135. löggjafarþing — 34. fundur,  30. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[16:43]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. fjármálaráðherra hefur verið fjármálaráðherra í miklum uppgangi í samfélaginu. Þegar ég horfi til baka er oft erfiðasta verkefni fjármálaráðherra að ná fjárlögum saman vegna tekjuleysis og samdráttar í þjóðfélaginu. Nú hefur það gerst í ein sex, sjö ár að það hefur verið leikur einn miðað við áður.

Ég minni á það sem ég sagði hér í ræðu minni og bið hæstv. fjármálaráðherra að sofna ekki á verðinum. (Gripið fram í.) — Ég bið hæstv. forsætisráðherra að vakna. (Gripið fram í: Það er gott.) Hann er efnahagsráðgjafinn. Hann á að stýra skútunni. Hann stendur í stafni. (Gripið fram í: Hann gerir það vel.) (Gripið fram í: Nei.) — Hann hefur gert það vel að mörgu leyti en hann virðist daufgerður núna og stunginn svefnþorni Samfylkingarinnar. (Gripið fram í.) Hún hefur tekið úr honum kraftinn. Hann er daufgerður. (Gripið fram í: Glæsilegur maður á velli.) — Glæsilegur maður, ég ætla ekki að fjalla um það. (Gripið fram í.) Fegurð hans skiptir engu máli í þessum efnum.

Ég vil spyrja hæstv. fjármálaráðherra enn og aftur. Hvað vill hann gera í veiðigjaldinu? Er hann tilbúinn að lækka það eða fella í burtu? Við tölum íslensku hér og ég vil að svarið sé skýrt. (Gripið fram í.) Það mun hjálpa sjávarbyggðunum meira en nokkuð annað ef menn fallast á að gera það tímabundið til að byrja með og fara síðan yfir allar auðlindirnar á næstu tveimur til þremur árum. Ég held að það væri sanngirniskrafa (Gripið fram í.) því að sá mikli maður sagði: Gjaldið keisaranum það sem keisarans er, og átti við ríkið. Auðvitað höfum við lagt á sjávarfyrirtækin að gjalda meira en það sem aðrir verða að gjalda keisaranum. Við gætum komið til móts við (Forseti hringir.) fyrirtækin og fólkið þar með því að fá skýrt svar (Forseti hringir.) frá hæstv. fjármálaráðherra.