135. löggjafarþing — 34. fundur,  30. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[16:56]
Hlusta

Auður Lilja Erlingsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Hér hefur verið farið víða í dag í umræðum um fjárlög íslenska ríkisins og svo var einnig í gær. Mig langar rétt að staldra við á nokkrum stöðum.

Þegar tekið er tillit til efnahagsumhverfis á Íslandi er ekki erfitt að gefa sér að verulega hafi reynt á ríkisstjórnina við gerð fjárlaga enda óvenjumikið umrót og óvissa í efnahagsmálum. Fyrir utan gríðarlega háa vexti, þenslu og mikla verðbólgu eru kjarasamningar fram undan og þeim fylgir vitanlega mikil óvissa.

Það er ekki gæfulegur arfur sem hin nýja ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks fær í veganesti á fyrsta kjörtímabili sínu. Því vil ég nýta tækifærið og hrósa fjárlaganefnd fyrir vel unnin störf við erfiðar aðstæður. Ég ásamt hv. þm. Þuríði Backman stóð að minnihlutaáliti í heilbrigðisnefnd og langar mig að gera stuttlega grein fyrir því.

Nú standa fyrir dyrum miklar breytingar á verksviði heilbrigðisnefndar þar sem annar veigamesti málaflokkur hennar, almannatryggingar, kemur til með að falla undir félagsmálaráðuneytið. Minni hlutinn telur það ámælisvert að nánara skipulag og skipting liggi ekki fyrir. Að því leyti er vinna við fjárlagagerðina óljós og ómarkviss. Að vísu er boðað að frumvörp um nánari verkaskiptingu verði lögð fram á vorþingi en lögin taka gildi 1. janúar 2008.

Minni hluti heilbrigðisnefndar telur að mikil þörf sé á að byggja upp og styrkja þjónustu innan heilsugæslustöðva landsins. Sérstaklega teljum við að þörfin sé brýn á höfuðborgarsvæðinu þar sem nokkur þúsund manns eru á biðlista eftir heimilislækni. Það er furðuleg forgangsröðun að nýta ekki tækifærið til að bæta verulega úr þessu í ljósi þess að það er þjóðhagslega hagkvæmt og eykur bæði öryggi og samfellu í heilbrigðisþjónustunni að gera heilsugæsluna að fyrsta viðkomustað. Þess í stað þarf fólk sem hefur ekki heimilislækni að leita aðstoðar beint til sérfræðinga, Læknavaktar eða slysadeildar. Það fyrirkomulag er dýrt og veldur óþarfa álagi.

Minni hluti heilbrigðisnefndar vill jafnframt benda á slæma fjárhagsstöðu minni sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana og hvetur eindregið til bóta á því sviði svo að þessar stofnanir geti haldið úti góðri heilbrigðisþjónustu og tekið þátt í kröftugri þróunarstarfsemi. En síðast en ekki síst þurfa þessar stofnanir að geta boðið starfsfólki sínu upp á mannsæmandi laun og góða starfsaðstöðu.

Sú stefna sem hefur verið ríkjandi í heilbrigðismálum, að fækka legudögum og efla göngudeildarþjónustu, er nokkuð sem þarf að hugsa vandlega því að við minnum á að fyrir sjúklinga getur þessi tilhögun valdið auknu álagi sem og meiri kostnaði þar sem greitt er fyrir hverja vitjun.

Með hækkandi meðalaldri þjóðarinnar fjölgar þeim sem dvelja á dvalar- eða hjúkrunarheimilum eða búa heima og þurfa þjónustu heima við eins og heimaþjónustu, heimahjúkrun, dagvistun o.s.frv. Minni hluti heilbrigðisnefndar vill lýsa yfir ánægju sinni með aukið framlag til heimahjúkrunar og styður það heils hugar. Þó er lengi hægt að gera betur og þar bendum við sérstaklega á þörf á að hækka daggjöld fyrir dvalar- og hjúkrunarheimili í samræmi við þær auknu kröfur um bætta þjónustu og fagleg vinnubrögð sem eru uppi.

Minni hluti heilbrigðisnefndar telur sérstaka ástæðu til að benda á erfiða fjárhagsstöðu Heilbrigðisstofnunar Austurlands en þar hefur verið mikil þensla undanfarin ár vegna stóriðjuframkvæmda á Austurlandi. Þessu stóraukna álagi hefur ekki verið mætt með samsvarandi aukningu á fjárlögum hvers árs. Nú þegar framkvæmdunum er að ljúka þarf að skoða þetta mál betur.

Í fjárlögum er gert ráð fyrir hækkun komugjalda sjúklinga. Minni hluti heilbrigðisnefndar varar eindregið við þeirri þróun að varpa kostnaði við heilbrigðisþjónustu yfir á neytendur. Hækkun komugjalda kemur niður á þeim sem síst skyldi, langveikum, öldruðum og tekjulitlu fólki.

