki, umhverfismálunum. Eins og ég sagði áðan sendi sameinuð umhverfisnefndin álit til fjárlaganefndarinnar. Hún gerði athugasemd við það að heildarútgjöld til málaflokksins, til umhverfisráðuneytisins, væru ef frá væri talin hækkun til Vatnajökulsþjóðgarðs óverulegar breytingar á málaflokknum í heild. Það kom fram í máli ráðuneytisstjóra umhverfisráðuneytisins sem kom til umhverfisnefndar að þegar frá voru taldir sjóðirnir eins og úrvinnslusjóður og endurvinnslusjóður og þeir allir þá náði hækkunin til ráðuneytisins ekki að fylgja verðlagi. Það þýðir í mínum bókum að það hafi verið niðurskurður til umhverfismála á milli ára 2007 og 2008. Þetta gagnrýndi umhverfisnefnd Alþingis sameinuð og bað í sjálfu sér um að það yrði leiðrétt.

Það var ekki gert því að þegar breytingartillögur meiri hlutans líta dagsins ljós kemur í ljós að það er skorið niður við umhverfisráðuneytið þegar á heildina er litið um einar 70 millj. kr. Það skýrist að vísu af því að 100 millj. eru teknar af ofanflóðasjóði sem á sér ákveðnar skýringar sem má svo sem alveg gagnrýna líka, en í heildina er sem sagt breytingartillaga meiri hlutans sú að skornar eru 70 millj. af fjárlagaliðum umhverfisráðuneytisins.

Þar sem umhverfisnefndin fjallaði um Náttúrufræðistofnun Íslands var hún sameinuð í því áliti sínu að Náttúrufræðistofnun Íslands hefði átt við fjárhagsvanda að stríða árum saman og að uppsafnaður fjárhagshalli stofnunarinnar hefði um síðustu áramót, 2006/2007, verið 22 millj. kr., og að hann muni aukast á yfirstandandi ári fáist ekki leiðrétting í fjáraukalögum líkt og fengist hefur undanfarin ár því að við það hefur Náttúrufræðistofnun mátt búa árum saman að þurfa alltaf að reka sjálfa sig með halla og fá síðan einhverja dúsu í fjáraukalögum til að hysja upp hallann.

Það sama gerðist auðvitað á yfirstandandi ári. Umhverfisnefndin átelur að þetta skuli ævinlega vera látið gerast og telur brýnt að leita leiða til að styrkja fjárhagslegan grunn stofnunarinnar í fjárlögum fyrir 2008 og það til frambúðar. Og hvað leggur fjárlaganefndin til? Förum í breytingartillögurnar og þá sjáum við að það er skorið niður við Náttúrufræðistofnun Íslands um 80 millj. kr. Hvers vegna er það gert? Vegna þess að húsnæðið sem er búið að lofa stofnuninni, líka árum saman, sem vilji stóð til að skilaði sér til stofnunarinnar á næsta ári kemur ekki til með að gera það. (Gripið fram í.) Seinkaði afgreiðslu, þannig að Náttúrufræðistofnun Íslands flytur ekki í nýtt húsnæði 2008, þess vegna er þessi niðurskurður. En það er niðurskurður engu að síður og það er engin hækkun, það er engin viðleitni til að gera það fyrir þessa stofnun sem nauðsynlegt er.

Þá spyr ég: Hvar eru yfirlýsingar umhverfisráðherrans sem gefnar voru út í þessu eðla riti og dreift á umhverfisþingi núna nýafstöðnu þar sem umhverfisráðherra setur fram metnaðarfull markmið fyrir sinn málaflokk? Ekkert af þessum markmiðum fær hljómgrunn hjá fjárlaganefndinni. Hæstv. umhverfisráðherra Þórunn Sveinbjarnardóttir ætlar að fara að leiða hér í lög — loksins, og mátti nú ekki seinna vera — samninginn um líffræðilegan fjölbreytileika. Það er búið að reka á eftir því hér árum saman og ég fagna því að Þórunn Sveinbjarnardóttir skuli ætla að lögleiða þann samning og skuli ekki ætla að kalla hér yfir okkur enn eina skýrsluna frá Ríkisendurskoðun þar sem ríkisstjórnin er skömmuð fyrir að hafa ekki leitt þennan samning í lög. En hvar sér þess stað í fjárlagafrumvarpinu að það eigi að leiða samninginn um líffræðilegan fjölbreytileika í lög? Hvergi nokkurs staðar, nákvæmlega hvergi nokkurs staðar.

Það sem Þórunn Sveinbjarnardóttir gefur út hér verður fullkomlega ótrúverðugt þegar skoðaðar eru fjárlagatillögurnar sem fjárlaganefndin hefur lagt hérna fram.

(Forseti (ÁRJ): Hæstv. ráðherra.)

Hæstv. ráðherra Þórunn Sveinbjarnardóttir, ég bið forláts, hæstv. forseti.

Náttúrufræðistofnun Íslands er grundvallarstofnun þegar lífríki íslenskrar náttúru er annars vegar. Það er undarlegt þegar við horfum á Náttúrufræðistofnun Íslands annars vegar og Hafrannsóknastofnun hins vegar hvað það er breitt bil á milli þessara tveggja stofnana. Ég er þeirrar skoðunar að við höfum staðið nokkuð vel að fjármögnun á rannsóknum á lífríki hafsins og Hafrannsóknastofnun hefur fengið til þess fjármuni og ákveðið svigrúm. Það er vel og ég gagnrýni það sannarlega ekki, það mætti örugglega vera meira, ég er sannfærð um það, en ef við skoðum til samanburðar Náttúrufræðistofnun Íslands munar þar talsvert miklu. Hafrannsóknastofnun fær á fjárlögum 1,3 milljarða. Ég veit að mikið af því eru atvinnuvegarannsóknir sem eru veiðarfærarannsóknir og annað slíkt en ég veit líka að lífríkinu er miklu betur sinnt í hafinu hjá þeirri rannsóknastofnun en Náttúrufræðistofnun Íslands er gert kleift að sinna lífríkinu á landi. Náttúrufræðistofnun er með u.þ.b. 400 millj. kr. til samanburðar. Veðurstofan er með um 600 millj., Umhverfisstofnun 660 millj. Af hverju er ekki Náttúrufræðistofnun Íslands a.m.k. jafnstór og hinar tvær stóru stofnanirnar sem umhverfisráðuneytið hefur yfir að ráða? Mér er þetta mjög mikið hjartans mál vegna þess að Samfylkingin hefur talað um það hér og lagt fram um það tillögur árum saman að efla þurfi gerð gróðurkorta og vistgerðarkorta og til þess þurfi aukna fjármuni. Svo þegar Samfylkingin hefur tækifæri til að sýna einhverja viðleitni í þessum efnum kemur ekki neitt.

Umhverfisstofnun sendir umhverfisnefnd bréf um stöðu stofnunarinnar og í því kemur fram að það séu ákveðnar byrðar sem erfitt sé fyrir þá stofnun að bera og full þörf á leiðréttingum ákveðinna þátta þar. Í umsögn Umhverfisstofnunar er talað um að vilji standi til þess að gera vel við Surtseyjarstofu en í frumvarpi til fjárlaga 2007 er boðað að 15 millj. kr. verði úthlutað til reksturs Surtseyjarstofu árið 2008. Samkvæmt kostnaðaráætlun Umhverfisstofnunar er það lágmarksupphæð fyrir rekstur slíkrar stofu en í frumvarpi til fjárlaga 2008, sem við hér höfum til umfjöllunar, er hins vegar lagt til að einungis 12 millj. verði settar í Surtseyjarstofu. Mér er gjörsamlega óskiljanlegt af hverju Umhverfisstofnun fær ekki þær 3 millj. sem vantar í þetta tiltekna verkefni frá fjárlaganefndinni. Þess vegna höfum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs lagt fram tillögu sem gerir ráð fyrir því að hér sé bætt úr.

