135. löggjafarþing — 34. fundur,  30. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[17:47]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það má eiginlega segja, hv. þm. Pétur Blöndal, að það er tungunni tamast sem hjartanu er kærast. Þegar hv. þingmaður talar um skattamál þá bara staldrar hann við ákveðna tegund skattheimtu, þ.e. sem lagður er á lögpersónu, á fyrirtæki, þar sem um er að ræða lægstu skattprósentuna, þar sem skattar hafa lækkað á meðan heildarskattheimtan hefur aukist. Þá segi ég: Hv. þingmaður hefur haldið því fram að með því að lækka skatta á lögaðila hafi skatttekjur í raun aukist, og það skiptir máli, en ættu þá ekki sömu lögmál að gilda gagnvart einstaklingunum? Getum við ekki hækkað skattleysismörkin til að gefa þeim sem lægstar hafa tekjurnar möguleika á að komast út úr fátæktargildru, möguleika á að búa við mannsæmandi lífskjör? Af hverju byrjum við ekki fyrst á fólkinu? Af hverju látum við ekki fólkið hafa forgang í staðinn fyrir það sem hv. þm. Pétur Blöndal kemur alltaf að, að láta fyrirtækin hafa forgang en gleyma fólkinu? Það er þar sem skórinn hefur kreppt að, í skattheimtu á einstaklinga, á fólkið í landinu. Þar höfum við slegið met hvort sem við berum okkur saman við OECD eða önnur lönd í Evrópu.

Það er vissulega rétt að skattheimtu hefur verið létt af lögaðilum. Ég er í sjálfu sér ekki að mótmæla því. Ég er almennt á því að við eigum að lækka skatta en við höfum í raun hækkað skattana. Við höfum ekki látið skattleysismörkin fylgja launa- eða verðlagsþróun og það er höfuðatriðið. Það gerir það að verkum að við erum með viðvarandi aukinn velferðarhalla og aukna skattheimtu ríkissjóðs.