135. löggjafarþing — 34. fundur,  30. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[11:35]
Hlusta

Björk Guðjónsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið er staða ríkissjóðs góð en engu að síður þarf að gæta hófs og stöðugt að vinna að því að bæta rekstur stofnana og gera þeim jafnframt auðveldara fyrir að halda sig innan ramma fjárlaga. Það að staða ríkissjóðs er jafnsterk og raun ber vitni gefur meira svigrúm til að styrkja rekstrargrunn stofnana og má sjá þess stað í fjáraukalagafrumvarpinu og í þeim breytingum sem hér liggja fyrir við 2. umr. fjárlagafrumvarpsins.

Eins og fram hefur komið í umræðunni er gert ráð fyrir að styrkja rekstrargrunn nokkurra heilbrigðisstofnana. Þar á meðal er Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Gert er ráð fyrir að Heilbrigðisstofnun Suðurnesja fái 46 milljónir til þess að styrkja klíníska starfsemi sjúkrahússins og 60 millj. kr. fjárveitingu til að styrkja núverandi rekstur sjúkrahússins. Með þessum fjárveitingum er stjórnendum gert kleift að reka stofnunina innan ramma fjárlaga.

Til Heilbrigðisstofnunar Suðurlands er gert ráð fyrir 132 millj. kr. til að styrkja núverandi rekstur og eins er gert ráð fyrir 71 millj. kr. til að taka í notkun 14 ný hjúkrunarrými í viðbyggingu stofnunarinnar. Í fjáraukalagafrumvarpinu er auk þess gert ráð fyrir að greiða upp áætlaðan greiðsluvanda í árslok 2007 hjá sömu stofnunum. Rekstur þessara stofnana verður þá kominn í viðunandi horf og á ábyrgð stjórnenda að reka stofnanirnar innan fjárheimilda. Með þessu móti er hægt að mæta m.a. síauknum íbúafjölda á þessum svæðum með skilvirkri og vandaðri þjónustu og gera þessum stofnunum kleift að takast á við aukin verkefni.

Heilbrigðisstofnun Suðurnesja hefur glímt við margvíslegan vanda á undanförnum árum og íbúar svæðisins sótt heilbrigðisþjónustu út fyrir svæðið í töluverðum mæli. Öll aðstaða hefur þó verið að batna á síðustu árum og þjónustan hefur aukist jafnt og þétt. Þess vegna skiptir miklu máli nú að styrkja rekstrargrunn stofnunarinnar svo hægt verði að bæta þjónustuna enn frekar og gera stofnuninni kleift að veita íbúum Suðurnesja eins mikla þjónustu í heimabyggð og kostur er og nýta þann mannauð sem þessi stofnun hefur yfir að ráða. Þannig nýtum við fjármagnið best.

Í fjárlögum er að auki gert ráð fyrir 500 millj. kr. til annarra heilbrigðisstofnana og hjúkrunarheimila sem eiga við rekstrarvanda að stríða. Skipting á þeim fjármunum mun liggja fyrir við 3. umr. fjáraukalaga.

Þá er lagt til að 160 millj. kr. verði varið til Sjúkrahúss Suðurlands til að flýta framkvæmdum við fyrstu hæð viðbyggingar stofnunarinnar. Jafnframt er gert ráð fyrir fjárveitingu til að reksturs hjúkrunarrýma fyrir aldraða svo að þau geti komist í notkun snemma á næsta ári. Viðbygging við Sjúkrahús Suðurlands er glæsileg bygging og kemur til með að breyta allri aðstöðu mjög til betra horfs þegar hún kemst að fullu í notkun.

Víða um land eru vegir sem flokkast sem safn- og tengivegir í mikilli þörf fyrir viðhald eða endurbyggingu. Undanfarin ár hafa fjárveitingar dugað skammt en að þessu sinni eru fjárveitingar í þann málaflokk auknar um 700 millj. kr. Þessi fjárveiting hefur glatt þingmenn og sérstaklega hv. þm. Jón Bjarnason og ég deili svo sannarlega þeirri ánægju með honum. Einnig er gert ráð fyrir 400 millj. kr. fjárveitingu í framkvæmdir við Bakkafjöruveg en gert er ráð fyrir að tengja fyrirhugaða Bakkafjöruhöfn við hringveginn með nýjum vegi frá hafnarstæðinu upp með Markarfljóti og við hringveginn. Talið er mikilvægt að leggja þennan veg vegna efnisflutninga að ferjuhöfn.

