135. löggjafarþing — 34. fundur,  30. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[11:44]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Við erum í 2. umr. um frumvarp til fjárlaga. Það hefur verið athyglisvert að fá sem nýr þingmaður tækifæri til að vinna í fjárlaganefnd og taka þátt í því mikla starfi sem þar er unnið. Ég vil í upphafi þakka samstarfsfólki í fjárlaganefnd, og ekki hvað síst formanni, varaformanni og starfsfólki nefndarinnar, fyrir mikla og góða vinnu.

Í vinnu fjárlaganefndar var lögð áhersla á að reyna að nýta hæfileika og getu allra stjórnarmanna. Stjórnarandstaðan var dregin inn í þá vinnu af fullum krafti og ég tel það afar gott skref. Sjálfur hef ég verið talsmaður þess að líta ekki alltaf á málin út frá því hvort maður er í stjórn eða stjórnarandstöðu eða í hvaða flokki maður er heldur leita þeirra leiða sem best virka hverju sinni og skila hvað mestum árangri.

Það var mikil lífsreynsla, eftir að hafa einungis verið í bæjarpólitík áður, að sjá með hvaða hætti slíkt frumvarp er unnið. Það verður að segjast eins og er að við 1. umræðu kemur frumvarpið nánast tilbúið frá fjármálaráðherra og frá ríkisstjórn þannig að fjárlagagnefndin tekur við ansi tilbúnum pakka. Í framhaldinu fylgja síðan heimsóknir ráðuneyta og greinargerðir um hvaða málum þau vilja helst fylgja eftir og síðan heimsóknir einstakra stofnana. Kannski hefur hvað mestur tími farið í ýmsa safnliði og sú vinna hefur veri rædd töluvert í þingsal í tengslum við fjárlagavinnuna. Þar er vinnulagið á þann veg að stór hluti safnliða fer samkvæmt tillögum fagnefnda í gegnum fjárlaganefnd og hafa töluverðar vangaveltur verið um hvort við getum ekki breytt þeirri vinnu og fært álagið út fyrir sjálfa lokavinnuna við fjárlögin. Ég styð raunar þá hugmynd að við reynum að flýta þessu, taka þetta mun fyrr svo að við getum einbeitt okkur að sjálfri fjárlagavinnunni.

Það verður að segjast eins og er að fjárlaganefnd gefst allt of lítill tími til að ræða þær grundvallarforsendur og þau markmið sem vinna þarf eftir. Það er einlæg ósk mín að fjárlaganefnd fái tækifæri til að koma að vinnunni strax eftir áramótin þegar farið verður að undirbúa fjárlög næsta árs og þá líka að rammafjárlögum sem boðuð hafa verið þar sem um er að ræða þriggja ára áætlun um rammann fyrir fjárlögin.

Leiðarljósið í þeirri vinnu er stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar, með hvaða hætti við viljum að fjárlögin beini okkur að þeim markmiðum. Deila má um stóra þætti í frumvarpinu eins og fram hefur komið. Það er þó athyglisvert, og lýsir e.t.v. því erfiða hlutverki sem fjármálaráðherra og raunar fjárlaganefndin öll hefur, að stjórnarandstaðan hefur klofnað í afstöðu sinni til tekjuhlutfalls og líka til þess hversu umfangsmikil fjárlögin eigi að vera. Tillögur koma frá Framsóknarflokknum um samdrátt og niðurskurð en frá öðrum um að halda óbreyttri línu og jafnvel að bæta í.

Jafnframt hefur komið fram að tekjuspá undanfarinna ára hefur verið erfið. Það kom ágætlega fram í máli þingmanna í umræðunni í gær. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon taldi að við mættum búast við því að fjárlagatekjurnar væru ofáætlaðar. Ef ég man rétt hafði hv. þm. Jón Bjarnason, í inngangsræðu sinni fyrir hönd Vinstri grænna, miklar efasemdir um tekjurnar líka og taldi þær jafnvel vanáætlaðar. Þetta sýnir í hvaða stöðu við erum. Það er erfitt að áætla tekjurnar í því umhverfi sem við erum í dag þar sem stór hluti teknanna byggist á tekjum fyrirtækja og alls konar fjármagnstekjum, tekjum sem geta breyst mjög mikið á skömmum tíma.

Í umræðum um fjárlög hefur einnig komið fram að miklar væntingar eru til Samfylkingarinnar. Samfylkingin er rukkuð um kosningaloforð og ýmis stefnumál, og ég fagna því. Ég vek þó athygli á því að myndaður hefur verið stjórnarmeirihluti og gefin út stefnuyfirlýsing og það er fyrst og fremst verkefni stjórnarandstöðunnar að hengja þá stefnuyfirlýsingu á okkur og krefja okkur svara ef ekki er staðið við það sem þar stendur. Því miður hefur Samfylkingin ekki einfaldan meiri hluta í þinginu. Að því kann að koma og þá verður auðveldara fyrir okkur að standa við þær yfirlýsingar sem gefnar eru í aðdraganda kosninga. Helst mátti skilja á orðum hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar í gær að hann öfundaði okkur mjög af kosningaloforðunum, þau hefðu komið hv. þingmanni á óvart og valdið Vinstri grænum vandræðum. Það segir okkur þá að vel hefur tekist til.

Hv. þm. Birkir Jón Jónsson dásamaði í umræðum í gær viðskilnað fyrrverandi ríkisstjórnar og kannast ekki við neitt af því sem var í farteskinu frá fyrrverandi ríkisstjórn. Hann sór af sér alla aðkomu að Grímseyjarferjumálum þótt hann hafi verið formaður fjárlaganefndar á þeim tíma, taldi sig hafa verið leyndan upplýsingum og harma ég ef það er rétt. Auðvitað ber það vott um slaka vinnu og slök samskipti milli viðkomandi ráðherra og formanns fjárlaganefndar á þeim tíma. Ég ætla að vona að við getum gert betur en svo að vísa málum þar á milli. Annars held ég að fjáraukalögin fyrir árið 2007, sem eru svo sem ekki hér til umræðu, en hafa verið kynnt og eru áfram til umfjöllunar í fjárlaganefnd, segi meira en margt annað þegar menn skoða þær viðbætur sem þar eru til að rétta upp halla á einstökum stofnunum og greiða vanrækslusyndir frá þeim tíma.