Í fjárlögum er gert ráð fyrir 70 millj. kr. hækkun til tannlækninga til að fylgja eftir fjölgun íbúa. Í fjárlögunum er hins vegar ekki gert ráð fyrir auknum fjármunum til forvarnastarfs hjá börnum í tengslum við átak til að bæta tannheilsu og tannvernd en á síðasta sumarþingi var samþykkt þingsályktunartillaga um aðgerðaáætlun til fjögurra ára til að styrkja stöðu barna og ungmenna. Þessi aðgerðaáætlun var mikil og metnaðarfull og í henni fólst m.a. að tannvernd barna ætti að verða bætt með gjaldfrjálsu eftirliti, forvörnum og auknum niðurgreiðslum á tannviðgerðum barna. Minni hluti heilbrigðisnefndar vill því gagnrýna að ekki sé áætlað að setja meira fjármagn inn á þennan lið frumvarpsins.

Ég var jafnframt með minnihlutaálit í iðnaðarnefnd sem ég tel ekki þörf á að gera ítarlega grein fyrir nema að því leyti að í álitinu felast vonbrigði yfir því að í frumvarpinu er ekki tekið með skýrari hætti á stóriðjustefnunni, hvort stefnt sé að áframhaldandi uppbyggingu stóriðju, fleiri álverum og stórvirkjunum vegna þeirra, því að slíkar framkvæmdir geta auðveldlega kollvarpað öllum forsendum fjárlaga.

Í heildina litið, eftir yfirferð mína yfir frumvarp til fjárlaga, er þó eitt sem stendur upp úr og vekur mesta athygli mína og er það sami hlutur og margir úr stjórnarandstöðunni hafa rætt áður, þ.e. hversu lítil breyting hefur orðið á fjárlagafrumvarpinu milli ára þrátt fyrir ríkisstjórnarskipti. Þrátt fyrir nýjan meiri hluta virðist ekki verða vart við nokkra stefnubreytingu að ráði. Miðað við kosningaloforð stjórnarflokkanna fyrir síðustu kosningar, og þá sérstaklega Samfylkingarinnar, hefði mátt búast við gagngerri stefnubreytingu hvað varðar málefni aldraðra, öryrkja og barnafjölskyldna og þeir fulltrúar Samfylkingarinnar sem töluðu í eldhúsdagsumræðum á þingi fyrr á árinu töluðu jafnvel um að endurreisa velferðarkerfið á Íslandi og er það vel. Ég fagnaði þeim orðum og verð því að spyrja: Hvar eru þau fögru fyrirheit í fjárlögunum?

Hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir hefur vissulega bent á fyrr í umræðunni að það taki langan tíma að snúa stóru skipi. Það breytir því þó ekki að ég sakna þess verulega að sjá nánast engin ummerki eftir Samfylkingu á þessu — (Gripið fram í.) já, meiri hernaðarátök, það er það eina.

Í umræðunum hafa þrjú atriði verið nefnd sem dæmi um mark Samfylkingarinnar á fjárlagafrumvarpinu. Í fyrsta lagi hið nýja frumvarp til jafnréttislaga, sem ég ætla ekki að deila á, ég tel það gott og mikil þörf á að það nái að ganga í gegn.

Í öðru lagi hefur verið talað um nýsamþykkta þingsályktunartillögu um aðgerðir til að bæta stöðu barna og ungmenna sem ég hef áður minnst á. Ég ætla ekki heldur að deila á hana, hún er einnig mjög góð og, eins og ég segi, sýnir fram á mikinn metnað. En það vantar algjörlega að henni fylgi peningar og hennar sjást ekki merki í fjárlögunum.

Í þriðja lagi hafa verið nefndar aðgerðir, sem ekki er búið að kynna fyrir okkur, til að bæta stöðu ákveðinna hópa í þjóðfélaginu. Ég get ekkert sagt um það þar sem ég hef ekki séð þær tillögur og veit ekki til hvers verið er að vísa.

Í raun og veru leyfi ég mér að spyrja hvort Samfylkingunni og fulltrúum hennar hér, hv. þingmönnum, finnst undarlegt að við leitum að marki þeirra í þessum fjárlögum. Fyrir utan almenn velferðarmál verð ég að viðurkenna að ég hreinlega sakna þeirra stórauknu fjárframlaga sem Samfylkingin lofaði að láta renna til menntamála ef flokkurinn kæmist til valda, sem hann hefur nú þegar gert. Það er grundvallarréttur hvers einstaklings að tjá sig og setja fram hugsanir sínar. Til þess að svo megi verða er nauðsynlegt að hver einstaklingur geti stundað það nám sem geta og áhugi segja til um óháð efnahag, öðrum félagslegum þáttum eða stöðu að hvaða leyti sem er. Því tel ég nauðsynlegt að endurskoða fjárframlög til einstakra málaflokka. Menntamál þurfa að vera ofar í forgangsröðuninni en raunin er í frumvarpi til fjárlaga.

