135. löggjafarþing — 34. fundur,  30. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[16:47]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka nú hæstv. fjármálaráðherra fyrir hans svör. Hann er auðvitað sá sem heldur utan um skatta og gjöld. Hann hefur ekki slegið það af hér að til greina geti komið að endurskoða þessi mál. Ég geri mér grein fyrir því að þetta sneri ekkert að tekjum ríkissjóðs þegar þetta gjald var tekið upp. Þetta var svona samstöðumál til þess að skapa frið um sjávarútveginn.

En ég er fyrst og fremst að tala um þetta núna af því ég held að þetta mundi koma sjávarbyggðum einstaklega að gagni í þeim mikla samdrætti, að 15–20 milljarðar, voru með einni ákvörðun af hálfu ríkisstjórnarinnar teknir út úr efnahagsreikningi þessara fyrirtækja.

Þess vegna er ég fyrst og fremst að tala um þetta sem aðgerð sem mundi hjálpa meðan er verið að bíða eftir því að aukning verði á þorskinum á nýjan leik sem ég vona að verði auðvitað sem fyrst. Ég er auðvitað þeirrar skoðunar, eins og kom fram, að það hefði átt að veiða meira af þorski og hefði verið skynsamlegt. Ég tel reyndar, og get sagt það hér, að það þurfi að stórefla rannsóknir í kringum sjávarútveginn og við framsóknarmenn leggjum til að það verði gert og viljum auka fjárveitingar til þeirra árlega um 400 millj. kr.

Kannski þarf þar að koma til fleiri en Hafró, t.d. háskólarnir, samstarf við þá, því við vitum að samkeppni í vísindum og atvinnulífi getur líka haft mikið að segja. Ég held því að það þurfi nú að fara yfir þetta mál hér og við munum auðvitað gera það í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd. En ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir hans svör. Mér fannst liggja í svari hans loðið loforð.