Umhverfisstofnun gerir líka athugasemd við sértekjumál. Í frumvarpi til fjárlaga segir, með leyfi forseta:

„Rekstrarumfang stofnunarinnar hefur verið nokkru meira en gert hefur verið ráð fyrir í fjárlögum. Um er að ræða útgjöld sem fjármögnuð hafa verið með sértekjum og er gerð leiðrétting á því í frumvarpinu með því að hækka hvort tveggja um 50 millj. kr. Gjöld umfram tekjur og bein framlög úr ríkissjóði verða óbreytt eftir sem áður.“

Um þetta segir Umhverfisstofnun í bréfi til umhverfisnefndar að hún vilji halda því til haga að umhverfisráðuneytið hafi upplýst stofnunina um að hér sé ekki rétt með farið og að tillagan eigi að hljóða upp á lækkun sértekna um 50 millj. kr. en ekki hækkun, enda færist helstu tekjulindir hennar, þ.e. þjóðgarðarnir að Jökulsárgljúfrum og Skaftafelli, til nýrrar stofnunar, Vatnajökulsþjóðgarðs, um áramót.

Nú verður að viðurkennast, hæstv. forseti, að það er ekki einfalt að rýna í breytingarnar sem gerðar eru af meiri hluta fjárlaganefndar þegar Umhverfisstofnun er annars vegar. Sértekjurnar eru lækkaðar um 47 millj., sem ég geri ráð fyrir að sé þessi lækkun sem Umhverfisstofnun er að biðja um, en það eru 47 millj. en ekki 50 eins og Umhverfisstofnun óskar eftir. Síðan eru mínusaðar 42 millj. á aðalfjárlagalið Umhverfisstofnunar og í fylgiskjali fjárlaganefndarinnar er sagt að það sé vegna Vatnajökulsþjóðgarðs þannig að 42 millj. eru yfirfærðar á viðfangsefnið Vatnajökulsþjóðgarður sem ég geri athugasemd við vegna þess að við eigum eftir að sjá hversu auðvelt það verður að stofna Vatnajökulsþjóðgarð sem sjálfstæða stofnun án þess að Umhverfisstofnun hafi þar nokkra umsýslu. Ég velti fyrir mér hvort Umhverfisstofnun sé ekki að missa hér af fjárlagaliðum sínum allt of háar upphæðir miðað við það að hún á að vera og kemur til með að þurfa að vera, hvernig sem allt veltist og fer, ráðgjafarstofnun þessa nýja þjóðgarðs.

Ég hefði í sjálfu sér viljað sjá Þjóðgarðastofnun Íslands stofnaða þar sem allir þjóðgarðarnir okkar gætu heyrt undir sömu stofnunina. Við þekkjum vel umræðuna um Náttúruvernd ríkisins sem var innlimuð í Umhverfisstofnun á sínum tíma þegar Umhverfisstofnun var stofnuð úr nokkrum veikburða stofnunum. Náttúruverndin hefur aldrei fengið byr í vængina innan Umhverfisstofnunar. Ef vilji þessarar ríkisstjórnar er að bæta eitthvað úr varðandi þjóðgarðana og friðlýstu svæðin okkar hefði verið ráð að efla Umhverfisstofnun og þá sérstaklega náttúruverndarþáttinn. Það er því miður ekki gert. Umhverfisstofnun fær hins vegar 50 millj. kr. til þess að reisa gestastofu í þjóðgarðinum á Snæfellsnesi, og það er auðvitað vel og tímabært að það sé gert. Það breytir þó ekki því að heildaráætlun fyrir stjórnsýslu og umsýslu okkar friðlýstu svæða og þjóðgarða liggur ekki fyrir. Umhverfisstofnun fékk sem sagt plús hjá umhverfisnefnd en ekki hjá fjárlaganefndinni.

Þá kemur að þriðju stofnuninni sem ég vildi gera hér að umtalsefni, Skipulagsstofnun. Í umsögn eða áliti umhverfisnefndar til fjárlaganefndar bendum við á að í umsögn Skipulagsstofnunar sé óskað eftir auknum fjárveitingum til ákveðinna þátta stofnunarinnar, í fyrsta lagi til að veita almenningi aðgang að skipulagsvefsjá þar sem finna má upplýsingar um skipulagsmál í öllum sveitarfélögum landsins. Einnig kemur fram í umsögn Skipulagsstofnunar að það þurfi tímabundna fjárveitingu til eins árs til að halda málþing og gefa út sögu skipulags á Íslandi, halda ársfund norrænna skipulagsyfirvalda og fleira í tengslum við afmælishaldið. Á árinu 2008 verða liðin 70 ár frá því að stofnað var til forvera Skipulagsstofnunar og 10 ár frá gildistöku skipulags- og byggingarlaganna.

Umsögn umhverfisnefndar um þessar beiðnir Skipulagsstofnunar er eftirfarandi: Hún segist telja ástæðu til að koma til móts við umræddar óskir og leggur áherslu á að framangreindar stofnanir, þessar þrjár sem ég hef nú talið, fái fullnægjandi fjárheimildir til að sinna lögbundnum verkefnum sínum og skorar nefndin á fjárlaganefnd, eins og sagt er í umsögn hennar, hæstv. forseti, að taka athugasemdir í umsögn þeirra til sérstakrar skoðunar. Ef fjárlaganefndin hefur tekið þessar athugasemdir til sérstakrar skoðunar hefur hún hafnað þeim og það hlýtur hún að hafa gert meðvitað og með opin augu.

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs erum nokkuð döpur yfir því. Við áttum jafnvel von á að eitthvað mundi gerast. Í þeirri góðu trú undirritaði ég álit Umhverfisstofnunar, en úr því að svo varð ekki endar það auðvitað þannig að við flytjum hér breytingartillögu. Hún er í fjórum liðum. Þar gerum við ráð fyrir að Umhverfisstofnun fái aukið fjárframlag upp á 28 millj. kr. sem við teljum mjög raunhæft og sannarlega ekki neina ofrausn. Hið sama má segja um Skipulagsstofnun. Þar leggjum við til 20 millj. kr. aukið framlag. Og hjá Náttúrufræðistofnun Íslands leggjum við til 45 millj. kr. aukið framlag.

Svo að ég geri aðeins grein fyrir því hvernig sú tala er fengin gerum við ráð fyrir því að 25 millj. kr. séu settar í að styrkja landvörslu á friðlýstum svæðum. Það veitir ekki af því að landvörðum hefur fækkað á undanförnum árum. Við heyrum það sem höfum verið að vinna í fjárlagavinnunni upp á síðkastið að sveitarfélögin koma til okkar hvert á fætur öðru og biðja hér ásjár vegna þess að ekki sé hægt að reisa kamra á friðlýstu svæðunum og ekki hægt að sinna landvörslunni að neinu marki. Við heyrum ófagrar sögur af umgengni á friðlýstu svæðunum af því að ekki eru til nægilega miklir fjármunir til eftirlits á þessum stöðum. Þess vegna teljum við algjörlega lífsnauðsynlegt að þessar 25 millj. kr. sem óskað er eftir til aukinnar landvörslu komi til í gegnum þessa fjárlagavinnu núna.

