135. löggjafarþing — 34. fundur,  30. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[18:33]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarni Harðarson) (F):

Frú forseti. Það er nú að koma að lokum þessarar löngu umræðu um fjárlagafrumvarpið, 2. umr. Ég get þó ekki látið hjá líða að koma hér upp og minnast á fáein atriði sem mér þykir mjög miður hvernig hafa verið meðhöndluð í því frumvarpi sem hér liggur frammi og lúta að málefnum landbúnaðarins. Eins og oft hefur verið rætt um að undanförnu úr þessum ræðustól stendur fyrir dyrum mikil tilfærsla á verkefnum í Stjórnarráðinu. Það vekur nokkra furðu að við þá tilfærslu er ekki einasta miðað við það að tvístra stofnunum landbúnaðarins milli ráðuneyta, algjörlega óskyldra ráðuneyta, heldur verða þessar stofnanir sendar í nýja vist með þunga skuldaklafa og margs konar óreiðu í fjármálum en hjá öðrum stofnunum hefur aftur á móti verið greitt úr öllu meira og minna, t.d. í heilbrigðiskerfinu og er vel það sem þar hefur verið gert með fjáraukalögum. Það er hins vegar algjörlega óskiljanlegt að ekki hefur fengist fram að grípa til svipaðra ráðstafana gagnvart t.d. bændaskólunum tveimur og sama má raunar segja um skógræktarverkefnin.

Einn helsti vaxtarbroddur íslenskra sveita nú um nokkuð langt skeið hefur verið vaxandi skógrækt bænda og þar hefur ríkisvaldið fylgt eftir mætti þingsályktunartillögu frá 2003 um fjárframlög til þeirra verkefna. Vissulega hefur niðurskurðarhnífurinn stundum verið settur lítillega á þau verkefni, þeir sem þar standa vaktina hafa viljað fá aðeins meira en lagt hefur verið fram, en það kastar þó fyrst tólfunum nú með þessum fjárlögum þar sem framlögin eru svo miklu minni en ráð var fyrir gert.

Vissulega getur ný ríkisstjórn borið því við að hún sé ekki bundin af stefnuyfirlýsingum fyrri ríkisstjórnar. Það er samt afskaplega ósanngjarnt að fara að þessu máli með þessum hætti því að eins og hæstv. fjármálaráðherra, sem er menntaður í dýralækningum og vel tengdur inn í íslenskan landbúnað, á að vera fullkunnugt um er það ekki svo í landbúnaði að hægt sé að skera mjög snögglega á eða ákvarða mjög snögglega að hætta framkvæmdum þar eða að minnka þær mjög hratt niður.

Í þessu tilviki er um það að ræða að þeir sem eru í forsvari fyrir hin landshlutabundnu skógræktarverkefni hafa í góðri trú samið við ýmsa bændur sem hafa tekið að sér framleiðslu á græðlingum um kaup sem hafa miðast við ákveðnar forsendur. Þau hafa miðast við ákveðin fyrirheit sem ekkert hafði svo sem heyrst um frá núverandi ríkisstjórn að ekki ætti að standa við. Núna eru þessi verkefni öll skorin mjög freklega niður. (Gripið fram í.) Þær viðbætur sem koma nú við 2. umr. eru það litlar að enn er staðan allt of naum í þessum efnum. Það veldur síðan stórfelldum áhyggjum innan þessa geira hvernig skógrækt í landinu er tvístrað milli ráðuneyta og mætti hér tala enn langt mál um það en á kannski betur heima þegar við tökum næst bandorminn til umfjöllunar.

Þetta skiptir allt saman máli og það er ákveðið samhengi þarna á milli. Það er nógu slæmt að stofnunum landbúnaðarins skuli tvístrað svona milli ráðuneyta og jafnvel settar sumar undir eftirlits- og verndarráðuneyti umhverfismála — sem alls ekki á að hafa með verkefni að gera sem lúta að framkvæmdum — en þegar þetta er í ofanálag gert með þeim hætti að stofnanirnar eru fjársveltar og fara inn til nýrra verkefna með skuldahala fyrra ráðuneytis þá er eiginlega ástæða til að standa upp og mótmæla því og ég tel rétt að þau mótmæli komi fram hér við fjárlagaumræðuna.

Varðandi bændaskólana hefur í rauninni engin viðhlítandi skýring fengist á því hvers vegna þetta ráðslag er viðhaft. Við sem fylgst höfum með skólamálum í landinu um nokkurt skeið höfum mörg undrast það ráðslag sem viðhaft hefur verið í menntamálaráðuneytinu undanfarin ár, að skólarnir eru látnir dragnast með langa skuldahala milli ára og mér er ekki grunlaust um að stundum séu þessir skuldahalar notaðir sem einhvers konar skrúfstykki og stjórntæki af ráðuneytinu.

Nú er það svo að hv. fjárlaganefnd hefur að nokkru leyti bætt hér úr en þær úrbætur ná ekki til bændaskólanna. Ég skora á meiri hlutann og menntamálaráðuneyti að gera hér úrbætur á fyrir 3. umr. fjárlaga.