135. löggjafarþing — 34. fundur,  30. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[11:08]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Ég vil ítreka það að hvetja hv. stjórnarþingmenn til þess að standa að uppbyggingu Vatnajökulsþjóðgarðs með þeim hætti sem flokkarnir hafa komið sér saman um í undirbúningi málsins.

Það er algjörlega óásættanlegt að taka umhverfismálin og setja þau til hliðar og leggja minni áherslu á að standa við áætlanir í þeim efnum en í öðrum málaflokkum. Menn verða að fara að umgangast umhverfismálin með jafnábyrgum hætti eða sama hætti, skulum við segja, og menn umgangast aðra málaflokka. Ég hvet því hv. þingmann til þess að beita sér í þeim efnum og efast svo sem ekki um að hún muni gera það.

Varðandi niðurskurðinn á fjárveitingum til vegamála er það út af fyrir sig rétt að sum verkefni sem ákveðið hefur verið að ráðast í eru ekki komin það langt í undirbúningi að hægt sé að bjóða þau út. Meðal annars þau verkefni, langþráð, vestur á fjörðum sem hafa tafist mjög lengi, í Austur-Barðastrandarsýslu. Þar þarf að ráðast í verulegar vegabætur og nýja vegi til þess að vinna bug á þeim óvegum sem þar eru, bæði vondir vegir og illfærir. Ég óttast dálítið að þegar skorið er niður með þessum hætti þá geti það bitnað á þeim framkvæmdum sem allra síst mega við því að verða fyrir frekari töf en orðið er. Þannig að ég vænti þess að hv. þingmaður muni eftir því þegar verður farið að deila út þessum niðurskurði, að hann verði ekki látinn bitna á þessum vegarköflum.