Fótaskortur hefur mér orðið á tungunni, hæstv. forseti, því að liðurinn Landvarsla heyrir undir Umhverfisstofnun þannig að Umhverfisstofnun greiðir landvörsluna. Þessir fjármunir, 28 millj. kr. til hennar á breytingartillögunni okkar, ættu að vera 25 til landvörslunnar og 3 til Surtseyjarstofu.

Varðandi Náttúrufræðistofnun Íslands gerum við ráð fyrir því að sértekjuáætlunin þyrfti að lækka um 30 millj. kr. Ég á reyndar von á því að kannski gerist eitthvað milli 2. og 3. umr. og ég skora sannarlega á fjárlaganefnd að verða við þessum óskum úr því að umhverfisnefndin stendur heils hugar og öll á bak við þetta allt saman.

Við teljum sem sagt mjög mikilvægt að bætt verði inn á Náttúrufræðistofnun Íslands annars vegar 30 millj. kr. viðbótarframlagi til að tryggja að ekki verði halli á stofnuninni eina ferðina enn við næstu áramót. Það gæti þá bætt skort á grunnþekkingunni, 30 milljónirnar gætu verið fjögur stöðugildi, gæti maður ímyndað sér. Svo teljum við að flokkunarfræðinga vanti, þeim hefur fækkað á stofnuninni. Ef við hefðum eins og tvö stöðugildi fyrir flokkunarfræðinga upp á 15 millj. erum við að tala um 45 millj. kr. hækkun til að bæta við einum 4–6 stöðugildum. Það mundi þá bæta úr þessari brýnu þörf og við gætum haldið höfði hvað varðar innleiðinguna á samningnum um líffræðilegan fjölbreytileika og fleiri brýn verkefni sem stofnunin er að vinna.

Ein stofnun enn er hér á breytingartillögunni á þskj. 364 sem varðar þessar stofnanir umhverfisráðuneytisins, Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn. Hún lætur ekki mikið yfir sér en er afar merkileg stofnun og hefur verið mikill máttarstólpi í samfélaginu við Mývatn. Umsögnin sem umhverfisnefnd fékk frá Náttúrurannsóknastöðinni var afar hógvær. Forstöðumaður stofnunarinnar segir fyrirsjáanlegt að þótt framlag til RAMÝ, eins og er skammstöfun stofnunarinnar, þurfi að hækka í framtíðinni vegna húsnæðismála sé ekki farið fram á neina sérstaka upphæð en sagt að það þurfi að kosta viðgerðir og viðhald á gamla prestshúsinu á Skútustöðum sem rannsóknastöðin hefur til afnota og að helst þurfi að auka húsnæðið með kaupum á viðbótarhúsnæði í Skjólbrekku, í félagsheimilinu, og það verði leitað eftir viðbótarfé til þessara hluta eftir hefðbundnum leiðum innan stjórnkerfisins. Rannsóknastöðin við Mývatn nýtur ekki sömu hlunninda og t.d. náttúrustofur sem sveitarfélögin útvega húsnæði.

Þetta ákall í ákaflega mikilli hógværð er þess eðlis að ég hefði haldið að við gætum orðið við því að einhverju marki. Það hefur ekki verið. Fjárlaganefndin sá ekki ástæðu til þess að gera neinar breytingartillögur en við gerum það í minni hlutanum og leggjum til að rannsóknastöðin við Mývatn fái 8 millj. kr. til viðbótar þannig að framlagið hækki úr 19 millj. í 27.

Hæstv. forseti. Ég hef þá lokið yfirferð yfir þær breytingartillögur sem við höfum lagt fram á þskj. 364 og mig langar núna til að fara nokkrum orðum um málaflokkinn í heild sinni, umhverfismálin. Í öllum asanum sem var á vinnu okkar, þingmanna, þegar við þurftum að bíða eftir tillögum meiri hlutans til klukkan að verða 10 í gærkvöldi hefur ekki unnist tími til að gera allt eins og maður vildi. Eins og ég lýsti hér í morgun þegar við vorum að ræða um störf þingsins komst ég ekki í að lesa þessi gögn fyrr en snemma í morgun, klukkan hálftíu, og þá setti ég saman hugleiðingar sem mig langar til að koma að í ræðu minni.

Ég verð að segja, eins og ég vék kannski að í fyrri ræðu minni, að það hefði mátt búast við að umhverfismálunum yrði gert nokkuð hátt undir höfði í fyrsta fjárlagafrumvarpi nýrrar ríkisstjórnar, því fyrsta sem Samfylkingin stendur að, en það er mjög miður að sú skuli ekki vera raunin. Ef frá er talin hækkun á framlagi vegna Vatnajökulsþjóðgarðs standa framlög til málaflokksins nokkurn veginn í stað á milli ára og stofnanir á borð við Umhverfisstofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands og Skipulagsstofnun þurfa enn að sæta því að fá ekki fjárframlög í samræmi við lögbundnar skyldur.

Enn bólar ekkert á fjármunum í fræðsluþátt umhverfismála sem þó er á könnu umhverfisráðuneytisins samkvæmt skilgreiningu. Hafa umhverfisráðherrar margoft viðurkennt þörfina fyrir aukna fræðslu í þessum málaflokki en ekki náð að standa við stóru orðin í þeim efnum.

Miklar breytingar eru fyrirhugaðar á málaflokkum umhverfisráðuneytisins þegar horft er til frumvarps ríkisstjórnarinnar um Stjórnarráð Íslands. Í orði kveðnu er talað um að efla umhverfisráðuneytið til muna með því að fella undir það málaflokka á borð við skógrækt og landgræðslu. Þau áform mæta gríðarlegri andstöðu, sérstaklega meðal skógræktarfólks, og það er greinilegt að ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa sniðgengið samráð þvert ofan í yfirlýsingar um annað í stjórnarsáttmálunum og útgefnum áherslum umhverfisráðherra.

Mjög mörg orð mætti hafa um þær aðferðir allar og verður slíkt gert á öðrum vettvangi, en hér er nauðsynlegt að benda á hversu grunnhyggin ríkisstjórnin virðist þegar hún gerir ráð fyrir að uppstokkun málaflokka af þessari stærðargráðu geti orðið án þess að til falli nokkur kostnaður. Þá er ég, virðulegi forseti, með í huga bandorminn góða um stjórnlagabreytingarnar. Ef við rifjum upp hvað fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins segir í umsögn sinni með því frumvarpi telur fjármálaráðuneytið að áhrif frumvarpsins á kostnað ríkissjóðs verði einkum í formi tilflutnings á kostnaði milli ráðuneyta og stofnana og auki þannig ekki heildarkostnað ríkissjóðs. Annað er auðvitað að koma á daginn í breytingartillögum meiri hlutans eins og bent hefur verið á í ræðum sem hér voru fluttar fyrr í dag.

Virðulegi forseti. Þegar á heildina er litið hefur umhverfisráðuneytið sem er yngsta ráðuneytið í Stjórnarráðinu liðið fyrir skort á skilningi ríkisstjórna á mikilvægi málaflokksins. Nú er komin til valda ríkisstjórn sem segir í málefnasamningi sínum að Ísland eigi að vera í fararbroddi í umhverfismálum. Slík yfirlýsing verður ótrúverðug og lítið annað en orðin tóm þegar ekki er gert ráð fyrir nýrri forgangsröðun í fjárlagafrumvarpi. Vegur málaflokksins og virðing umhverfisráðuneytisins mun ekki vaxa fyrr en menn opna augu sín fyrir því að undirstaða áframhaldandi auðlindanýtingar á Íslandi byggir á ábyrgri stjórn umhverfismála. Umhverfisráðuneytið gegnir mikilvægu hlutverki í þeim efnum en fær ekki að njóta sín fyrr en ríkisstjórnin viðurkennir það í fjárlögunum.

