135. löggjafarþing — 34. fundur,  30. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[11:29]
Hlusta

Ármann Kr. Ólafsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarna Harðarsyni fyrir en umræðan um hagdeildina spratt upp úr því að ég ræddi um vinnubrögð fjárlaganefndar. Málið snýst um að við getum áttað okkur betur á hvað hagstærðirnar þýða í samhengi við hagkerfið og beitum okkar vinnu meira í þá veru í staðinn fyrir að huga að smærri málum, horfa á smáa liði og ákveða smáar upphæðir. Við ættum í staðinn að einbeita okkur meira að heildarmyndinni. Það var það sem ég átti við fyrst og fremst.

Hægt væri að taka sérumræðu varðandi falska gengið og hærri vexti vegna þess að eitt af því sem við stöndum frammi fyrir er vísitölubinding. Vaxtahækkanir Seðlabankans bíta því ekki eins og um venjuleg vaxtalán væri að ræða þannig að mönnum væri refsað strax við næstu afborgun þegar vextir Seðlabankans hækkuðu. Við erum þar að auki komin með það traust hagkerfi að þegar við hækkum vexti treysta erlendir aðilar sér til að koma með erlent fjármagn inn í landið til að spila á vaxtamuninn. Það þýðir auðvitað að menn horfa til Íslands og íslensks gjaldmiðils sem miklu traustari gjaldmiðils og traustara efnahagskerfis heldur en verið hefur undanfarna áratugi.