135. löggjafarþing — 33. fundur,  29. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[23:14]
Hlusta

Frsm. meiri hluta fjárln. (Gunnar Svavarsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Við ræðum hér um safnliðina og ég ítreka að vegna tímaskorts tókst okkur ekki að samræma vinnu menntamálanefndar og fjárlaganefndar í lokin en tilfærslur voru óverulegar að áliti nefndarinnar. Ég minni einnig á að tveir hv. þingmenn menntamálanefndar sitja í fjárlaganefnd og gátu þar af leiðandi kynnt okkur erindin en full samstaða var um það í fjárlaganefnd. Ég held því að við þurfum ekki að eyða löngum tíma í það þó að verkefni eins og tónlistarhátíð í Vík í Mýrdal hafi fengið 300 þús. kr. eins og lagt var til af fjárlaganefnd en ekki af menntamálanefnd.

Að lokum þurfum við þingmenn ræða um safnliðina og sjóðina, hvort sem það eru bátasjóðir, húsafriðunarsjóðir eða fornleifaverkefni í fornleifasjóð. Við þurfum ræða um hlutverk stjórnsýslunnar annars vegar og hins vegar hlutverk fyrirtækja, einstaklinga eða áhugafélaga sem koma að verkefnunum. Ég held að um sé að ræða þverpólitíska umræðu því að sitt sýnist hverjum í þessum málaflokkum og menn vilja hafa mismunandi vinnulag. Ég vil fara í þá umræðu með opnum huga og hef talað fyrir því. Það sama á við um ýmsa þætti sem koma fram í fjárlagafrumvarpinu, hvort sem um er að ræða Þórbergssetur eða Leikminjasafnið sem meiri hluti menntamálanefndar minnist á en minni hlutinn vék ekki að. Ljóst er að huga þarf að því hvort gerðir séu fastir samningar við þau söfn líkt og önnur söfn eða setur þannig að það sé ekki fjárlaganefndar hverju sinni að fjalla um málið og gera tillögu um fjárveitingar. Það á að liggja fyrir af hálfu ráðuneytisins að óska eftir því út frá þeim ramma sem það hefur.