Hæstv. forseti. Ég held að ég leyfi mér þá að snúa mér að næsta málaflokki, menntamálunum. Við erum með breytingartillögu í honum. Auk mín flytja hv. þm. Auður Lilja Erlingsdóttir og Jón Bjarnason tillögu á þskj. 367 sem ég ætla að mæla fyrir. Sömuleiðis erum við með breytingartillögu á þskj. 366. Hún er flutt af hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur og Auði Lilju Erlingsdóttur auk mín.

Ég ætla ekki alveg að tæma umræðuna um skólamálin því að ég geri ráð fyrir að hv. þm. Katrín Jakobsdóttir og jafnvel hv. þm. Auður Lilja Erlingsdóttir eigi eftir að fjalla um skólamálin síðar í umræðunni. Um aðra þætti tillögunnar mun ég kannski hafa örlítið meira mál.

Menntamálanefndin var nokkuð samstiga í áliti sínu, í framhaldi af því sem við ræddum áðan um að það væri gaman ef öll dýrin í skóginum væru vinir. Minni hluti menntamálanefndar gat tekið undir í raun og veru allt sem sagði í áliti meiri hlutans. Og hvað sagði í áliti meiri hlutans til fjárlaganefndar? Við lögðum sameiginlega, nefndin öll, áherslu á að hækka þyrfti fjárveitingu til einnar merkrar stofnunar sem heyrir undir menntamálaráðuneytið og það er Listasafn Íslands.

Menntamálanefndin hafði fyrr í vetur farið í heimsókn til Listasafns Íslands og fengið afskaplega góðar móttökur, leiðsögn um safnið og allan þess húsakost og geymslur og við urðum vægast sagt, hæstv. forseti, fyrir mjög miklum áhrifum af þeirri heimsókn. Við báðum listasafnið um að senda okkur greinargerð þar sem gerð væri grein fyrir fjárhag safnsins og aðstöðu eða aðstöðuleysi. Það varð við því og við fengum bréf frá listasafninu þar sem það kom fram, var sýnt í gröfum og kökuritum, hvernig rekstur Listasafns Íslands hefur smám saman orðið erfiðari á undanförnum árum. Þau hafa orðið að bregðast við þessum erfiðleikum með fækkun stöðugilda og nú hefur Listasafn Íslands á síðustu árum þurft að fækka stöðugildum um 3,15. Rúmlega þrír starfsmenn eru á síðustu árum horfnir frá Listasafni Íslands.

Slíkt er til marks um að ansi mikið vantar upp á það að safnið geti haldið í við eðlilega þróun eða sinnt lögbundnu hlutverki sínu. Á sama tíma og safnið ætti að vera í örum vexti og útrás til allra átta fyrir hönd íslenskrar myndlistar er þarna um samdrátt að ræða. Þó er ótrúlega lítið sem við, gestir safnsins, sjáum þennan niðurskurð og þann þrönga stakk sem safninu hefur verið sniðinn sem ber að þakka fyrst og fremst einvalastarfsliði sem hefur af eljusemi, miklum dugnaði og kunnáttu og fagmennsku haldið uppi alveg ótrúlega metnaðarfullu starfi þrátt fyrir þær hremmingar sem ganga yfir í fjármálunum.

Það kemur fram í bréfi listasafnsins til menntamálanefndarinnar að það leggi höfuðáherslu á eflingu rannsóknastarfs sem komið getur öllu innra starfi á góðan rekspöl. Það er í raun og veru í þeim geira sem sér á, rannsóknirnar hafa legið á hillunni og forvarslan mögulega sem og þeir hlutir sem eru ekki kannski sýnilegir gests auganu en skipta samt sköpum og eru grundvöllur alls hins sýnilega starfs.

Í bréfi listasafnsins segir að eina dæmið um sýnilegar þrengingar sé skortur á stækkunarmöguleikum. Fljótlega eftir opnun nýrra húsakynna á ofanverðum 9. áratugnum kom í ljós að safnið hafði allt of lítið geymslurými og salirnir einungis fjórir og flestir litlir þannig að það var útilokað að sýna safneignina svo að nokkru næmi. Lýsingin í sölunum er orðin lúin, ljósakerfið úrelt og þarfnast mjög fljótlega endurnýjunar. Svo kemur að geymsluvandanum, hann er þegar kominn á blöð þykkrar skýrslu í menntamálaráðuneytinu og hún lýsir hreinu ófremdarástandi eins og sakir standa. Þess vegna er úrlausn í geymslumálum auk rannsóknastarfsins forgangsverkefni hjá safninu og skiptir sköpum um það hvort í nánustu framtíð verði yfir höfuð hægt að koma helstu perlum íslenskrar myndlistar í varanlegt og ásættanlegt skjól.

Við menntamálanefndin fórum með safnstjóra og starfsfólki um húsakynni safnsins og sáum þessar geymslur og sáum blasa við að húseignin að Laufásvegi 14, sem safnið hefur árum saman óskað eftir að fengist keypt fyrir geymslu- og skrifstofurými, var nýlega seld þannig að í raun og veru er búið að rýra möguleika safnsins á stækkun af því að menntamálaráðuneytið lét sér úr greipum renna þessa húseign sem lá svo beint við að yrði hluti af safninu í nánustu framtíð.

Þetta er skýrt að nokkru í erindi safnsins til nefndarinnar og þar segir að sótt hafi verið um fjárveitingu til menntamálaráðuneytisins til að kaupa þessa húseign að Laufásvegi 14, að öllum líkindum yrði hún þá til sölu á mun hærra verði en hún var fyrir ári eða hvenær sem hún var seld síðast. Safnstjóri segir að einhverra hluta vegna hafi þessi heimild ekki skilað sér inn í fjárlögin þegar þau töldu sig samt vera búin að fá vilyrði fyrir henni hjá menntamálaráðherra. Eðlileg stækkun húsnæðis Listasafns Íslands er sem sagt á meðal helstu áhersluatriða safnsins og lýtur að tengingu safnsins við Fríkirkjuveg 7 sem er aðalsafnhúsið og við skrifstofubygginguna sem er að Laufásvegi 12 og telst því forsenda þess að hægt sé að flytja listaverk innan dyra til forvörslu í safnbyggingunni. Núna þurfa þau að fara með verkin út úr húsi til að koma þeim í forvörslu sem er algerlega óviðunandi.

Hæstv. menntamálaráðherra hefur tjáð sig um brýna þörf á því að leysa ýmis verkefni í geymslumálum safna. Ég er hér með lítinn pistil sem hún skrifaði í Fréttablaðið föstudaginn 12. janúar 2007. Það var áður en síðasta ríkisstjórn fór frá völdum. Þar segir hæstv. menntamálaráðherra að almennt sé geymsluaðstaða opinberra safna í því horfi sem ekki verði við unað. Um geymslumál Listasafns Íslands segir hæstv. ráðherra, með leyfi forseta:

„Einnig er brýn nauðsyn þess að tekið verði með festu á geymslumálum Listasafns Íslands sem hefur í safnhúsi sínu eina góða sérhannaða málverkageymslu sem er þó löngu sprungin. Að auki leigir safnið óhentuga geymslu. Núverandi geymsluaðstaða er því allsendis ófullnægjandi.“

Í þessum pistli talar hún reyndar líka um geymsluaðstöðu Náttúrufræðistofnunar Íslands og Þjóðskjalasafns Íslands. Nú er meiri hluti fjárlaganefndar að bæta úr hvað varðar Þjóðskjalasafnið að því er virðist, það eru ríflegir fjármunir sem koma til Þjóðskjalasafns í breytingartillögum meiri hlutans þó að þeir séu greinilega mestmegnis ætlaðir til nýskráningar á ákveðnum söfnum, m.a. söfnum bankanna sem voru einkavæddir þannig að ýmis eru nú áhrif einkavæðingarinnar. Engu að síður, hæstv. menntamálaráðherra viðurkennir fúslega í þessum pistli frá 12. janúar 2007 þann erfiða vanda sem við er að etja í geymslumálum Listasafns Íslands.