Varðandi fjárlögin bið ég fólk um að líta á þau, eins og ég sagði áðan, með tilliti til stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar og með hvaða hætti þau uppfylla þá stefnuyfirlýsingu. Menn geta þá metið hvort Samfylkingin hefur haft áhrif á þá stefnuyfirlýsingu eður ei. Sjálfur tel ég að stefnuyfirlýsingin leiði í ljós að afar gott jafnvægi er á milli stjórnarflokkanna enda hefur tekist ágætt samstarf um flesta þætti fjárlaga.

Meginmál í fjárlagaumræðunni eru byggðamál, menntamál og að hluta til félagsmál. Það er stefnumál Samfylkingarinnar, og var jafnframt stefnumál Sjálfstæðisflokksins á síðustu metrunum fyrir kosningar, að vinna að þessum málaflokkum og við eigum að geta fylgt þeim málum eftir í stjórnarsamstarfi. Ég ætla í þessari ræðu að einblína á byggðamál, menntamál og félagsmál út frá þeim nefndum sem ég starfa í. Auk fjárlaganefndar eru það menntamálanefnd og félags- og tryggingamálanefnd.

Fjárlög þessa árs bera þess merki að byggðamálin eru ofarlega á blaði. Menn geta auðvitað haldið því fram að niðurskurður á þorskkvóta hafi kallað á ákveðnar aðgerðir og fátt annað sé gert en að bregðast við því með sérstökum mótvægisaðgerðum. En ef það er ekki stefna og stefnuyfirlýsing að setja fram slíkar mótvægisaðgerðir og fylgja þeim eftir veit ég ekki hvað er að vinna að málum. Mótvægisaðgerðirnar voru miðaðar við að horfa til lengri tíma og styrkja grunngerðina, efla samgöngur og reyna að hraða enn frekar fjarskiptum og nettengingum og styðja vel við menntun á landsbyggðinni. Allt hefur þetta verið sett inn í fjárlögin með ýmsum hætti og ég tel það útúrsnúninga þegar menn ætla að fara að sortera og segja: Þetta var bara þetta eða þetta kom frá einhverjum öðrum tíma. Fjárlögin birtast hér með þeim stefnumálum sem ríkisstjórnin hefur og þó að ýmislegt vanti eins og gengur held ég að engum dyljist að öflugar byggðaáherslur eru í frumvarpinu. Ég treysti á að því verði enn frekar fylgt eftir, ekki er vanþörf á. Landsbyggðinni blæðir eftir langa ríkisstjórnarsetu Framsóknarflokksins og fólki fækkar á stórum svæðum. Hagvöxtur hefur verið neikvæður og tími er kominn til að snúa þróuninni við. Þó að það verði erfitt er það skylda okkar í fjárlaganefnd og í ríkisstjórninni að berjast fyrir betri kjörum úti á landsbyggðinni.

Ég nefndi að við hefðum ákveðið að styrkja grunngerðina og ég held að engum dyljist það — og sumir hafa kveinkað sér undan því að í fjárlögunum væri allt of stór hluti til samgöngubóta og bent á að það hefði betur farið í málefni aldraðra og öryrkja eða til félagsmála. Það má rétt vera en ég held að þeir sem best þekkja til á landsbyggðinni viti að það er gríðarlega mikilvægt að koma ákveðnum landsvæðum í gott vegasamband og tryggja að aðstaðan á þeim stöðum sé með sambærilegum hætti og á höfuðborgarsvæðinu. Er þar fyrst og fremst um að ræða Vestfirði og ákveðin svæði á Norðausturlandi og á Suðausturlandi og er þá líka verið að horfa til tengingar við höfuðborgarsvæðið. Ástæða er til að vekja athygli á því að þó að þeir sem búa úti á landi berjist fyrir sínum vegum eru þeir meðvitaðir um að hafa þarf góða tengingu við höfuðborgarsvæðið. Það er mikilvægt að Sundabraut komi sem fyrst svo að við getum haft góðar samgöngur við stærstu þjónustustöðvarnar.

Sem dæmi um þá mismunun sem nú er má nefna veggjald í Hvalfjarðargöngum. Ég ætla ekki að eyða miklum tíma í umræðu um það en það er eitt af þeim atriðum sem á næstu árum þarf að fella niður til að jafna stöðuna milli ákveðinna svæða og höfuðborgarsvæðisins. Þar eru óheyrilegar upphæðir, ég kalla það óheyrilegar upphæðir þegar innheimtan á því gjaldi er um það bil milljarður á hverju ári, óheyrilegur skattur sem leggst frekar á ákveðin svæði en önnur.

Sem dæmi um að markmið ríkisstjórnarinnar séu orðin sýnileg langar mig að nefna áætlun um málefni barna, þ.e. aðgerðaráætlunina, sem samþykkt var á vorþingi. Gagnstætt því sem einstakir þingmenn hafa sagt er gert ráð fyrir fjárveitingum í málefni barna. Það birtist í einstökum tölum í mörgum ráðuneytum og tengist vímuvörnum, tannvernd og foreldrafræðslu. Allt eru það gríðarlega mikilvæg málefni sem þarf að fylgja eftir og eru í beinu framhaldi af skýrum stefnuyfirlýsingum um að sinna málefnum barna betur en gert hefur verið. Í framhaldinu þurfum við að íhuga að fullgilda barnasáttmálann og taka upp það lagaumhverfi og það kerfi sem er hvað fullkomnast í heiminum í sambandi við þjónustu við börn.

