135. löggjafarþing — 34. fundur,  30. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[12:31]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í ágætri ræðu hv. þingmanns kom fyrir ódrengileg setning sem ekki á að heyrast. Hann sagði að byggðunum hefði blætt út vegna þátttöku Framsóknarflokksins í ríkisstjórn. Sannleikurinn er sá að verið var að staðfesta hjá Sameinuðu þjóðunum að bestu lífskjör og lífsgæði í heiminum eru á Íslandi árið 2005, við veltum Noregi úr sessi.

Framsóknarflokkurinn stóð frammi fyrir því 1995 að ekki aðeins fólkið á landsbyggðinni væri að flytja til Reykjavíkur, fólkið af Íslandi var að fara utan. Menntaða fólkið kom ekki heim, enga atvinnu var að hafa. Við snerum þessu við og einnig mörgu í byggðunum. Stærsta einstaka framkvæmd Íslandssögunnar var vígð í dag, Kárahnjúkavirkjun, hún breytti Austurlandi. Sveitirnar hafa lifnað og styrkst og verðmæti bændanna hafa vaxið að verðgildi á síðustu árum. Við vitum að uppgangurinn nær norður á Holtavörðuheiði, austur að Markarfljóti og Norðurland er að rísa.

Við vitum að byggðir eiga erfitt en það sem alvarlegast er í málinu er að hæstv. ríkisstjórn tók mjög vitlausa ákvörðun um niðurskurð á þorski sem hafa mun gríðarleg áhrif á byggðirnar, ekki síst í kjördæmi hv. þingmanns. 15–20 milljarðar voru teknir á einu bretti út úr sjávarútveginum.

Veiðigjaldið var sett á til sátta á sínum tíma. Það verður fellt niður af þorski og rækju við þær aðstæður sem nú eru en tekin eru jafnvel upp í 35% af hagnaði fyrirtækjanna. Nú vil ég spyrja hv. þingmann: Væri ekki rétt , hv. þingmaður, að fella veiðigjaldið alfarið niður um tíma til þess að styrkja sjávarfyrirtækin í byggðunum? Hv. þingmaður orðaði það þannig að hann vildi hafa byggðagleraugu. (Forseti hringir.) Væri ekki skynsamleg ákvörðun við núverandi aðstæður að veiðigjaldið yrði fellt alfarið niður tímabundið?