135. löggjafarþing — 34. fundur,  30. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[18:45]
Hlusta

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil undir lok þessarar umræðu færa öllum sem að hafa komið kærar þakkir fyrir vinnu við þær tillögur sem hér hafa verið til umræðu í tvo sólarhringa. Á það bæði við um samstarfsmenn mína í fjárlaganefnd og starfsfólk það sem með okkur hefur unnið. Ég vil einnig þakka þau orð sem fallið hafa í garð fjárlaganefndar fyrir þá vinnu sem þar hefur verið innt af hendi. Það skal upplýst hér að sú vinna er kannski ekki ýkja ný fyrir marga sem þar eru innan veggja. Viðfangsefnið er hins vegar nýtt og það verklag sem þar hefur verið viðhaft er nýtt fyrir flestum eins og komið hefur fram. Það er mikill vilji til þess að ná fram breytingum á því verklagi sem þar er viðhaft og hefur verið margítrekað, ekki síst af formanni, hv. þm. Gunnari Svavarssyni, sem leitt hefur þessa vinnu af miklum skörungsskap og af mikilli lipurð. Það ber að þakka og flyt ég honum kveðjur nefndarmanna fyrir það verk.

Eins og rækilega hefur verið undirstrikað er einnig vilji til að breyta hefðinni í umræðum um fjárlögin. Hv. þm. Jón Bjarnason tók nú síðast undir þau orð sem komu fram í ræðu hv. þm. Illuga Gunnarssonar áðan þar sem varpað var fram hugmynd að breyttu fyrirkomulagi umræðunnar og lýsi ég yfir fullum stuðningi við þá hugmynd sem þar var sett fram. Fyrir hönd okkar í nefndinni vil ég ítreka þær þakkir sem menn hafa fært fram hér. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta þar sem ég sé að hv. formaður fjárlaganefndar, Gunnar Svavarsson, er genginn í salinn.

Vil ég að lokum þakka gott samstarf og skemmtilega umræðu síðustu tvo daga þó að ýmsu hefði sjálfsagt mátt bæta við. En ég læt þessu lokið að sinni og hlakka til að takast á við nýtt verklag, ný vinnubrögð, með ágætum þingmönnum á komandi ári.