Athyglisverðar hugmyndir í sambandi við þá vinnu, sem þarf auðvitað að fylgja betur eftir, er svokölluð foreldrafræðsla eða tengsl á milli heimila, skóla og sveitarfélaga þar sem sameiginleg markmið eru sett og menn reyna síðan að læra hver af öðrum og þjálfa hver annan í því hvernig hægt er að taka á ákveðnum málum. Meginhugmyndin er einnig sú að grípa sem fyrst inn í, um leið og við sjáum að eitthvað er að fara úrskeiðis verði hægt að grípa inn í og aðstoða fjölskyldur við að komast á rétta leið aftur.

Við sjáum líka merki um markmið ríkisstjórnarinnar í því að aftur er komið fram jafnréttisfrumvarp með örlítið breyttum hætti. Því verður fylgt eftir að við náum að vinna gegn kynbundnu launamisrétti í landinu og efla baráttuna gegn kynbundnu ofbeldi. Hvort tveggja er inni í frumvarpinu og þó að alltaf megi deila um hvort peningar séu nægjanlegir kemur það ekki í ljós fyrr en að framkvæmdinni kemur. Þarna er þó um að ræða eitt af þeim málum þar sem fjárveitingar byggjast á lagafrumvarpi sem lagt hefur verið fram í þinginu. Við höfum átt orðastað um það, ég og hv. þm. Jón Bjarnason, — stundum vill hv. þingmaður að beðið sé með að setja inn fjármagn þar til búið er að samþykkja lögin en í öðrum málum finnst honum hagstæðara að fá peningana á undan — og hefur ríkisstjórnin og fjárlaganefnd reynt að sjá fyrir þau útgjöld sem boðuð eru í þeim málum sem þegar hafa verið lögð fyrir á þinginu.

Fjórði málaflokkurinn, hinir þrír eru byggðamál, málefni barna og jafnréttismál, er málefni fatlaðra. Hafi menn ekki tekið eftir því er ástæða til að benda á að Framkvæmdasjóður um málefni fatlaðra er styrktur í fjárlagafrumvarpinu. Ég kýs að skoða saman fjáraukalögin og fjárlögin og samanlagt í þessum tveimur lagafrumvörpum frá fjárlaganefnd eru um 225 millj. kr. til að efla sjóðinn. Það vita auðvitað allir að það leysir ekki vandann á einu ári og mikið verk er fram undan. En þetta skiptir engu að síður miklu máli og er verulega gott skref í rétta átt. Einnig eru aukin framlög til nokkurra stofnana sem vinna með fötluðum, einkum geðfötluðum, og það er auðvitað líka meðvituð ákvörðun.

Félagsmál heyra undir mína nefnd. Þar er stór málaflokkur sem að vísu fer á milli ráðuneyta um áramótin, þ.e. málefni sveitarfélaga. Um þau þarf að ljúka samningaviðræðum um tekjuskiptingu. Því er því miður ekki lokið. Augljóst er að mörg sveitarfélög þurfa hærri framlög og þar þarf að bæta úr málum.

Ég tók fram varðandi málefni fatlaðra, sem tengjast líka málefnum sveitarfélaga vegna þess að til þeirra á að færa málefni fatlaðra og raunar málefni aldraðra, að það sést í frumvarpinu að þau sveitarfélög sem hafa verið með samninga um málefni fatlaðra svo sem á Norðurlandi vestra og á Akureyri og Höfn í Hornafirði, að framlög til málaflokksins eru mun hærri til þeirra svæða. Þar er búið að skilgreina viðfangsefnið miklu betur og farið að sinna því betur en á sumum öðrum svæðum. Það er mér hvatning til að koma þessum málaflokkum í hendur heimaaðila, koma nærþjónustunni til þeirra sem þekkja best hvar að kreppir og það þurfum við að vinna vel á næstu missirum. Á sumum svæðum hefði þurft að leggja meira í búsetuúrræði og skammtímavistun. Gagnstætt því sem mér finnst oft haldið fram, að fyrst og fremst sé brýn þörf á slíkri vistun á höfuðborgarsvæðinu eða á Reykjanesi, þá held ég að ef menn skoða þetta í hlutfalli við fjölda fatlaðra þá sé ástandið víðast hvar svipað.

Í tengslum við félagsmálin má líka nefna frumvarp um langveik börn. Það verður að sjálfsögðu gert ráð fyrir fjármagni í þann þátt. Þar er um að ræða verulegar bætur. Það er réttilega bent á að breytingin geti kostað allt að 200 millj. kr. á ári. En það skal tekið fram að lögin voru samþykkt fyrir tveimur árum og fyrir er inneign vegna þess að reglurnar voru svo strangar að fjármagnið nýttist ekki. Útgjöldin þurfa því ekki að falla til á þessu ári vegna þess að það er til fyrir þeirri ráðstöfun að mestu leyti.

Það hefur verið boðað við 2. umr. í kynningu hv. formanns fjárlaganefndar, Gunnars Svavarssonar, að í 3. umr. komi fjárhæð til að bæta stöðu aldraðra og öryrkja í okkar ágæta og lífvænlegasta landi heims samkvæmt könnunum. Það er auðvitað gríðarlega mikilvægt mál. Því miður líður tíminn hratt og við höfum ekki náð að endurskoða almannatryggingakerfið á fyrstu fimm mánuðum kjörtímabilsins enda er það stærra verkefni en svo að maður hristi það fram úr erminni. En slík endurskoðun er mikilvæg forsenda þess að aðgerðir í málefnum aldraðra og öryrkja komi þannig fram að viðbætur á einum stað valdi ekki skerðingu á öðrum stað þannig að umbæturnar jafnist út og verði að engu. Það er verið að vinna að fyrstu tillögum í þessu efni og ég treysti á að við fáum að sjá þær milli 2. og 3. umr. Þótt einhverjir þingmenn kvarti yfir því að þær skuli ekki komnar fram fyrr þá bið ég menn að hafa þolinmæði því að við viljum vanda vel til verka.

