135. löggjafarþing — 34. fundur,  30. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[12:34]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Guðni Ágústsson ber af sér sakir varðandi þátttöku Framsóknarflokksins í ríkisstjórn á undanförnum árum þar sem byggðamálin hafa þróast með þeim hætti að 20% fækkun hefur orðið á stórum svæðum eins og í Vestmannaeyjum og eins á norðvesturhorninu en einkum á Vestfjörðum. Hann bendir réttilega á að gríðarleg uppbygging hefur orðið á Miðausturlandi og ætla ég ekki að gera lítið úr því.

Aftur á móti var vakin athygli á því á sínum tíma þegar framkvæmdirnar fóru af stað að tvö svæði yrðu út undan eftir þá uppbyggingu meðan höfuðborgarsvæðið byggi vel. Það kom bókstaflega fram sem þingsályktunartillaga í þinginu að málin yrðu skoðuð sérstaklega, bæði varðandi Vestfirði og Norðurland vestra. Því var ekki sinnt og þess vegna er staðan sú að ákveðin svæði hafa 10% eða 8–10% neikvæðan hagvöxt á sama tíma og meðaltalið í landinu er 29%. Það kannski segir svolítið um — sem ég ætla svo sem ekki að gera að umtalsefni — að þótt við höfum ein mestu landsgæði í heiminum öllum, sem ég gleðst yfir, er það auðvitað hlutverk okkar þingmanna — eins og margir hafa verið — (GÁ: Hverjir voru í ríkisstjórn þá?) því getur hv. þingmaður gert grein fyrir sjálfur. Ég get nefnt Framsóknar- og Sjálfstæðisflokk en jafnframt skulum við nefna hvernig það skiptist. Málið snýst um byggðirnar. Ekki er nóg að lyfta Reykjavík og segja að meðaltalið sé ágætt, 20% hækkun sé á ákveðnum svæðum á sama tíma og mikil þensla er á Reykjavíkursvæðinu með tilheyrandi vandamálum þar.

Í tengslum við veiðileyfagjaldið finnst mér vert að skoða allar leiðir varðandi hvernig við hlúum að landsbyggðinni. Aftur á móti hef ég ekki mestar áhyggjur af stóru fyrirtækjunum í sambandi við fiskveiðarnar heldur fólkinu sjálfu og þeim sem hvað harðast verða fyrir afleiðingum niðurskurðarins. Fyrirtækin munu bjarga sér, þau stærri a.m.k.