135. löggjafarþing — 34. fundur,  30. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[14:32]
Hlusta

Frsm. meiri hluta fjárln. (Gunnar Svavarsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni fyrir góða ræðu hér og uppbyggilega gagnrýni eins og hann sagði sjálfur. Um leið ítreka ég það að ég hlustaði á alla ræðuna þrátt fyrir að ég hafi ekki setið í þingsal og var búinn að lofa honum því í nótt að hlýða á ræðu hans og gerði það. Ég ítreka hins vegar það sem hér hefur verið sagt um þessi mál að við getum auðvitað hlýtt á þessar ræður annars staðar en hér í þingsal eins og fyrrverandi hv. formenn fjárlaganefndar hafa sagt mér.

En það var spurt um Fjarskiptasjóð, hafnamannvirki og rekstur Vegagerðarinnar vegna vetrarþjónustu. Vissulega komu þessir hlutir fram í nefndarálitinu og við fjölluðum um þessi mál í nefndinni. Að þessu sinni fórum við ekki með þetta fram inn í breytingartillögu. En þetta er auðvitað hlutur sem við erum að fara yfir hér milli 2. og 3. umr. En það tengist nú meðal annars því að við erum að fá ákveðnar skýringar á ákveðnum hlutum frá ráðuneytunum og vonumst til þess að þær komi.

Vandamálið er auðvitað það að þegar þessi nefndarálit koma fram, og það tengist þessu vinnulagi öllu sem ég hef rætt um hér, er stuttur tími þar til fjárlaganefndin á að skila út og við erum að óska eftir framhaldssvörum og það er verið að vinna þau. Ég hef stundum sagt að menn þurfi helst að vinna þetta á hraða ljóssins til þess að geta náð að halda þessari starfs- og verkáætlun fjárlaganefndar og þingsins. Þessu vil ég breyta.

Ég vil líka hvetja þingmenn Vinstri grænna eins og ég gerði hér í gær. Ýmsar tillögur sem þeir komu fram með í gær hefðu alveg mátt koma til umræðu inni í nefndinni. Þetta þekkjum við úr sveitarstjórnunum. Ég held að við getum breytt þessu hér á komandi mánuðum og árum líka á þinginu.