135. löggjafarþing — 35. fundur,  3. des. 2007.

verksmiðjubú í mjólkurframleiðslu.

[15:29]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ef við berum saman stærð þeirra búa sem eru hér á landi við stærri bú erlendis sjáum við að á þeim er gríðarlegur munur. Jafnvel stærstu landbúnaðarjarðirnar eða stærstu búin hér á landi eru smábú miðað við það sem við þekkjum víða erlendis og það er auðvitað við þau bú sem við erum m.a. að keppa við á ýmsum vettvangi.

Ég held þess vegna að við þurfum ekki að líta þannig á að það sé einhver sérstök vá fyrir dyrum þó að við sjáum stækkun búa hér á landi. Þetta er eingöngu til marks um það að menn eru að reyna að hagræða og draga úr kostnaði.

Auðvitað erum við öll sammála um að við viljum að hér sé stundaður vistvænn og hreinn landbúnaður og um það er enginn ágreiningur. Sú þróun sem við sjáum er í samræmi við það.