Loks má nefna eitt af þeim fyrirheitum sem hefur heldur ekki verið klárað, sem margir sakna, þ.e. varðandi húsnæðismálin. Það er afar vandmeðfarinn málaflokkur, ekki hvað síst að fenginni reynslu undanfarinna ára þar sem breytingar á lánshlutfalli og aukið fjármagn á markaðinn hefur leitt af sér verulegar hækkanir á húsnæðisverði. Menn eru svolítið að vandræðast með hvort hækkun á húsaleigubótum eða vaxtabótum muni skila sér eða étast upp í verðhækkunum. Varðandi þau mál er að störfum nefnd sem vinnur að tillögum og þar koma að fulltrúar sveitarfélaga og fulltrúar atvinnulífsins. Unnið er að tillögum um með hvaða hætti megi grípa inn og tryggja að við getum hjálpað ungu fólki að eignast húsnæði í fyrsta skipti og tryggt að fólk sem á erfitt með að kaupa á markaði geti haft örugga búsetu og búsetuskilyrði. Þetta er auðvitað ekki vandamál sem hefur skapast á síðustu 5 eða 6 mánuðum. Það á sér lengri aðdraganda og tekur eflaust einhverjar vikur og missiri að snúa þróuninni við en ég bind miklar vonir við það starf sem er í gangi, að okkar takist að ráða bót á því.

Ég nefndi áðan byggðamál og mótvægisaðgerðirnar. Auðvitað var það mikið sjokk að fá á sig þorskkvótaniðurskurð um 30%. Mótvægisaðgerðirnar voru lagðar fram og sitt sýnist hverjum en ég held að menn verði að skoða málið heildstætt og þau markmið sem eru sett fram. Hugmyndin er að beita mótvægisaðgerðum sem gagnast muni til lengri tíma, sem verða hluti af lausnum fyrir hinar dreifðu byggðir. Þess vegna sjást þess merki í tillögunum að töluvert er veitt til einstakra verkefna, bæði í náttúrustofur, háskólasetur og ýmsa slíka þætti.

Eitt af því sem einnig kom til á haustþinginu þessu tengt eru flutningsstyrkirnir, 150 millj. kr. upphæð og í framhaldi af því frestun á niðurfellingu olíugjaldsins og þótt það teljist varla til ávinnings fyrir nýja ríkisstjórn en þó er rétt að halda því til haga. Auðvitað kemur það fyrst og fremst að gagni fyrir landsbyggðina.

Inni í mótvægistillögunum eru upphæðir sem á eftir að skipta á milli liða, t.d. 250 millj. til að mæta minnkandi tekjum sveitarfélaga. Það var viljandi samkvæmt kynningu á mótvægisaðgerðunum á sínum tíma. Beðið var með það til að sjá með hvaða hætti kvótaniðurskurðurinn birtist einstökum sveitarfélögum. Jafnframt voru settar 333 millj. kr. í viðhald opinberra bygginga og á einnig eftir að skipta þeim lið. Það eru bæði 333 millj. kr. í fjáraukalögunum 2007 og síðan aftur sama upphæð á næsta ári, þ.e. á árinu 2008 sem er í fjárlögunum. Allt þetta getur skipt verulegu máli varðandi atvinnuástand á landsbyggðinni. Það reynir svolítið á að við skiptum þessu með réttum hætti. Það getur reynst svolítið erfitt vegna þess að þarna er eingöngu átt við ríkiseignir, samkvæmt tillögunum. En sum sveitarfélög eru hreinlega ekki með neinar ríkiseignir þannig að inn í það mætti fella viðhald félagsheimila og tryggja þannig atvinnuástand á einstökum stöðum og um leið bæta stöðu sveitarfélaga hvað varðar ákveðnar eignir.

Í tengslum við þessar aðgerðir komu breytingarnar frá Atvinnuleysistryggingasjóði þar sem greiddir verða fleiri atvinnuleysisdagar, allt að 60 dögum. Það frumvarp er til meðferðar í félags- og trygginganefnd og kemur vonandi til afgreiðslu fyrir áramót.

Ég nefndi áðan samgöngurnar og ætla svo sem ekki að bæta miklu við en færðir eru til fjármunir frá Sundabrautinni. Það er óhjákvæmilegt, einfaldlega vegna þess að þeir koma ekki til með að nýtast á næsta ári, svo einfalt er það. Í sjálfu sér ætti það ekki að tefja framkvæmdina að öðru leyti. Eins og fram kom fyrr í ræðu er unnið að því að velja endanlegt vegstæði, hvort fara eigi ytri leiðina eða ekki og í göngum. Sjálfur hef ég verið hlynntur þeirri leið þótt hún kosti töluvert meira. Ég tel mikilvægt að fara þá leið. Það þýðir að eftir á að vinna töluvert mikla skipulags- og hönnunarvinnu. Það fjármagn sem eftir stendur í Sundabrautinni á næsta ári verður því varla nýtt að fullu. Þar er ekki verið að seinka framkvæmdum og ég fagna því að hluti af því ráðstöfunarfé fari á næsta ári í að bæta tengivegi. Áætlað er að um 700 millj. kr. fari í það. Það er afar mikilvægt fyrir svæði eins og Vestfirði og raunar miklu víðar á landinu, að bæta tengivegi sem þjóna bæði bændum og atvinnurekstri á þeim svæðum en ekki síður þeim sem eiga þar frístundabyggð eða stunda ferðaþjónustu.

Menntamálin eru mikilvæg fyrir byggðir landsins og fyrir landsmenn alla. Það kemur fram í frumvarpinu að þar er verið að styrkja ákveðna málaflokka. Svo ég haldi áfram að rekja saman fjáraukalagafrumvarpið og fjárlögin 2008 þá kemur töluverður peningur til að hreinsa skuldir menntastofnana og raunar heilbrigðisstofnana líka. Þar er lagður grunnur að því að endurskoða rekstrargrunn.