Nú spyr ég hv. meiri hluta í fjárlaganefnd: Hvers vegna var ekki orðið við þeirri einróma beiðni menntamálanefndar Alþingis Íslendinga að leysa úr þessum vanda á milli umræðna um fjárlagafrumvarpið? Mér er spurn og ég held að við hljótum að verða að fá svör við þeim spurningum áður en umræðunni hér lýkur.

Vaðandi skólamálin, svo að ég snúi mér að þeim, virðulegi forseti, kemur fram í áliti meiri hluta menntamálanefndar að gestur hafi komið til okkar bæði frá Háskóla Íslands og Félagi framhaldsskóla. Meiri hlutinn í menntamálanefnd, og minni hlutinn tekur undir það, greinir í nokkrum orðum frá helstu áherslumálum þessara aðila. Meðal þess var að Félag framhaldsskóla segir okkur að fjárlagafrumvarpið feli í sér niðurskurð á fjárveitingum til framhaldsskólanna, hækkunin nær sem sagt ekki að halda í við verðlagshækkanir. Og þó að nú komi í breytingartillögum meiri hlutans tilteknar breytingar er ekki tekist á við breytinguna sem þarf að gera fyrir heildina, heldur mjög sérhæfðar tillögur sem meiri hlutinn kemur með í þeim efnum. Þeim er að sjálfsögðu fagnað en það verður að gera meira. Eða ætlar Samfylkingin að láta niðurskurðinn sem boðaður er í nýju frumvarpi menntamálaráðherra, sem boðar niðurskurð á framhaldsskólastiginu, yfir sig ganga?

Mér finnst mjög miður ef svo er. Ég hélt að velunnarar framhaldsskólans ættu sterkan bandamann í Samfylkingunni og ég tel Samfylkinguna þurfa að svara í þessari umræðu fyrir þær vísbendingar sem eru í gögnum okkar. Menntamálanefnd öll styður það og beinir því til fjárlaganefndar að málefni háskólanna og framhaldsskólanna verði tekin til sérstakrar skoðunar. Ég spyr: Hverju skilaði sú skoðun eða fór hún kannski ekki fram? Hún skilar ekki því að áherslum sé breytt sem eru í frumvarpinu varðandi háskólana þar sem nemendum er beinlínis stýrt í þá skóla sem taka skólagjöld. Það er áhyggjuefni, hæstv. forseti, að það skuli vera með samþykki Samfylkingarinnar sem einkaskólarnir fá fjölgun nemendaígilda langt umfram það sem opinberu háskólarnir fá. Kennaraháskóli Íslands og Háskóli Íslands fá u.þ.b. 3% fjölgun nemendaígilda, 3–3,2%, á sama tíma og Háskólinn í Reykjavík og Háskólinn á Bifröst fá 5,8 og 6,2% fjölgun. Þetta þýðir bara það að það er verið að beina háskólastúdentum meðvitað inn í skóla sem taka skólagjöld.

Á sama tíma berst Háskóli Íslands við það að það er aukning skráninga hjá honum um 6% og hann fær ekki framlög með 435 nemendaígildum. Ef Háskóli Íslands ætti að fá framlög með þeim ættum við að bæta við á Háskóla Íslands 279 millj. kr. Ég spyr: Af hverju er það ekki gert? Þetta er pólitík, þetta er menntapólitík og þetta er yfirlýsing af hálfu ríkisstjórnarinnar um að það skuli fjölga meira í einkaskólunum en í hinum opinberu. Mér finnst það mjög alvarleg skilaboð.

Hitt er aftur á móti gott — af því að hér hafa menn kvartað undan því að við séum með svartagallsraus, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs — og verulegt fagnaðarefni hvað háskólasetrin vítt um land fá gott brautargengi og aukna fjármuni. Það eru að hluta til mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna niðurskurðar í þorskstofninum en engu að síður tel ég að það eigi eftir að skila sér margfalt til baka, en það má ekki og er ekki hægt að réttlæta aukninguna á framlögum til háskólasetra vítt og breitt um landið með því að móðurskólinn sé einlægt skilinn eftir.

Ég get líka sagt hér að auðvitað þökkum við fyrir rannsókna- og kennslusamninginn sem gerður hefur verið en hann er bara ekki fullnægjandi á meðan ekki er greitt með á fimmta hundrað nemendaígildum.

Ég ætla kannski að láta þetta nægja um skólamál, hæstv. forseti, af tillitssemi við hv. þingmenn. Ég ætla að reyna að hafa ræðu mína í styttra laginu en eftirlæt félögum mínum, eins og ég sagði áðan, að fara betur yfir menntamálin og þá sérstaklega hlut framhaldsskólanna.

Ég spurði um það áðan í andsvari við hv. varaformann fjárlaganefndar hvernig skiptingin á þessum rúmu 1,5 milljörðum sem koma hér í viðbætur til mennta- og menningarmála er á milli mennta- og menningarmála. Ég var að vona að ég yrði búin að fá svar við þeirri spurningu þegar ég kæmi í ræðustól en það svar hefur ekki borist þannig að ég verð að bíða með ákveðna þætti og verð kannski með getgátur út af því. Ég tel að við eigum enn eftir að fá að vita hvernig þessir þættir skiptast, þessi mikla aukning sem kemur núna frá meiri hlutanum, á milli menningar- og menntamála.

Áður en ég kem inn á safnliðina, hæstv. forseti, ætla ég að fara nokkrum orðum um breytingartillögu sem er á þskj. 367. Það er breytingartillaga frá þremur hv. þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, auk mín eru þar hv. þm. Auður Lilja Erlingsdóttir og Jón Bjarnason. Þetta er tillaga sem við höfum flutt áður og tengist þingmálum sem við höfum flutt og einu af okkar hjartans málum. Hún varðar listgreinar í framhaldsskólunum og framhaldsnám í tónlist.

Ég kom í andsvari áðan að málefnum Myndlistaskólans í Reykjavík og Myndlistaskólans á Akureyri. Þeir báðir leggja ríkinu lið vegna þess að þeir kenna greinar sem nemar á listnámsbrautum framhaldsskólanna geta tekið í þessum skólum. Listnámsbrautirnar í framhaldsskólunum hafa fengið eðlilegar hækkanir, a.m.k. upp að vissu marki, á undanförnum árum sem þessir listaskólar hafa ekki notið. Þeir hafa búið við þröngan kost og hafa ekki fengið viðurkenningu á því námi sem þeir láta nemendum í té, námi sem nemendur greiða skólagjöld fyrir, námi sem umboðsmaður Alþingis er búinn að segja að eigi að greiðast af ríkinu — og enn bólar ekkert á breytingum frá hæstv. ríkisstjórn í þessum efnum.