Þegar rætt er um jafnrétti til náms tel ég nauðsynlegt að styrkja nokkrar lykilstofnanir í samfélagi okkar. Mikil þörf er á því að auka fjárframlög til Lánasjóðs íslenskra námsmanna, það er tæki sem við höfum til að jafna aðstöðu nemenda og tryggja jafnrétti til náms. Sömuleiðis þarf að styrkja Háskóla Íslands til muna og gera honum kleift að ná sínum háleitu markmiðum og sinna kennslu og rannsóknum sem þjóðarháskóli landsins. Háskólinn á Akureyri fær samkvæmt frumvarpinu hækkun til að mæta fjölgun nemenda, ég fagna því en ég tel að styrkja verði enn frekar starfsemi skólans og vona að úr því verði bætt hvort sem er á þessum fjárlögum eða þeim næstu.

Í frumvarpinu finnst mér gæta nokkurrar tilhneigingar til að beina fjármagni í meira mæli til skóla sem innheimta skólagjöld og það tel ég varhugaverða þróun. Einnig þarf að horfa sérstaklega til stöðu framhaldsskóla landsins en flestir þeirra þurfa nánast að þola raunlækkun á milli ára. Það er mikilvægt að endurskoða reiknilíkan framhaldsskólanna svo að það endurspegli raunverulega fjárþörf skólanna. Einnig þarf að hækka jöfnunarstyrk verulega til að koma til móts við námsmenn og fjölskyldur þeirra sem bera verulegan kostnað af námi við framhaldsskóla landsins. Þar má nefna tíðrætt loforð margra flokka um styrki til nemenda fyrir námsgögnum.

Á síðustu árum hefur mönnum orðið tíðrætt um nauðsyn þess að hækka húsaleigu- og vaxtabætur til að koma til móts við tekjulágt fólk og jafna húsnæðiskostnað. Ef einhvern tíma hefur verið þörf á aðgerðum í þá veru er það nú. Í frumvarpi til fjárlaga er gert ráð fyrir 6,3% hækkun á vaxtabótum en það eitt dugir ekki til, sérstaklega í ljósi þess að hlutfall vaxtabóta af vaxtagreiðslum hefur lækkað úr 26% í 15% síðasta áratug.

Nýlega fór fram á Alþingi utandagskrárumræða um stöðuna á húsnæðismarkaðnum þar sem svört mynd var dregin upp af ástandinu og ekki að ástæðulausu. Ungt fólk á nú verulega erfitt með að koma sér þaki yfir höfuðið. Vextir á íbúðalánum, sem voru 4% fyrir þremur árum, eru nú roknir upp í 7%. Á sama tíma hefur íbúðaverð hækkað verulega. Þessi hækkun vaxta og hækkun á íbúðaverði hefur haft í för með sér að mun erfiðara er nú fyrir fólk að standast greiðslumat. Þetta á sérstaklega við um það unga fólk sem er að fara að kaupa sér sína fyrstu íbúð.

Það fólk sem er á leigumarkaðnum er í engu betri stöðu. Húsaleigubætur hafa ekki haldið í við verðlag og verð á leiguíbúðum er svimandi hátt. Ekki er auðvelt fyrir fólk á leigumarkaðnum að leggja til hliðar mánaðarlega til að safna í útborgun einfaldlega af því að megnið af innkomunni fer í að borga leigu. Langir biðlistar eru eftir félagslegu húsnæði og listi yfir þá námsmenn sem bíða eftir húsnæði hjá húsnæðisfélögum námsmanna er sömuleiðis langur. Úrbóta er þörf og því er kannski ekki nema von að ég spyrji: Hvar eru þær umtalsverðu hækkanir vaxta- og húsaleigubóta sem lofað var í kosningabaráttunni? Hvar er viðleitnin til að bæta ástandið?

Virðulegi forseti. Ég læt hér lokið umfjöllun minni um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2008 og það geri ég e.t.v. sérstaklega í ljósi þess að ég er aftarlega á mælendaskrá og vil ekki fara að endurtaka það sem allir aðrir eru búnir að segja í dag. Mig langaði hins vegar að enda á því að benda á þær breytingartillögur sem eru komnar fram frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, bæði hvað varðar tekjuhlið frumvarpsins og útgjaldahliðina. Ég vona að ríkisstjórnin líti á þær og skoði með jákvæðum augum sem viðleitni okkar til að bæta kjör ákveðinna hópa á Íslandi og íhugi að styðja okkur í þeirri viðleitni okkar.