135. löggjafarþing — 33. fundur,  30. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[00:52]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég biðst afsökunar á því ef hv. þingmaður skildi það þannig að ég teldi hann vanrækja störf sín. Engu að síður vekur það athygli mína þegar menn spyrja um málefni sem fjallað var um í þeirra eigin nefnd. Það vakti athygli mína.

Ég ætlaði að lýsa yfir ánægju minni með hversu miklar væntingar eru gerðar til Samfylkingarinnar. Ég ætla að lýsa því yfir að menn skulu ekki vera hræddir um að við stöndum ekki undir þeim væntingum. Aftur á móti hef ég aldrei gefið til kynna að Samfylkingin hafi farið í ríkisstjórnarsamstarf um að gera allt sem stefnt var að í kosningunum eða sagt að það komist allt í gegn með nýrri ríkisstjórn. Ég geri ekki ráð fyrir að flokkur eins og Framsóknarflokkurinn, sem hefur svikið mörg loforð, ætlist til þess af öðrum.

Ég er mjög spenntur að sjá hvort Framsóknarflokkurinn kemur með niðurskurðartillögur á þeim skuldbindingum síðustu ríkisstjórnar og þar með Framsóknarflokksins og ráðherra þeirra, hvort þeir komi með niðurskurðartillögur á þeim þáttum þegar þeir koma með tillögurnar við 3. umr. (Gripið fram í.) Við erum með gríðarlega margar tillögur í farteskinu, margar mjög góðar og mikil loforð, t.d. samgönguáætlunina sem hv. þingmaður var að hæla sér af áðan og sagði verk framsóknar að hluta. Þar hefur að vísu verulega miklu verið bætt í en við skulum ekki taka það af þeim að þetta var komið í samgönguáætlun. Ég er spenntur að sjá hvort hann kemur með tillögu um að þetta verði skorið niður. Það hlýtur hann eiginlega að gera miðað við það sem hann hefur sagt. Framsóknarflokkurinn hlýtur að taka á sig þá ábyrgð að skera niður það sem hann sjálfur lagði til verðbólgu- og þensluhvetjandi aðgerða inn í nýju fjárlagafrumvarpi.

Að öðru leyti hlakka ég til að fá að takast á við að standa við þau loforð sem Samfylkingin hefur gefið. Það mun ekki standa á því.