135. löggjafarþing — 33. fundur,  30. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[00:41]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ekki ætla ég að vera með hnjóðsyrði í garð Vinstri grænna enda hef ég ekki lagt það í vana minn, ekki alltaf. En nú er það svo að tillögur Vinstri grænna hafa ekki komið fram í endanlegri mynd, þær á eftir að leggja fram á þingskjölum.

Ég hlustaði á málflutning hv. þm. Jóns Bjarnasonar og á málflutning hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, þar sem sagt var að tillögur stjórnarandstöðunnar, eða hv. þingmanna Vinstri grænna, kæmu fram við 3. umr. þegar ljóst væri hverjar tillögur ríkisstjórnarinnar væru.

Ég tala hins vegar af dálítilli reynslu í þeim efnum að ég hef verið á þingi í fjögur ár og hef haft þann málflutning að mér finnst vinstri grænir séu full útgjaldaglaðir og sérstaklega á þeim tímum þegar aðhalds er þörf í fjármálum. Ég hef líka gagnrýnt vinstri græna fyrir að hafa mjög takmarkaðan skilning á atvinnuuppbyggingu eins og þeirri sem á sér stað á Austurlandi því að hún mun skila okkur milljarðatugum í tekjur á næstu árum til þess að standa undir jafnmikilvægum málaflokkum og skólunum okkar, heilbrigðisstofnunum og fleira mætti telja.

Við erum í grundvallaratriðum ósammála um atvinnuuppbygginguna að þessu leytinu til. Hins vegar held ég að hér séu á ferðinni tveir velferðarflokkar sem vilja standa vörð um velferðarkerfið. En mér hefur fundist að vinstri grænir hafi oft og tíðum á undanförnum árum viljað gera allt of mikið fyrir allt of marga, meira en svigrúm hefur verið til hverju sinni.

Auðvitað væri það þannig í draumaveröldinni að við gætum bætt kjör allra og gert það sem við vildum á einu ári. En þannig gerast einfaldlega ekki kaupin á eyrinni og okkur hefur dálítið greint á um það, (Forseti hringir.) framsóknarmenn og vinstri græna.