Varðandi skólana verður til þess að líta að inn í þingið er kominn stór pakki af nýjum lagafrumvörpum fyrir nánast öll skólastig, þ.e. leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Háskólalög voru samþykkt fyrir stuttu. Einnig liggja fyrir frumvörp um menntun og starfsréttindi kennara. Þótt það megi til sanns vegar færa, eins og kemur fram í áliti menntamálanefndar, að gera hefði mátt betur í málefnum framhaldsskóla þá eru gefin mikil fyrirheit um það í nýju frumvarpi að töluvert meira fjármagn verði lagt til þeirra og að sjálfsögðu munum við taka á því um leið og það frumvarp verður afgreitt, vonandi á vorþingi. Þar þarf að fylgja vel eftir ákveðnum aðgerðum til að styrkja landsbyggðarskóla. Það hefur verið einlægt markmið ríkisstjórnarinnar og því verður fylgt eftir af menntamálanefnd og fjárlaganefnd að styrkja menntun í dreifðari byggðum, þ.e. framhaldsskólana. Við sjáum deildina á Tálknafirði. Sú útfærsla gæti hugsanlega nýst víðar á landinu. Það hefur verið rætt um framhaldsskóla í Eyjafirði og við eigum örugglega eftir að sjá að víðar verði stofnaðar framhaldsdeildir eða jafnvel framhaldsskólar í framhaldinu.

Háskólastigið hefur verið í gríðarlegri gerjun á undanförnum árum og vöxtur þess hefur verið mikill, enda ekki vanþörf á. Við sátum svolítið eftir í því hversu margir lykju bæði framhaldsskólanámi og háskólanámi en þar hafa orðið jákvæðar breytingar á undanförnum árum. Því ber að fagna og einnig auknu starfi í háskólasetrunum á landsbyggðinni og rannsóknastofum þeim tengdum og sjálfstæðum rannsóknastofum sem einnig eru á landsbyggðinni.

Ein af stóru breytingunum í frumvarpinu er aukning fjármagns til rannsóknastarfa í háskólanum. Ég hef svolitlar áhyggjur af því að þessu rannsóknafé sé misskipt. Einstakir skólar hafa ekki úr jafnmiklu að moða varðandi rannsóknafé og nefni ég þar sem dæmi Viðskiptaháskólann á Bifröst sem hefur afar litla upphæð fyrir utan samkeppnissjóði. Ég hef einnig nokkrar áhyggjur af því að við eigum eftir að ljúka því verkefni að tryggja háskólunum á Hvanneyri og Hólum fjármagn við yfirfærsluna frá landbúnaðarráðuneyti yfir til menntamálaráðuneytis. Ég tek það sérstaklega fram að ég er afar hlynntur því að þessir skólar fari á milli ráðuneyta. Ég tel það mikilvægt fyrir skólana sjálfa að litið sé á þá sem hverja aðra háskóla en þar á eftir að ljúka töluverðri vinnu. Jafnvel þótt inni í fjáraukalögin hafi komið veruleg upphæð til háskólans á Hólum þá þarf meira til að tryggja að eldri skuldir skólanna dragnist ekki með þeim yfir í nýtt umhverfi.

Því ber að fagna að nýr skóli komist á legg á Keflavíkurflugvelli um leið og ég verð að lýsa svolítilli undrun á því að þar sé farið af stað með frumgreinadeild í beinni samkeppni við frumgreinadeildir annarra skóla, t.d. í Háskólanum í Reykjavík eða á Bifröst. Raunar stendur einnig til að setja af stað frumgreinadeild á Ísafirði. Þetta eru að vísu mikilvægar deildir, þ.e. að opna háskólann og gefa fólki tækifæri til að stunda háskólanám jafnvel þótt það hafi ekki lokið stúdentsprófi, að það fái þannig tækifæri til að endurmennta sig og opna leið inn í framhaldsnámið. Vonandi er eftirspurnin svo mikil að frumgreinadeildin í Keflavík komi ekki til með að draga úr þeirri ágætu vinnu og eftirspurn sem hefur verið og er enn á Bifröst.

Einn skóla í viðbót sé ég ástæðu til að nefna, ég ber hag hans fyrir brjósti en það er Kennaraháskólinn en ekki náðist að ganga frá málum hans í þessu frumvarpi. Hann sameinast núna Háskóla Íslands og fylgjast þarf vel með því að hann verði öflugur. Hann fær stórkostlegt nýtt hlutverk með nýjum tillögum um að kennaranámið verði fimm ár. Auðvitað þarf að standa vaktina og gæta þess að skólinn eflist og geti staðið áfram undir því merki að mennta kennara, þroskaþjálfa og aðra sem þar nema.

Ég sagði það í upphafi að í þessu frumvarpi þurfum við sérstaklega að hafa auga á er landsbyggðinni. Í einni af fyrstu ræðum mínum orðaði ég það svo að setja þurfi landsbyggðargleraugu á allt. Ég hef líka orðað það svo að setja þurfi jafnréttisgleraugu á allt, jafnrétti í þeirri merkingu að við séum að tala um jafnan rétt hvort sem um er að ræða kyn, trúarskoðanir, búsetu eða efnahag. Þetta er auðvitað það leiðarljós sem ég held að allir þingflokkar og allir þingmenn geti sameinast um. Um þetta eru gefin stór fyrirheit í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Markmiðið er háleitt og þar reynir á okkur. Að hluta til kemur þetta inn í fjárlögin í ýmsum breytingum en við þurfum að vinna miklu betur og á næstu árum þurfum við að fylgja þessu betur eftir og skoða með landsbyggðar- og jafnréttisgleraugum öll okkar verk.