Þess vegna verðum við í stjórnarandstöðunni að leggja fram tillögur í þessum efnum og við vonum auðvitað, þó að þær hafi ekki verið lagðar fram í fjárlaganefndinni þó að þær liggi hér á pappírum, að hv. nefnd taki þær til skoðunar á milli 2. og 3. umr. og taki einhverjar þeirra til það alvarlegrar skoðunar að þær náist hér í gegn. Ég tel að þetta sé ein af þeim tillögum sem ætti að nást í gegn og það ætti ekki að vera nein andstaða við það að rétta hlut þeirra listaskóla sem taka þátt í að kenna listirnar á framhaldsstiginu og leggja mjög mikið af mörkum, auka fjölbreytnina í listnáminu, auka fjölbreytnina í framhaldsskólunum og eiga þarna hönk upp í bakið á ríkisstjórninni og okkur sem förum með fjárveitingavaldið.

Við gerum ráð fyrir því, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, að listgreinar í framhaldsskólunum fái 60 millj. kr. fjárveitingu og að framhaldsnám í tónlist sérstaklega fái 80 millj. kr. fjárveitingu. Það byggjum við á þeirri yfirlýsingu hæstv. menntamálaráðherra Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, sem er orðin a.m.k. tveggja ára gömul, að hennar skoðun sé sú að ríkið og ríkissjóður eigi að standa straum af kostnaði við allt framhaldsnám í tónlist, þ.e. að þegar tónlistarnemi er kominn upp á framhaldsstig eigi ríkið að greiða kostnaðinn af því. (Gripið fram í: Það er í nýja frumvarpinu.) Það er í nýja frumvarpinu, er mér tjáð í frammíkalli, það kemst upp um strákinn Tuma því að ég hef ekki haft tíma til að lesa frumvarp menntamálaráðherra. (Gripið fram í: Af hverju kemur það ekki inn í fjárlögin?) Þá spyr ég næstu spurningar sem kemur hér utan úr sal: Hvers vegna kemur það ekki inn í fjárlögin? (Gripið fram í.) 80 millj. í framhaldsnám í tónlist er tillaga okkar, þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, og ég treysti því að þessu verði vel tekið í umræðunni sem hér er fram undan og stendur nú yfir.

Þá er ég komin að safnliðunum, hæstv. forseti, og held að nú sé tímabært að væta kverkarnar örlítið.

Hv. formaður fjárlaganefndar hefur sagt það í þessum ræðustóli og síðast í dag í flutningsræðu sinni að hann vilji sjá ný vinnubrögð við fjárlagagerðina. Við stjórnarandstæðingar höfum tekið undir með honum í þeim efnum. Við viljum líka sjá öðruvísi vinnubrögð og fögnum þeim tilraunum sem hv. þingmaður hefur nú þegar sýnt í þessum efnum.

Eitt af þeim atriðum sem við verðum að taka til skoðunar og við hv. þingmaður erum sammála um er úthlutun á safnliðum í fjárlagafrumvarpinu. Mín skoðun hefur verið sú að safnliðirnir séu í sjálfu sér orðnir mjög erfiðir og þungir í vöfum. Það kemur fram í ræðu hv. formanns fjárlaganefndar Gunnars Svavarssonar í dag að umsóknum og beiðnum til fjárlaganefndar og fundum með fjárlaganefnd hafi fjölgað um nær 40% á milli ára. Hv. þingmaður sagði að skoða yrði í heild sinni þetta vinnulag sem við höfum varðandi þessa safnliði og úthlutun á þeim. Hann sagði að að nokkru leyti gæti sú breyting verið fólgin í einhvers konar styrkingu þeirra sjóða sem nú þegar eru til staðar í fjárlagafrumvarpinu og eru ætlaðir til að styrkja ákveðna þætti í menningu okkar. Síðan sagði hann eitthvað á þá leið að það væri eðlilegt að við gætum líka fjallað um þessi mál fyrr á árinu en hingað til hefur verið gert og hv. þingmaður telur eðlilegt að við munum fylgja eftir þessum úthlutunartillögum, fylgjast þá með þeim verkefnum sem hafa verið í gangi eða eru sett af stað af Alþingi. Allt tel ég þetta vera af hinu góða og til bóta.

Mér finnst vægast sagt ótrúlega bíræfið af okkur samt við afgreiðslu þessara fjárlaga að leggja það til eins og meiri hlutinn gerir að settur verði — ja, mér telst til mjög lauslega útreiknað — u.þ.b. einn milljarður í menningartengd verkefni á safnliðum á sama tíma og við sveltum sjóðina sem hafa þau lögbundnu hlutverk sem umsóknirnar, sem við fáum, fjalla um. Ég nefni Safnasjóð sem safnaráð úthlutar úr og um Safnasjóð og safnaráð gilda lög. Sjóðurinn fær 87,7 millj. í fjárlagafrumvarpinu. Ég nefni fornleifasjóð, hann fær 144 millj. Ég nefni húsafriðunarsjóð, hann fær 93,3 millj. Reyndar bætir meiri hlutinn við hann, ekki einu sinni 93,3 millj., heldur næstum því tvisvar sinnum því að 155 millj. er bætt við í húsafriðunarsjóð. Það er valið, fjárlaganefnd velur þau verkefni sem húsafriðunarsjóður á að greiða upp á þessar 155 millj. Síðan nefni ég hérna samningana við sveitarfélögin um menningarmál. Nú eru allir landshlutarnir meira eða minna komnir með menningartengda samninga sem hafa verið keppikefli okkar allra og þeir fá í fjárlagafrumvarpinu 279 millj. samtals. Menningarsjóður félagsheimila, sem mér finnst mjög merkur sjóður og vil halda á lífi og taldi að mætti efla eða rifja upp fyrir fólki að væri til, fær 8,5 millj. í fjárlagafrumvarpinu.

Þá höfum við tónlistarsjóð sem fær 54 millj. kr. í fjárlagafrumvarpinu, bókmenntasjóð sem fær 50 millj., Barnamenningarsjóð sem fær 4,9 millj., launasjóð höfunda fræðirita sem fær 12,2 og ég get nefnt líka Hið íslenska bókmenntafélag sem fær 19,7. Ef ég nefni leiklistina eru það Bandalag áhugaleikfélaga og sjálfstæðir atvinnuleikhópar sem fá samkvæmt fjárlagafrumvarpinu til úthlutunar, bandalagið 22,4 til áhugaleikfélaganna og 5,3 til skrifstofunnar sinnar, og starfsemi atvinnuleikhópanna fær 60 millj. Það er búið að hækka liðina til leiklistarinnar örlítið og það er auðvitað vel, en eins og ég segi eru hér tilgreindir sjóðir sem eiga að sinna því verkefni á faglegan hátt að úthluta til menningarverkefna.

Mín skoðun er sú að það eigi að efla þessa sjóði. Það á að draga úr þeirri hjáveitu sem fjárlaganefnd hefur skapað á undanförnum árum. Ég sagði við 1. umr. í fjárlögum að það væri tímabært að breyta þessum vinnubrögðum og ég tel að hv. formaður fjárlaganefndarinnar sé mér sammála. Það met ég af orðum hans í ræðu í dag.

Ég veit eiginlega ekki hvar við eigum að byrja í sambandi við þessa safnliði því að þetta eru gríðarlega háar upphæðir, virðulegi forseti. Það hlýtur að liggja í hlutarins eðli að fjárlaganefnd hefur ekki þá yfirsýn sem faglegar sjóðstjórnir hafa í þessum efnum. Ég tel að fjárlaganefnd sé með óþarfavantrú á sjóðstjórnunum sem við höfum komið okkur upp.

