135. löggjafarþing — 33. fundur,  30. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[00:54]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hlakka einnig til að eiga ágætt samstarf við hv. þingmann í félagsmálanefnd þar sem hann gegnir formennsku. En hv. þingmaður hitti einmitt naglann á höfuðið þegar hann sagði að ekki mundu öll loforð Samfylkingarinnar ná fram að ganga. Það er bara eðlilegt. Slíkt gerist í samstarfi tveggja flokka.

Það sem ég gagnrýni hins vegar er framganga ráðherra Samfylkingarinnar eftir kosningar. Ráðherrar Samfylkingarinnar mega ekki fara í viðtal í fjölmiðlum án þess að rugla um öll loforð Samfylkingarinnar og hvað þeir ætli sér að gera frábæra hluti. Það verður aldrei hægt að standa við það allt. Það er það sem ég hef gagnrýnt. Samfylkingin vekur óraunhæfar væntingar í samfélaginu eftir að hún er komin í ríkisstjórn og það er einfaldlega ekki rétt.

Það er einfaldlega þannig, hæstv. forseti, að það er nauðsynlegt að taka erfiðar ákvarðanir, ekki síst nú í aðdraganda kjarasamninga. Framsóknarflokkurinn tók slíkar ákvarðanir m.a. í tvígang í tíð síðustu ríkisstjórnar. Þannig var það m.a. á síðasta ári og Samfylkingin gagnrýndi það harðlega. Ríkisstjórnin á að taka erfiðar ákvarðanir. Hún á að gera það og á að vera það öflug að þola gagnrýni frá ýmsum hópum til þess að taka tímabundið erfiðar ákvarðanir til að tryggja langtímahagsmuni. Það eru mjög erfiðir kjarasamningar fram undan og ég veit að hv. þingmaður áttar sig á að það eru blikur á lofti og okkur ber að stíga varlega til jarðar. Ég held að allir séu sammála um það.

Þess vegna veldur það ákveðnum vonbrigðum að ríkisstjórnin skuli fara fram með fjárlög með þessum hætti og við framsóknarmenn viljum einfaldlega vara við því. Ef við værum í ríkisstjórn hefðum við trúlega útfært tillögur í sumar í fjárlagagerðinni um að hitt og þetta kæmi ekki til greina fyrr en eftir tvö ár. En það er erfiðara þegar búið er að vekja væntingar, fara í einstök verkefni og kippa þeim til baka. Þannig er það bara.