Í menntamálunum ber að fagna mikilli eflingu í símenntun og endurmenntun. Í utandagskrárumræðu eða umræðum áður í þinginu var einmitt minnst á þau mál þar sem hæstv. menntamálaráðherra tilkynnti að unnið væri að rammalöggjöf um símenntun og endurmenntun sem ég held að sé mjög mikilvægt því að þetta er auðvitað þáttur sem má alls ekki vanrækja. Fjöldi fólks á vinnumarkaðnum vill gjarnan sækja sér meiri menntun og á auðvitað að eiga kost á því þar sem menn vita að menntun er aldrei endanleg. Ég hef stundum vitnað í það þegar ég stundaði nám fyrir margt löngu í Danmörku að ekki var haldið upp á útskriftarafmæli í þeim skóla heldur upphaf náms. Það lýsir kannski svolítið viðhorfinu að maður lýkur í rauninni aldrei námi í nútímasamfélagi. Menn geta lokið einhverjum áföngum en menn verða stöðugt að vera að mennta sig, bæta við sig og stunda símenntun og því ber að fagna að því er sinnt að nokkru í þessu frumvarpi. Þarna koma líka inn töluverðar upphæðir til íslenskukennslu útlendinga. Það kann að vera að það sé ekki nóg en það er alla vega myndarleg upphæð, 100 millj. kr., sem fara í það, og skiptir gríðarlega miklu máli.

Ég vík aðeins að heilbrigðismálunum aftur. Í áðurnefndum fjáraukalögum kemur fram, svo ég tengi það saman, að þar er verið að hreinsa framúrakstur eða skuldir eða hvað á að kalla það, umframnotkun á fjármagni, hjá Landspítalanum en jafnframt hjá svokölluðum kragasjúkrahúsum, þ.e. sjúkrahúsunum næst Reykjavík, á Selfossi, Reykjanesi og Akranesi, og einnig á Akureyri. Þessu til viðbótar bætti fjárlaganefndin 250 millj. kr. sem koma til skiptanna í næstu umræðu um fjáraukalögin, í lokaumræðunni um þau. Þar er tekið á mörgum stofnunum á landsbyggðinni, bæði sjúkrahúsum og hjúkrunarheimilum. Þetta tel ég afar mikilvægt, bæði við ríkisstjórnarskipti og eins til að skapa grunn til lengri framtíðar, og þótt sumir hafi bent á að felldar séu niður 1.800 millj. kr. af Landspítalanum en framlög aðeins hækkuð um 1.000 millj. kr. til rekstrar spítalans þá skýrist það að hluta af loforði um að reyna að færa verkefni af Landspítalanum einmitt í áðurnefnd kragasjúkrahús, að dreifa starfinu á fleiri sjúkrahús. Ég held að þetta sé afar mikilvægt og sjálfsagður hlutur því að margt ágætt starfsfólk starfar á öllum þessum sjúkrahúsum og raunar víðar á landsbyggðinni. Það er bara spurning um hugarfar að dreifa þessum verkefnum víðar um landið.

Ég hef farið yfir þá málaflokka sem tengjast þeim nefndum sem ég er í en ég ætla þó að nefna að auki utanríkismálin lítillega, þ.e. fagna því að framlög til þróunarmála eru stórhækkuð. Þar hefur Ísland verið aftarlega á merinni þótt svolítið hafi verið bætt í á undanförnum árum en ég held að við eigum að geta gert miklu betur sem eitt ríkasta samfélag heims og ég legg mikla áherslu á að við stöndum vel að þróunarmálum í heiminum. Ég fagna því líka að Mannréttindaskrifstofa er aftur komin inn á fasta fjárveitingu með 10 millj. kr. og tel það vera mjög mikilvægt.

Í félagsmálum, þar á ég við málefni einstakra félaga sem oft eru kölluð frjáls félög þó að ég kunni afar illa við það orð, þá er verið að efla Bandalag íslenskra skáta til að þeir geti unnið betur að verkefnum sínum úti á landsbyggðinni. Það er staðið myndarlega að Ungmennafélagi Íslands með ungmenna- og tómstundabúðir á Laugum í Sælingsdal þar sem er gríðarlega öflug og skemmtileg vinna, sem mér finnst full ástæða til að styðja vel við. Þar hafa verið hugmyndir um að vera með slíkar búðir víðar á landinu og mér finnst það fyllilega koma til greina en þó ber að skoða það vandlega áður en farið er í að bæta við slíkt.

Því ber líka að fagna að ferðasjóður ÍSÍ var settur á stofn af síðustu ríkisstjórn og hann er áfram með framlög hér og það er afar jákvætt.

Ég nefndi í upphafi að einn af þeim liðum sem hafa fengið hvað mesta athygli víða í nefndum og í fjárlaganefnd líka að hluta, eru styrkir af svokölluðum safnliðum. Það kom fram í umræðunni að það er u.þ.b. 1 milljarður sem verið er að deila út til ýmissa mála. Ég held að þetta sé ótrúlega mikilvægt ekki hvað síst fyrir landsbyggðina þar sem hver einasta króna sem sett er í ákveðin verkefni margfaldast oft á svæðinu og lyftir upp bæði atvinnu- og ekki síður mannlífinu á viðkomandi svæðum. Það eru ótrúlega hugmyndarík og skemmtileg verkefni sem koma hér til umfjöllunar og hvort sem um er að ræða björgun menningarverðmæta, báta, byggingar eða söfn en einnig ýmiss konar menningarviðburði og hátíðir er þetta allt mjög mikilvægt. Við sjáum að ríkissjóður er ekki gerandinn eða sá aðili sem ræður því að farið sé í framkvæmdir heldur gefur aðeins viljayfirlýsingar með því að setja ákveðið fjármagn til hlutanna og við sáum einmitt dæmi um það, sem hv. þm. Björk Guðjónsdóttir nefndi hér í fyrri ræðu sinni, Landnámssetrið í Borgarnesi, sem er mjög gott dæmi um stofnun eða setur eða hvað á að kalla það, eitt af þessum frægu setrum þar sem fléttað er saman menningu með leikhúsi, veitingaaðstöðu og ferðaþjónustu, á mjög skemmtilegan hátt. Þess vegna var gríðarlega ánægjulegt að sjá að framkvæmdastjóri þeirrar stofnunar, Sigríður Margrét Guðmundsdóttir, hlaut sérstaka viðurkenningu fyrir starf sitt á alþjóðlegri ráðstefnu kvenna í atvinnurekstri í Kaíró, og var raunar tilnefnd af konum, stjórnendum í atvinnurekstri á Íslandi.

