135. löggjafarþing — 34. fundur,  30. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[11:03]
Hlusta

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir nú hv. þm. Árni Þór Sigurðsson heldur betur verið farinn að færa sig upp á skaftið ef hann telur að hann þekki minn innri mann betur en ég sjálf. Þvert á móti líður mér ágætlega í þessu samstarfi og ég verð að gleðja eða hugga þingmanninn með því að mér líður mun betur í þessu samstarfi en í minni hluta í borgarstjórn Reykjavíkur.

Það skiptir nefnilega máli, eins og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson veit, að vera í meiri hluta. Það skiptir máli að vera í þeirri aðstöðu að koma málum sínum í farveg. Það var auðvitað alveg augljóst af málflutningi vinstri grænna í gærkvöldi og í dag að þau eru ekki enn þá búin að jafna sig á þeim hörmungum sem riðu yfir þann flokk í vor þegar hann komst því miður ekki (Gripið fram í.) í langþráða ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Þetta kom glögglega fram í gærkvöldi og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson ítrekar það í dag.

Hv. þingmaður segir að alltaf sé hægt að gera breytingar. Það er alveg hárrétt, það er alltaf hægt að gera breytingar. Það er líka hægt að gera þær breytingar, hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, að breyta um taktík í umræðu, koma í uppbyggilegri, jákvæðri og gleðilegri umræðu en vinstri grænir hafa sýnt af sér í umræðu um fjárlögin.

Og af því að hv. þingmaður var að tala um tillögur vinstri grænna, þá komu þær nú fram með býsna sérkennilegum hætti við gerð fjárlagafrumvarpsins. Þær voru ekki lagðar fram við fjárlaganefnd. Við höfðum ekki hugmynd um þær. Þeim er skellt hér inn í þingið á síðustu stundu, útgjaldatillögum upp á 10 milljarða kr. Það tel ég, hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, þrátt fyrir okkar góða vinskap, ekki vera ábyrgan málflutning. (Gripið fram í.)