135. löggjafarþing — 33. fundur,  29. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[23:09]
Hlusta

Frsm. meiri hluta fjárln. (Gunnar Svavarsson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur fyrir ræðu hennar. Ég skal vinna að því að fá fram umrædda skiptingu í mennta- og menningarmálum sem hv. þingmaður kallaði eftir. Jafnframt vísa ég til umræðu um Listasafn Íslands sem menntamálaráðuneytið gerði fjárlaganefnd grein fyrir og mun beita mér fyrir að málin sem þar hafa verið uppi verði tekin til enn frekari umfjöllunar og vísað var til í ræðu hv. þingmanns.

Einnig var fjallað um listnám í framhaldsskólum. Gripið var fram í þegar ræðan var flutt og því lýst að fjallað væri um framhaldsskóla í nýlegu frumvarpi sem ekki hefur verið tekið til umræðu á Alþingi.

Mikil umræða var um safnliði, ýmislegt gott og ýmislegt slæmt. Við beittum vissulega sama vinnulagi og áður, það var ekkert skorið niður miðað við það sem fagnefndir lögðu til en bætt lítillega við og var samstaða um það í nefndinni. Ég get fullyrt að það var gert. Vissulega var menntamálanefndin á elleftu stundu með vinnu sína í ár og það setti okkur einfaldlega í tímapressu þannig að við þurftum að loka málum okkar seinna en ella en því miður náðist ekki að samræma þau við menntamálanefndina eins og rætt var um. Um óverulegar tilfærslur er að ræða og ég ítreka að ekkert var skorið niður.

Ég vil einnig tala um, og geri það ef til vill í seinna andsvari mínu, mál sem lúta að tæknilegri útfærslu á safnliðunum og mismun á stofnframkvæmdum eða fjárfestingum annars vegar og rekstrarframlögum hins vegar. Ég hjó eftir því að hv. þingmaður talaði fyrir munn allrar menntamálanefndar í ræðu sinni en minna um það að okkur bárust (Forseti hringir.) tvö álit frá nefndinni.