135. löggjafarþing — 34. fundur,  30. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[18:16]
Hlusta

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Hvað varðar heilbrigðismálin þá er það staðreynd að útgjöld okkar Íslendinga til heilbrigðismála, sem hlutfall af þjóðarframleiðslu, eru hvað hæst í OECD þrátt fyrir þá staðreynd að aldurssamsetning þjóðarinnar er mjög hagstæð. Það bendir til þess að möguleiki sé á að ná betri árangri í rekstri heilbrigðiskerfisins án þess að draga úr þeirri þjónustu þess. Það er það sem ég á við þegar ég segi að ég sé tilbúinn til að styðja þá útgjaldaaukningu sem orðið hefur til heilbrigðismála, þ.e. í trausti þess að við séum að ná betri tökum á rekstrinum og náum að nýta betur þau tæki, tól og þann mannskap sem í landinu er til að sinna þessum mikilvæga málaflokki. Ég geri mér hins vegar fulla grein fyrir því að verkefnið er flókið. Þjóðin mun að sjálfsögðu eins og aðrar Evrópuþjóðir eldast, þ.e. aldurssamsetningin mun ganga okkur í mót hvað þetta varðar. En ég tel að á næstu fimm til tíu árum ríði á að menn nái góðum tökum á þessum rekstri. Ég hef mikið traust og mikið álit á núverandi ráðherra og ríkisstjórn til þess að ná árangri hvað þetta varðar.

Hvað varðar sjávarútveginn þá veit hv. þm. Guðni Ágústsson vel hvar hjarta mitt slær í þessu máli. Ég hef alltaf verið afskaplega andsnúinn þeirri gjaldtöku sem sjávarútvegurinn er látinn sæta og hef talið hana ósanngjarna og óréttláta og ekki styðjast við nokkur rök. Ég beygi mig þó undir þá niðurstöðu sem hér var fengin í þinginu fyrir nokkru síðan. Ég fagna því skrefi sem tekið var þegar ákveðið var að létta að minnsta kosti tímabundið nokkru af þeim álögum og að sjálfsögðu vona ég að þegar fram líða stundir verði þetta óréttláta gjald afnumið. En samkomulagið sem hér hefur orðið, undir það beygi ég mig.