135. löggjafarþing — 34. fundur,  30. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[16:45]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég skal ekki sofna og forsætisráðherrann er vel vakandi. Það þarf ekki að hafa áhyggjur af því. Ég beið með að svara hv. þingmanni þessari spurningu þangað til í seinna andsvari mínu til þess aðeins að skapa (Gripið fram í.) hér skemmtilegra andrúmsloft. Nei, ég þurfti ekkert að hugsa um þetta. Þessi mál þekki ég mætavel.

En eins og hv. þingmaður veit, þá er það ekki mitt hlutverk núna að fara með málefni veiðileyfagjaldsins, og eins og hann veit þá hefur verið lagt fram frumvarp hér á þinginu um lækkun gjaldsins, tímabundna lækkun. Það frumvarp er í nefnd, í vinnslu hjá (Gripið fram í: Sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd.) hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd. Ég held að hv. þingmaður viti það alveg eins vel og ég og flestir ef ekki allir hér inni, að það væri engan veginn við hæfi í þessari umræðu að ég gæfi út einhverjar yfirlýsingar um þetta efni. En hv. þingmaður getur auðvitað gert sér einhvern mat úr því einhvers staðar í þeirri umræðu.

Ég vil hins vegar minna hann á það, vegna þess sem hann sagði um góða stöðu ríkissjóðs og tengdi hana við veiðileyfagjaldið, að veiðileyfagjaldið var ekki lagt á vegna slakrar stöðu ríkissjóðs. Það voru allt önnur sjónarmið sem þar lágu að baki og þar af leiðandi held ég að það sé hæpið að leggja það til grundvallar, ef það á að breyta því eða leggja það af, að staða ríkissjóðs sé svo góð. Ég held að það séu þá önnur sjónarmið sem þar mundu liggja á bak við á sama hátt og það frumvarp sem nú er verið að fjalla um, þá verða einhverjar slíkar forsendur sem þá þyrftu að liggja að baki og það er auðvitað sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar að vinna úr því eins og málum er nú komið í þinginu.