135. löggjafarþing — 33. fundur,  29. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[23:25]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Bjarni Harðarson dregur í efa að þessi verkefni öll eigi sér sess eða eigi möguleika á að fá stuðning í gegnum þessa sjóði. Ég þori að fullyrða að það eru til sjóðir fyrir öll þessi verkefni sem telja heilan milljarð eða rúmlega það. Ekkert þessara verkefna þarf að vera munaðarlaust í kerfinu og ef svo er, þá eru tugir milljóna eftir í óráðstöfuðu fé hjá menntamálaráðherra. Tugir milljóna sem menntamálaráðherra hefur í hverjum fjárlagaliðnum á fætur öðrum í óráðstafað fé sem við erum bara mjög ónýt við, hv. þingmenn, að spyrja hæstv. menntamálaráðherra um hvernig hún ráðstafar. Hún getur bjargað öllum munaðarlausum verkefnum með því sem hv. fjárlaganefnd setur í hennar hendur óráðstafað. (Gripið fram í: Það þarf atbeina þingsins.)

Það þarf ekki atbeina þingsins því að við erum með marga fjárlagaliði undir menntamálaráðuneytinu þar sem menntamálaráðherra hefur háar upphæðir sem hún fær að ráðstafa sjálf án nokkurrar aðkomu Alþingis Íslendinga. Ég vil svo segja við hv. þingmann að ég tel ekkert ómaklega vegið að menntamálanefnd þó svo að við höfum ekki verið kölluð að borðinu í lokaúthlutuninni. Ég tel bara að fjárlaganefnd hefði átt að standa við orð sín. Við töldum öll að við ættum að fá að sitja við borðið til enda. Það var skilningur allrar nefndarinnar, það gerðist ekki. Ég er ekki að segja að það sé stórmál þótt gerðar hafi verið lítils háttar breytingar, þetta hafa verið svo litlar þessar breytingar, en þær breytingar sem gerðar hafa verið hafa oft verið mjög verulegar, ekki til niðurskurðar heldur einmitt þvert á móti til viðbótar. Hingað til hefur menntamálanefnd talið það óráðsíu eða kannski illa farið með okkar störf, það sem við erum búin að (Forseti hringir.) leggja á okkur, ef við fáum að segja álit okkar að ákveðnu marki en ekki alla leið.