Nú langar mig til að nefna styrkina sem Norðurlöndin hafa komið sér saman um að veita til menningarmála undir yfirskriftinni „Kultur Kontakt Nord“. Það er hið nýja styrkjakerfi sem Norðurlandaráð hefur komið á þar sem búið er að skapa eftir áralanga reynslu mjög skilvirkar reglur sem sjóðstjórn, sem starfar til þriggja ára, fer eftir. Á þriggja ára fresti er skipt um sjóðstjórn þannig að það sé tryggt eins og kostur er að ekki verði um neina spillingu að ræða, heldur bara að það séu nýir fagmenn sem koma að á þriggja ára fresti. Fulltrúarnir eru alls staðar að af Norðurlöndunum og allir sem starfa í geiranum eru hæstánægðir með þetta fyrirkomulag. Og það eru stjórnmálamennirnir á Norðurlöndunum líka. Við höfum dæmi um vel smurðar maskínur sem úthluta fjármunum til menningarmála á faglegum forsendum þar sem jafningjamat fer fram en ekki mat reiknað með mælistiku fjárlaganefndar Alþingis. Hún er skiljanleg að ýmsu leyti. Auðvitað vilja hv. þingmenn öllum Íslendingum og menningunni vel, og hver og einn vill sínu byggðarlagi vel og þar fram eftir götum. Allt er þetta gert með góðum hug, en það er ekki fagmannlegt. Það þarf að breyta því til að við getum staðið nokkuð keik á bak við þessi merku framlög. Ég ítreka það sem ég hef oft gert áður við umræðu um fjárlög að ég er ekki að kasta neinni rýrð á verkefnin sem um ræðir, heldur einungis á vinnubrögðin. Ég er ekki einu sinni að gagnrýna þá fjármuni sem fara til verkefnanna. Hér er ég að tala um pólitík og verkefni sem eru mikilvæg en þarf að koma í einhvern annan farveg ef vel á að vera að mínu mati.

Meiri hluti menntamálanefndar fékk til skoðunar og umfjöllunar frá fjárlaganefndinni 136 umsóknir um fjárveitingar af safnliðum og af þeim komu 49 umsækjendur á fund nefndarinnar. Það fóru margir dagar í þá vinnu hjá menntamálanefnd að skoða þessar umsóknir allar. Það gerði hún svo sem ekki með glöðu geði því að menntamálanefnd hefur gert athugasemdir við þetta. Sameinuð menntamálanefnd hefur gert athugasemdir við þetta fyrirkomulag oftar en einu sinni á undanförnum árum. Nú var formaður nefndarinnar, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, afar tregur í taumi og settist einungis niður til að gera þetta eitt árið enn vegna þess að hann taldi sig hafa loforð frá fjárlaganefndinni fyrir því að þetta yrði ekki gert aftur á þennan hátt. Jafnframt hékk á spýtunni vilyrði frá fjárlaganefnd um að menntamálanefnd yrði höfð með í ráðum alla leið, þ.e. ef fjárlaganefnd ætlaði að hækka þessa safnliði yrði menntamálanefnd kölluð aftur til að gefa umsagnir um þær umsóknir sem fjárlaganefnd vildi veita brautargengi. Ég vona að ég fari ekki með rangt mál, hv. formaður nefndarinnar leiðréttir mig þá vonandi í andsvari á eftir.

Nú hef ég skoðað, hæstv. forseti, hvernig þessi orð hafa verið efnd og ég verð fyrir vonbrigðum vegna þess að ég kemst að því að það eru talsverð brögð að því að fjárlaganefndin breyti tölum frá menntamálanefndinni, ekki umtalsvert en það eru samt breytingar, og inn koma nýir liðir sem menntamálanefndin fékk aldrei til umfjöllunar. Ég nefni bara hér Hið íslenska reðasafn og Myndlistarsafn Tryggva Ólafssonar í Neskaupstað. Ég get líka nefnt Starfsendurhæfingu Austurlands og Starfsendurhæfingu Skagafjarðar. Hér eru dæmi um fjárveitingar sem ég hefði talið að ætti að kalla menntamálanefnd aftur að borðinu til þess að upplýsa okkur um — ég er ekki að tala um neitt annað en að upplýsa okkur — af því að við töldum að við ættum að vera með fjárlaganefndinni við borðið alla leið. Það var sameiginlegur skilningur menntamálanefndarinnar, en ekki einu sinni það fékkst í gegn og mér finnst það mjög miður því að ég trúði því og treysti að hér horfðu hlutir til betri vegar.

Við vísuðum nokkrum liðum til fjárlaganefndarinnar og hún afgreiddi þá í sjálfu sér á sinn hátt. Það er ekkert við það að athuga en eitt langar mig þó til að nefna. Það varðar tillögu menntamálanefndarinnar — og ég ítreka að ég tala fyrir munn allrar menntamálanefndar — við lögðum sérstaklega að fjárlaganefndinni varðandi Þórbergssetur. Við í nefndinni beindum því til menntamálaráðherra og reyndar fjárlaganefndarinnar með því að þetta álit er skrifað til hennar um að gerður yrði samstarfssamningur við Þórbergssetur með sama hætti og menntamálaráðherra hefur gert samstarfssamning við Gunnarsstofnun. Nú fær Þórbergssetur framlag í breytingartillögum meiri hlutans, sem er tillaga frá menntamálanefnd og það er vel, það hækkar framlagið um 8 millj. kr. ef ég man rétt, en fjárlaganefnd tjáir sig ekki um þá hugmynd menntamálanefndar að gerður verði fastur samningur og Þórbergssetri komið á fastan kjöl. Ég tel að Þórbergssetrið eigi að vera sjálfstæður fjárlagaliður undir menntamálaráðuneytinu alveg á nákvæmlega sama hátt og Gunnarsstofnun.

Við eigum þrjú rithöfundasetur, við eigum Gljúfrastein, Gunnarsstofnun og Þórbergssetur. Þessi setur eiga að mínu mati öll að vera jafnrétthá. Þórbergssetur á ekki að þurfa að heyra undir safnlið hjá ráðuneytinu ef Gunnarsstofnun fær sjálfstæðan og sérmerktan fjárlagalið. Ég tel að fjárlaganefnd þurfi að segja okkur það og gera bragarbót á því á milli 2. og 3. umr. að koma Þórbergssetri inn á fastan fjárlagalið og tryggja samning við setrið.

Sömuleiðis vil ég nefna Leikminjasafn Íslands. Menntamálanefnd sameinuð lagði það sama til varðandi Leikminjasafn Íslands. Þar hafa ákafir áhugamenn um leikminjar komið upp leikminjasafni. Af mikilli eljusemi og óeigingirni hafa þeir starfað árum sama við að taka við leikminjum sem annars væru glataðar og hafa haldið viðamiklar sýningar á veigamiklum þáttum úr leiklistarsögu Íslands og núna er verið að veita þessum aðilum ákveðna umbun. Framlag til safnsins er hækkað rausnarlega en fjárlaganefnd segir ekkert um þá tillögu menntamálanefndar að það þurfi að koma safninu á fastan kjöl og gera við það fastan starfssamning. Ég hefði óskað eftir því að fá við þessa umræðu að heyra frá hv. nefndarmönnum hvort hér sé ekki hægt að gera bragarbætur milli umræðna.

