135. löggjafarþing — 34. fundur,  30. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[16:03]
Hlusta

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skal með ánægju svara og upplýsa hv. þingmann um afstöðu mína til veiðileyfagjaldsins eins og það liggur fyrir. Ég er andvígur þeirri gjaldtöku eins og hún birtist í fjárlagafrumvarpinu. Fyrir því er ekki meiri hluti á þinginu, að lækka það. Ég tel óeðlilegt að atvinnugrein sem verður fyrir slíku áfalli sem skerðingin á þorskaflaheimildunum er skuli þurfa að sitja undir því að álögur á hana séu hækkaðar upp á 60–70% á milli ára. Eins og kom fram í ágætri umræðu í gær í máli hv. þm. Guðjóns Arnars Kristjánssonar, þá er þetta svipuð aðferð í skattaukningu eins og var fyrir tíma staðgreiðslukerfisins.

Það kann vel að vera að mótvægisaðgerðirnar og tillögur Vestfjarðanefndar gangi skammt. Þetta er þó skref í rétta átt og því ber að fagna. Mér hefur stundum þótt lítið fara fyrir því að þingmenn taki þó vel í það sem vel er gert á þessu sviði og ég benti á það í framsöguræðu minni í gær að ég vildi gjarnan sjá meira. Það eru önnur svæði landsins sem þurfa að fá svipaðar aðgerðir til að styrkja byggð, alveg tvímælalaust. En það má ekki tala þetta þannig niður að það sé gert lítið úr því sem vel er gert.

Það hefur komið fram í umræðum hér að hæstv. iðnaðarráðherra hefur lýst yfir vilja til að skoða ýmsar leiðir til að fara inn á önnur svæði með svipuðum hætti og gert var varðandi Vestfirði og það er vel og ég fagna því. Ég nefndi í framsöguræðu minni tiltekin svæði á landinu sem ég tel að þurfi alveg tvímælalaust á því að halda að gripið verði til sérstakra aðgerða til að styrkja byggð og búsetu á þeim.