135. löggjafarþing — 33. fundur,  29. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[23:22]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarni Harðarson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Við hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir sjáum þessa hluti ekki alveg eins. Ég sé þetta sértæka fjárveitingavald, sem er ekki stór hluti af heildarfjárlögum, það telur liðlega milljarð í þeim potti sem við erum með núna, ég sé þetta sem mikilvæga hjáveitu varðandi þau verkefni sem eru munaðarlaus í kerfinu. Það er alltaf töluvert mikið um þau, ég tel svo raunar vera um margt af því sem við höfum verið að fjalla um, kannski ekki síst þau verkefni sem ekki var vísað til fagnefnda af því þau voru það sértæk og einstök að þau áttu hreinlega ekki heima í sérstökum fagnefndum.

Vegna orða hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur um að hún talaði hér fremur sem fulltrúi menntamálanefndar en fulltrúi vinstri grænna, þá langar mig til að taka umræðuna einmitt út frá því sama og tala aðeins um þetta eins og ég sé þetta sem fulltrúi í fjárlaganefnd og þá er ég ekki alveg sannfærður um að það sé réttmæt athugasemd hjá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur áðan að ómaklega hafi verið vegið að umhverfisnefnd þó svo að fjárlaganefnd hafi tekið sig til og breytt einstökum úthlutunum. Ég hef litið svo á að fagnefndirnar ættu að vera þarna sem nokkurs konar umsagnaraðili en fjárlaganefnd ætti að hafa síðasta orðið, ég tel það eðlilegt. Ég bendi á að þrátt fyrir að þessar umsóknir hafi farið til fagnefnda hafa fjárlaganefndarmenn sett sig inn í þær allar og einmitt þær sem breytt var og þeir sem sóttu þar um hafa verið í beinu sambandi við fjárlaganefndarmenn um mjög mörg þessara atriða.