135. löggjafarþing — 35. fundur,  3. des. 2007.

skerðing örorkulífeyris.

[15:07]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég beini máli mínu til hæstv. forsætisráðherra enda varðar málið sem ég ætla að taka upp fleiri en eitt ráðuneyti og einnig sökum þess að hæstv. félagsmálaráðherra er fjarstödd og mun hafa boðað veikindaforföll óvænt undir hádegið þrátt fyrir að gert væri ráð fyrir því á dagskrá að ráðherra yrði hér við.

Málið varðar lækkun greiðslna til öryrkja frá lífeyrissjóðum. Um síðustu mánaðamót lækkuðu greiðslur til öryrkja frá lífeyrissjóðum vegna örorkubóta. Líklega um 1.600–1.700 öryrkjar sættu þarna lækkun allt frá nokkrum krónum og upp í tugi þúsunda króna á mánuði. Nú er vel þekkt af hvaða ástæðum þetta stafar og málið hefur verið lengi í bígerð sem breytir ekki hinu að þeir sem fyrir þessu verða fá þarna heldur kalda kveðju í jólamánuðinum og allt upp í tugi þúsunda minna til ráðstöfunar á þessum tíma.

Hér er á ferðinni einhvers konar víxlverkun milli Tryggingastofnunar ríkisins og lífeyrissjóðanna og að sögn félagsmálaráðherra mun þetta gera ríkinu erfiðara um vik að bæta stöðu öryrkja. Ríkisvaldið bauð fram 100 millj. kr. til að koma til móts við þann kostnað sem lífeyrissjóðirnir ella hefðu með óskertum greiðslum borið umfram það sem þeir telja að efni standi til og þeim sé skylt að gera. Þetta stafar auðvitað af því að í reynd hefur ríkisvaldið komist upp með að velta miklum byrðum vegna félagslegrar örorku yfir á lífeyrissjóðina eða komið sér hjá því að taka á þeim málum sjálft.

Það skiptir engu fyrir þolendurna og nú spyr ég hæstv. ríkisstjórn: Á að láta hér staðar numið? Á að láta þessa miklu kjaraskerðingu sem hundruð og þúsundir öryrkja verða nú fyrir standa óbreytta eða er ríkisvaldið tilbúið til að koma með nægjanlega fjármuni inn í málið þannig að ekki þurfi að verða af þessari skerðingu? Hér þarf að bregðast fljótt við (Forseti hringir.) og helst á allra næstu dögum þannig að vel fyrir jól verði búið að leiðrétta á nýjan leik þessar greiðslur til þeirra sem í hlut eiga.