135. löggjafarþing — 34. fundur,  30. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[10:57]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er undrandi á þeim málflutningi sem við hlustuðum á í ræðu hv. þm. Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur. Ég hlýt að spyrja: Hvers konar málflutningur er það að ætla að afgreiða heilan stjórnmálaflokk með þeim hætti sem hún gerði í ræðu sinni, með því að segja að ekkert nema svartnættið komi frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði? Vinstri hreyfingin – grænt framboð vildi gera allt fyrir alla, eins og hér var sagt, og ekkert uppbyggilegt kæmi frá þeim. Margur heldur mig sig. Hvaða flokkur lofaði í kosningunum í vor öllum öllu ef það var ekki Samfylkingin? Svona málflutningur dæmir sig að sjálfsögðu sjálfur.

Sagt er að varnaðarorð hafi m.a. komið frá Framsóknarflokknum og ýmis teikn séu á lofti um að erfiðlega muni horfa í efnahagsmálum. Hvaða flokkur hefur haft uppi varnaðarorð í efnahagsmálum, ekki bara í þessari umræðu heldur allt þetta ár, ef ekki Vinstri hreyfingin – grænt framboð? Er það ekki málefnaleg afstaða sem frá okkur hefur komið í því efni? Ég frábið mér að Vinstri hreyfingin – grænt framboð sé afgreidd með þeim hætti sem þingmaðurinn gerði. Ég hlýt að spyrja: Er það reynsla hennar af okkar góða samstarfi í 12 ár í Reykjavík — er það reynsla hennar af mér að ég stundi ómálefnalegan málflutning, að ég komi með óábyrgar tillögur sem ekki sé innstæða fyrir? Ég kannast ekki við það. Við höfum í þessari umræðu komið með tillögur um útgjöld. Við höfum líka komið með tillögur um tekjur til að mæta þeim útgjöldum.

Nú kann vel að vera að Samfylkingin eða stjórnarliðar séu ekki sammála þeim tillögum. Gott og vel. Þá er hægt að takast á um það. En tillögurnar eru málefnalegar og við höfum haft uppi ábyrgan málflutning.