135. löggjafarþing — 34. fundur,  30. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[11:07]
Hlusta

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst varðandi Vatnajökulsþjóðgarð. Eins og kom fram í máli mínu þá er ég mjög mikil áhugamanneskja um þetta verkefni. Það er hins vegar ekki ljóst hvort aukið fjármagn kemur til verkefnisins milli 2. og 3. umr., svo ég sé bara alveg heiðarleg við hv. þingmanninn varðandi það. En ég mun svo sannarlega beita mér fyrir því að þetta verkefni fái þann framgang sem það á skilið og treysti á atbeina hv. þingmanns í þeim efnum.

Varðandi samgöngumálin þá er ánægjulegt að heyra að það er samhljómur milli hv. þingmanns og þeirrar sem hér stendur um Sundabrautina og ytri leið. Varðandi þá fjármuni sem hann spurði um þá er þetta fyrst og fremst tilfærsla á fjármunum vegna þess að ekki er hægt að fara í þessi verkefni. Það er m.a. vegna skipulagsþáttanna sem ég nefndi áðan en það stendur ekki annað til en að fjármunir verði færðir til og hafist verði handa um leið og hægt er vegna umhverfis- og skipulagsþátta.