Þá má nefna að beiðni um framkvæmdir til þess að stöðva landbrot sem berast Landgræðslu ríkisins eru fjölmargar og eru fjárveitingar í fjárlagafrumvarpi vegna þessa. En til fjárlaganefndar barst nú beiðni þar sem Hornafjarðarfljót hafa breytt rennsli sínu þar sem þau koma undan jökli og munu án efa eyða algrónu landi verði ekkert að gert. Sama vandamál er með Jökulsá á Fjöllum í Herðubreiðarlindum. Tillit hefur verið tekið til mikilvægis þessara mála og fjárveitingar auknar í verkefnið.

Fjárlaganefnd bárust mjög mörg erindi um fjárframlög til ýmissa verkefna á vegum sveitarfélaga, einstaklinga, stofnana og félagasamtaka. Aukning þessara beiðna er talin vera um 40% frá síðasta ári. Fjárlaganefnd getur engan veginn orðið við öllum þeim beiðnum sem nefndinni berast. Því er alveg ljóst að margir fá ekki þær upphæðir sem óskað var eftir og enn aðrir fá ekki neitt í sinn hlut. Það er því nokkuð ljóst að ekki verða allir ánægðir sem umsóknir hafa sent inn til fjárlaganefndar.

Við úthlutun að þessu sinni var tekið tillit til landsbyggðarinnar, til þeirra svæða sem þenslan hefur ekki náð til. Það eru landsvæði sem glíma við þann vanda að fólk er jafnvel að flytja í burtu. En það verður að segjast eins og er að mörg verkefni sem eru nú þegar komin af stað og hugmyndir að nýjum verkefnum eru mörg hver mjög athyglisverð og vel til þess fallin að bæta mannlífið á landsbyggðinni og auka ferðamennsku á viðkomandi stöðum og eru því atvinnuskapandi.

Mikil gróska er í landinu í endurbyggingu gamalla húsa, varðveislu báta og uppsetningu menningar- og sögusetra svo eitthvað sé nefnt. Öll þessi verkefni eru hið besta mál og með þessu móti varðveitist menningararfur okkar. Uppbygging menningartengdrar ferðaþjónustu er orðin mjög öflug hér á landi. Það er athyglisvert að sjá hversu mikill áhugi er fyrir uppbyggingu safna og setra sem tengjast sérkennum staða og landshluta og segja ákveðnar sögur úr lífi þjóðarinnar.

Það er því ánægjulegt í þessu sambandi að benda á að í vikunni bárust þær fréttir frá alheimsþingi kvenna í atvinnurekstri, að Sigríður Margrét Guðmundsdóttir hlaut nýsköpunarverðlaun sem samtökin veita fyrir áhugaverðasta fyrirtækið sem sprottið hefur upp á undanförnum þremur árum, fyrir landnámssetrið í Borgarnesi. Þar hefur verið farin sú leið að koma íslenskum menningararfi á framfæri á nýstárlegan hátt. Verkefnið hefur verið styrkt af fjárlaganefnd og sýnir að fagleg uppbygging á þessu sviði vekur athygli bæði hér heima og erlendis. Á þessu sést einnig að styrkir sem koma frá fjárlaganefnd skipta miklu máli til þess að koma svona verkefnum af stað, þó að þeir séu ekki alltaf stórir.

Þetta styrkir einnig sveitarfélögin en forráðamenn sveitarfélaga gera sér æ betri grein fyrir mikilvægi þess að hlúa að þeim vaxtarsprota sem menningarmál eru. Vel uppbyggð menningartengd ferðaþjónusta eykur fjölbreytni í atvinnustarfsemi sveitarfélaga og bætir í leiðinni lífsgæði íbúanna.

Það hefur verið athyglisvert fyrir nýjan þingmann eins og mig að hitta allan þann fjölda einstaklinga og sveitarstjórnarmanna sem fylgdu erindum sínum eftir við fjárlaganefnd, að kynnast hugmyndum þeirra og verkefnum sem jafnvel eru farin að skila árangri á hinum ýmsu sviðum í samfélaginu.

Virðulegi forseti. Það hefur einnig verið bæði fróðlegt og áhugavert að starfa í fjárlaganefnd. Starfsandinn þar hefur verið góður. Ég vil þakka nefndarmönnum samstarfið og sérstaklega hv. formanni Gunnari Svavarssyni og hv. varaformanni Kristjáni Þór Júlíussyni fyrir gott samstarf á þessu hausti.