Það segir heilmikið um hversu hugmyndaríkir menn eru einmitt við að draga fram atriði úr menningu á hverju svæði og sögu þegar við fáum tillögur um skrímslasetur, sjóræningjasetur, draugasetur og ýmiss konar sögusetur, m.a. sögusetur hestsins, sem ég tel vera mjög mikilvægt, og er á Hólum. Allt ber þetta vott um gríðarlega mikla hugmyndaauðgi og einmitt það sem menn hafa verið að grafa í sögunni. (Gripið fram í.) Nei, ég byrjaði á því, ég kallaði það skrímslasetur, en það er ótrúlega skemmtilegt að sjá þar heila þykka bók af alls kyns sögum af skrímslum í Arnarfirðinum og raunar rifjaði það upp sögur sem ég var alinn upp við á Akranesi þar sem talað var um Katanesskrímslið þar sem bændur fyrir u.þ.b. 100 árum eyddu fleiri dagsverkum í að ræsa fram tjörn til að finna skrímslið sem var í vatninu en þó án árangurs. En allt eru þetta hlutir sem tengjast sögu viðkomandi svæða sem menn hafa verið að draga fram og ég held að þeim peningum sem við verjum í þessa þætti sé mjög vel varið. Ég get tekið undir það sem hefur komið fram hér áður að því miður eru verkefnin svo mörg að við getum ekki sinnt þeim eins vel og við hefðum helst þurft að gera.

Þá má jafnframt taka fram að gerðar hafa verið skemmtilegar breytingar eins og með menningarsamningum landshlutanna, mjög skemmtileg viðbót og gagnleg, en mér finnst hafa gætt svolítils misskilnings þar að þar með væri hægt að beina öllum fjárveitingum á þessum svæðum inn í menningarsamningana. Til þess þyrfti bæði meira fjármagn og líka breytingar á hugmyndinni, því að hugmyndin er fyrst og fremst að koma til móts við einstaka atburði en ekki að borga fyrir reglubundnar hátíðir. Þannig mundi t.d., eins og nefnt hefur verið í fjárlaganefnd, bæði tónlistarhátíð í Reykholti og í Skálholti falla utan við þessa menningarsamninga nema um einstaka tónleika væri að ræða því að menningarsamningarnir hafa fyrst og fremst verið til að styrkja einstök verkefni einu sinni.

Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir hefur bent á að hún vilji að þessi fjárframlög fari öll í gegnum fagsjóði. Ég deili þeirri skoðun ekki að fullu með henni. Ég tel rétt að fagsjóðir séu starfandi og það má örugglega til sanns vegar færa að mikið af verkefnum má færa inn í þá. Ég bendi engu að síður á að samstarfið sem tekist hefur m.a. um húsafriðunarsjóðinn þar sem sá sjóður kemur að því að gefa umsögn um öll slík erindi sem borist hafa til fjárlaganefndar og merkir þau og hefur skoðanir á því hverju mikilvægt er að sinna. Það er síðan vegið á móti skoðunum þeirra 11 þingmanna sem sitja í fjárlaganefnd og ábendingum sem komið hafa og út frá því er síðan úthlutað fé til bygginga eða varðveislu húsa. Ég held að það form hafi reynst afar vel en ég tek þó undir þær ábendingar sem hafa komið fram að við þurfum að fara yfir það hvernig við förum með þessa safnliði. Við þurfum að ná sátt um hvert ferlið er, en ég er ekki alveg tilbúinn að kaupa það — það þarf a.m.k. að útfæra það mjög vel ef ég á að trúa því að einstakar stofnanir, sem alltaf eru gildishlaðnar og bundnar einstaklingum, hvaðan þeir koma, hvaða menntun þeir hafa o.s.frv., séu betri úthlutunarmáti en misvitir fjárlaganefndarmenn á hverjum tíma en það er auðvitað mikilvægt að þetta kaffæri ekki vinnuna við öll önnur mál í fjárlaganefnd.

Í allri þessari erindaflóru sem hefur komið inn og þeirri aukningu sem þar hefur átt sér stað, bæði í fjármagni en líka í umsóknum, þá er mér kunnugt um að einhverjir hlutir hafi e.t.v. misfarist hjá okkur og það verður væntanlega reynt að taka á því milli 2. og 3. umr. Þannig veit ég að Náttúrustofa Vestfjarða virðist hafa dottið út af listanum með 8 millj. kr. framlag og ég treysti á að við náum að leiðrétta það. Þar var um misskilning að ræða og kannski er hægt að taka það í samhengi, af því að hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir ræddi um náttúruverndina og hvernig staðið er að þeim málum í landinu, að hún nefndi í engu þær náttúrustofur sem til eru og tók t.d. ekki með Hornstrandagestastofu sem fær 15 millj. kr. og 20 millj. kr. á ári til næstu fimm ára í verkefni tengd Vestfjarðaáætluninni sem koma inn á Náttúrustofu Vestfjarða sem á að vinna að gróðurfarskortagerð, rannsóknum á fuglalífi og lífríki eða gróðri bæði á láglendi og hálendi, allt verkefni á Vestfjörðum sem eru unnin í nágrenni við þá sem best þekkja til. Þetta eru allt saman hlutir sem ég lít á sem hreina og klára viðbót í umhverfismálum og á auðvitað að taka með sem slíka þó að útdeilingin á því fari ekki í gegnum einhverja miðlæga stofnun á höfuðborgarsvæðinu.