Annars gæti ég svo sem haft fjölmörg orð um þessa safnliði til viðbótar, ég er búin að rýna í þessi sérstöku yfirlit sem koma fram í breytingartillögum frá meiri hlutanum á þskj. 339. Ég verð að segja að ýmsir hlutir koma manni spánskt fyrir sjónir. Það er t.d. skrýtið hvernig ýmis fornleifaverkefni eru sett undir hatt Þjóðminjasafnsins, það er nokkur plagsiður sem fjárlaganefnd hefur stundað á undanförnum árum. Það er búið að taka fornleifaþáttinn frá Þjóðminjasafninu því að málaflokknum var skipt upp fyrir nokkrum árum og Fornleifavernd ríkisins stofnuð. Engu að síður er fjöldi fornleifaverkefna settur hérna undir Þjóðminjasafnið og það algerlega án samráðs við það, og meira að segja eftir að Þjóðminjasafnið hefur skrifað fjárlaganefndinni bréf þar sem það biður um að ekki verði settir undir það einhverjir svona liðir þar sem Þjóðminjasafnið er bara umsýslustofnun og milliliður fyrir ríkissjóð. Þjóðminjasafnið greiðir fjármuni til einkafyrirtækja úti í bæ sem stunda fornleifauppgröft, mjög háar upphæðir, en með því að peningarnir eru settir í gegnum Þjóðminjasafnið hefur það umsýslukostnað af þessum tilfærslum. Fjárlaganefnd verður að sjá til þess að Þjóðminjasafnið hafi þá fjármuni sem þarf og það starfsfólk sem þarf til að greiða fyrir þessa umsýslu. Það er alveg með ólíkindum hvernig þetta er stundað og það þvert ofan í vilja Þjóðminjasafnsins. Hér er t.d. átt við fornleifauppgröft og rannsóknir vegna Skálholts, Hóla í Hjaltadal, reyndar er Þjóðminjasafnið þátttakandi í Hólarannsókninni þannig að Hólarannsóknin heyrir undir Þjóðminjasafnið á allt annan hátt en önnur verkefni eins og verkefnið Álfkonan og fleiri þjóðsögur hjá Minjasafninu á Burstarfelli. Þetta er bara dæmigert verkefni sem á þá að vera á safnlið. Sömuleiðis til fornleifarannsókna í Skagafirði hjá Byggðasafni Skagfirðinga, Arnfirðingafélagið eða menningarsetur á Útskálum, sem hefur reyndar 3 millj. hér undir Þjóðminjasafninu sem Þjóðminjasafnið á að millifæra þangað, en á öðrum stað, þ.e. undir safnlið, er sama menningarsetur á Útskálum með aðrar 3 millj.

Ég segi og fullyrði, hæstv. forseti, að hér er ekki nógu vel að verki staðið. Hér hefði mátt vanda miklu betur til verka og tryggja að það sem á að vera á safnliðum sé þá á safnliðum, það sem á að vera á sjálfstæðum fjárlagaliðum sé á sjálfstæðum fjárlagaliðum. Þessi millifærslutilhneiging hérna með Þjóðminjasafnið er alveg með ólíkindum.

Til eins fyrirtækis sem heitir Fornleifastofnun Íslands veitir t.d. fjárlaganefnd 25 millj. kr. og þær eru tíndar til á nokkrum stöðum, bæði í safnliðum og undir Þjóðminjasafninu. Mér finnst þetta mjög undarlegt. Það var tekin um það umræða í menntamálanefndinni hvort svona sjálfstætt fyrirtæki ætti yfir höfuð að fá stuðning frá menntamálanefnd. Þetta er fyrirtæki sem líka sækir í fornleifasjóð þar sem eru 144 millj. og fær eflaust ríflega úr honum.

Nú tek ég enn einu sinni fram að ég er ekki að kasta rýrð á þessi verkefni, þetta eru allt þörf verkefni og það er sjálfsagt að setja fjármuni í þau af opinberu fé en það verður bara að vera gert á réttum nótum, með réttum formerkjum og á réttan hátt og menn verða að átta sig á því hvað þeir eru að gera. Á sama tíma og Fornleifastofnun Íslands, sem er einkafyrirtæki með reyndar kannski dálítið umdeilanlegt nafn, fær Fornleifavernd ríkisins einungis hækkun á milli 1. og 2. umr. 11,5 millj. kr. en einkafyrirtækið fær 25 millj. kr. í hækkun á milli þessara umræðna. Hér segir ég fullum fetum, hæstv. forseti, að pottur sé brotinn og þetta þurfi að laga.

Nú fer að líða að lokum ræðu minnar, hæstv. forseti, en ég á eftir að tala fyrir einni breytingartillögu enn frá okkur þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Hún heyrir undir félagsmálaráðuneytið, varðar Jafnréttisstofu og hana er að finna á þskj. 365. Tillagan er upp á 40 millj. kr. Meiri hlutinn leggur til 20 millj. kr. hækkun á fjárveitingum til Jafnréttisstofu. Ég fagna því og ég ætlaði að láta þar við sitja þangað til ég heyrði ræðu hv. þm. Bjarna Harðarsonar hér fyrr í dag sem benti þingheimi á hækkunina til vegamála. Ef ég heyrði rétt talaði hann um að hér væri verið að hækka framlögin til vegamála um helming frá því sem var í frumvarpinu, það hafi átt að hækka framlögin um 20 milljarða en einhvers staðar á leiðinni hafi meiri hluti fjárlaganefndar talið að það væri ofrausn og hafi lækkað hækkunina úr 20 milljörðum niður í 18.

Þegar ég heyrði hv. þm. Bjarna Harðarson tala um alla þessa milljarða í vegaframkvæmdir hugsaði ég með mér: Eigum við svo að láta okkur nægja 20 millj. í hækkun til Jafnréttisstofu? Ég sagði bara nei við sjálfa mig, við skulum ekkert láta það nægja, við skulum tvöfalda það og hafa það 40 millj. Um hvað er ég tað tala? Ég er að tala um að Jafnréttisstofa fær á næsta ári ný lög til að starfa eftir. Samkvæmt þeim lögum á að bæta við stofnunina tveimur stöðugildum, það á að bæta úr áralangri vanrækslu varðandi fræðsluþátt í jafnréttismálum sem hefur verið á könnu Jafnréttisstofu. Fræðsluþátturinn og útgáfa á könnu Jafnréttisstofu hefur alltaf goldið fyrir að það hafi verið of lítið fjármagn. Jafnréttisstofa þarf að fylgja eftir öllum jafnréttisáætlunum, hún þarf að reka verkefni eins og Karlar til ábyrgðar, hún vill virkja karla í jafnréttismálunum. Það kostar peninga að gera stórátak í þessum málum. Hún heldur úti öflugri heimasíðu sem hefur líka goldið fyrir að ekki hefur verið nægilegt fjármagn til að framkvæma allar hugmyndirnar sem eru til staðar hjá stofnuninni. Svo vil ég nefna ofbeldismálin, það eru auknar áherslur í nýja frumvarpinu á að Jafnréttisstofa sinni forvörnum hvað það varðar og það er nauðsynlegt að hún fái fjármuni til þess. Ég legg hér fram tillögu í mínu nafni, virðulegi forseti, um að Jafnréttisstofa fái hækkuð fjárframlög um 40 millj. kr.

Þegar öllu er á botninn hvolft, hæstv. forseti, er þessi umræða, 2. umr. um fjárlög, eins og hér hefur svo sem verið vikið að, nánast stærsta umræða þingsins. Þetta er sú umræða þar sem við fjöllum um lykilatriðin í okkar pólitík. Við komum inn á öll svið og við getum sagt frá öllum okkar hjartans málum í tengslum við þau mál sem hér ber á góma í fjárlagafrumvarpinu. Eðli máls samkvæmt verða ræðurnar nokkuð langar og það fer eftir því hvað við erum góðir ræðumenn hversu skermmtilegar þær verða. Ég er ekki viss um að mín hafi verið ein af þessum skemmtilegri í dag en hún hefur heldur ekki verið ein af þeim lengri því að hér lýk ég máli mínu.