135. löggjafarþing — 34. fundur,  30. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[17:38]
Hlusta

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Magnússyni fyrir yfirgripsmikla yfirferð hans yfir fjárlög næsta árs. Ræða hans skar sig að vísu úr allmörgum öðrum sem fluttar hafa verið við þetta tækifæri á þann veg að hann einbeitti sér að tiltölulega fáum málum og fór einstaklega vel ofan í sjónarmið sín.

Ég ætlaði við þetta tækifæri einungis að drepa á örfá atriði og kem fyrst að því sem hv. þingmaður hafði á orði um þá vinnu sem fjárlagagerðin kallar á hjá fjárlaganefnd og þinginu. Þetta hefur verið alláberandi í umræðu þingmanna um fjárlögin, þ.e. verklagið. Það hefur m.a. verið skýrt með þeim hætti að hér sé tiltölulega margt nýtt fólk sem vilji gjarnan sjá breytingar á því vinnulagi sem hér hefur verið viðhaft. Mér virðist sem ríkur vilji sé til að breyta því verulega.

Fyrr á þingfundi í dag kom fram ósk um að tilteknir ráðherrar yrðu viðstaddir umræðu eftir helgi þannig að þeir gætu verið í forsvari fyrir sína málaflokka. Ég er þeirrar skoðunar að formenn þingnefnda eigi miklu fremur að vera í forsvari og verja fjárlagagerðina en ráðherrar eða framkvæmdarvaldið ætti fremur að vera til að upplýsa um einstök framkvæmdaratriði við fjárlagagerðina. Fjárlagagerðin tel ég að eigi miklu frekar að vera á ábyrgð þingmanna, númer eitt, tvö og þrjú. Tvímælalaust.