Varðandi náttúrustofurnar þá er það þannig — og hægt er að taka undir með hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur að auðvitað þarf að skoða af hverju það er með þeim hætti — að rekstrarframlag til náttúrustofanna er 9,2 millj. kr. og það hefur verið reglubundið ár frá ári en síðan kemur rannsóknafé til viðbótar og því hefur verið úthlutað í gegnum fjárlaganefnd á hverju ári. Mér sýnist misskilningurinn hafa verið sá að náttúrustofurnar fengu allar 9,2 millj. kr. nema Náttúrustofa Vestfjarða sem fékk 17,4 millj. kr. vegna þess að búið var að færa inn 8 millj. kr. sem áttu að vera vegna rannsókna á Patreksfirði. Síðan fengu allar sitt rannsóknafé til viðbótar, sem eru 8 millj. kr. núna en voru 7 á síðasta ári, en þá töldu menn að það hefði verið komið til Náttúrustofu Vestfjarða, en það hefur enginn talað fyrir því og ég hef ekki heyrt, hvorki í fjárlaganefnd né annars staðar, að menn ætli að nota mótvægisaðgerðirnar til að skera annað sem fyrir fram var ákveðið og ég vona því að þarna bætist við 8 millj. kr. milli umræðna.

Þessi umræða byrjaði með umfjöllun um þingsköp, um ræðutíma þingmanna og fleira í þeim dúr. Menn vildu tengja þetta mál við styrkingu á Alþingi og þá einkum stjórnarandstöðunnar, því að í þessu frumvarpi er talað um 100 millj. kr. til að efla stuðning við landsbyggðarþingmenn og stjórnarandstöðuflokkana. Ég vil taka sérstaklega fram, og ég veit að hv. þingmaður sem er hér í salnum, Jón Bjarnason, getur staðfest það, að það var rætt lítillega um þessa tengingu. Það hefur sjálfsagt verið rætt einhvers staðar, í forsætisnefnd eða annars staðar, að setja ætti þetta fram saman og skilyrða hvort öðru. Það var rætt í fjárlaganefnd að slíkt yrði ekki gert, þ.e. það var skoðun okkar að það ætti ekki að tengja þetta saman. Þetta væri sjálfsögð réttindabót fyrir þingmenn og áfangi í því að styrkja stöðu þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu, og ég held að þetta sé mjög mikilvægt skref í því, en það ætti auðvitað að vera ótengt þingskapaumræðunni þó að þar þurfi að gera bragarbót líka.

Í lokin vil ég segja að þótt mikið sé spurt um hvað Samfylkingin hafi gert í þessu ríkisstjórnarsamstarfi þá ætla ég að vona að ríkisstjórnin vinni þannig og væntingar mínar eru þær að það sem gert er í menningar- og heilbrigðismálum verði ekki talið eign Sjálfstæðisflokksins frekar en það sem gert er í félagsmálum verði talið eign Samfylkingarinnar. Þetta eru auðvitað sameiginleg verkefni og sameiginleg niðurstaða tveggja flokka. Það eru verulegar umbætur fram undan bæði varðandi menntamálin og heilbrigðismálin og ég treysti á og veit að það verða líka miklar endurbætur í málefnum aldraðra og öryrkja og þó að það komist því miður ekki allt inn í þetta frumvarp, okkar fyrsta frumvarp, þá veit ég að það kemur í framhaldinu. Svo geta menn togast á um hvað er frá Samfylkingu og hvað er frá Sjálfstæðisflokki en mér finnst það aukaatriði, það er árangurinn í heild sem skiptir mestu máli og hvort við stöndum við þá stefnuyfirlýsingu sem kom fram sameiginlega frá báðum aðilum.

Þetta kom svolítið skemmtilega fram í umræðunni í gær, ekki hvað síst frá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, sem var aðeins að skýra út af hverju tillögur kæmu seint fram og af hverju þær hefðu ekki verið bornar upp í fjárlaganefnd. Sjálfur hefði ég viljað sjá þau vinnubrögð að stjórnarandstaðan og við vendum okkur á þau vinnubrögð, þó að ég hafi ekki sérstaka reynslu af stjórnarandstöðu þá hef ég fylgst með og tekið þátt í meirihluta- og minnihlutasamstarfi í bæjarstjórnum, að báðir aðilar komi að málum og vinni sameiginlega að því að ná fram sem allra bestum árangri þó að það sé eðlilegt að á einhverju augnabliki skilji leiðir. Það hefur angrað mig svolítið í því starfi sem ég hef tekið þátt, bæði í menntamálanefnd og í félags- og tryggingamálanefnd, að í sumum tilfellum hafa menn jafnvel í upphafi umræðu þar tilkynnt að þeir verði hvort sem er með sérálit og þurfi því sáralítið að taka þátt í umræðunni. Mér finnst þetta ekki vera rétt vinnubrögð því að margt af því sem komið hefur frá stjórnarandstöðunni eru atriði sem bæði hefðu átt að fara inn í nefndarálit og átt að vera til að bæta málin og þannig eigum við auðvitað að vinna. Það þýðir ekki að við verðum sammála um málin. Það þýðir ekki að það standi ekki eitthvað út af og það þýðir ekki að menn missi sérstöðu sína. En það eru einstök dæmi um þetta og þetta er eitt af því sem hefur komið mér á óvart í þeirri vinnu sem ég hef tekið þátt í. Ég treysti á að þetta breytist og menn átti sig á að við höfum öll, hv. þingmenn á Alþingi, það hlutverk að gera okkar besta en ekki bara að merkja okkur mál til að vekja athygli á okkur sjálfum.