135. löggjafarþing — 34. fundur,  30. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[12:41]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason segir að lítið fari fyrir stefnumálum Samfylkingarinnar. Ég reyndi að gera grein fyrir því áðan með hvaða hætti þau koma fram en taldi þó mikilvægara að það yrði skoðað út frá stefnumálum ríkisstjórnarinnar. Það er a.m.k. undarlegt, eftir að hafa verið í kosningaslag við hv. þingmann í síðustu kosningum, ef hann telur byggðamál ekki vera stefnumál Samfylkingarinnar. Það var eitt af því sem við fórum fyrst af stað með, það angraði suma að við skyldum fara svo hratt inn í þá umræðu og höfum barist einlæglega fyrir því allan tímann. Margt af því kemur hér vel fram.

Varðandi heilbrigðisstofnanir, heilsugæslu og hjúkrunarheimili þá vekur það líka furðu mína eftir vinnuna í fjárlaganefnd ef hv. þm. Jón Bjarnason hefur ekki séð breytingarnar sem þar voru gerðar. Skorinn er hressilega niður halli stofnana í fjáraukalögunum en auk þess er í tillögum meiri hlutans veruleg aukning fjárveitinga á mörgum stöðum. Vera má að töluvert mikið sé eftir. Bent var á Heilbrigðisstofnun Austurlands í þeim efnum, en þess verður að geta að hún hefur búið við afar óeðlilegar aðstæður undanfarin ár vegna mikils fjölda starfsmanna sem þar hefur verið í tengslum við virkjunarframkvæmdir. Þar mun eðlilega dragast saman í framhaldinu og er það raunar inni í áætlunum stofnunarinnar, að því er ég best veit.

Ég geri annars ráð fyrir að aðrir þingmenn eins og formaður heilbrigðisnefndar, Ásta Möller, muni gera betur grein fyrir heilbrigðisstofnunum á eftir. Heilsugæslan í Reykjavík hefur verið skoðuð, við fengum forsvarsmenn hennar í viðtal í fjárlaganefndinni og málið er í ákveðnum farvegi. Ég treysti á að áfram verði unnið að því. Mjög ánægjulegar breytingar eru inni í fjárlagafrumvarpinu til að rétta stöðu stofnana víða úti á landi og á ég t.d. við stofnanir á Akranesi, Reykjanesi og á Selfossi. Vonandi fáum við tækifæri til að fylgja því betur eftir. Í mörgum tilfellum standa stofnanirnar bærilega ef skuldahalinn er tekinn af þeim og hætt við að skera þá niður um eldri skuldir.