135. löggjafarþing — 34. fundur,  30. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[17:08]
Hlusta

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Auði Lilju Erlingsdóttur fyrir ræðu sína og nota tækifærið, vegna þess að ég hygg að þetta sé einn af síðustu dögum hennar hér á þinginu, til að þakka henni gott samstarf þá daga sem hún hefur setið hér. Mér hefur fundist hv. þingmaður beita sér nokkuð mikið í þingstörfum og taka oft til máls. Reyndar hafa flestir þeir sem komið hafa inn á þing, varaþingmenn úr öllum flokkum, gert það það sem af er en ég vil sérstaklega þakka henni fyrir mjög málefnaleg innlegg í umræðum.

Ég held hins vegar, hæstv. forseti, að ég verði að endurtaka það sem ég hef áður sagt, bæði við hv. þm. Árna Þór Sigurðsson og eins hv. þm. Steingrím J. Sigfússon: Ekki er við því að búast að þess sjáist merki að öll kosningaloforð Samfylkingarinnar séu komin inn á fyrsta ári kjörtímabils. Um er að ræða fjögurra ára verkefni og hugsanlega lengra ef vel tekst til.

Ég vil nefna tvö atriði, jafnréttismálin og aðgerðaáætlun í málefnum barna og ungmenna. Hv. þingmaður talaði um að þeirra sæi engan stað peningalega, það er vissulega rétt. Stefnumörkunin hefur hins vegar farið fram og útfærslurnar koma síðar. Þriðja atriðið sem ég vil nefna snerta lífeyrismál og aldraða og öryrkja. Við höfum gert grein fyrir því, nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar og eins hæstv. fjármálaráðherra, að milli 2. og 3. umr. koma útfærðar tillögur um kjarabætur til aldraðra og öryrkja. Ég vona að þetta svari spurningum hv. þingmanns.