135. löggjafarþing — 35. fundur,  3. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[15:41]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Eins og jafnan áður höfum við þingmenn Frjálslynda flokksins ákveðið að styðja þó nokkuð af þeim tillögum sem lagðar eru fram, hvort sem þær koma frá stjórnarflokkunum eða aðrar tillögur sem okkur sýnast horfa til bóta. Við munum m.a. styðja tillögu sem lýtur að því að taka betur á í almannatryggingum og við munum styðja ýmsar fleiri tillögur sem við teljum að séu til farsældar.

Ég vil hins vegar taka fram, hæstv. forseti, að við teljum tímabært að taka til endurskoðunar skiptingu verkefna milli ráðuneyta. Að okkar mati er ekki rétt að skógræktarverkefnin séu höfð undir tveimur ráðuneytum og það telst varla gott verklag, hæstv. forseti. Við teljum einnig að ekki eigi að flytja forræði yfir hjúkrunarheimilum frá heilbrigðisráðuneytinu og við teljum að lög um verkefnaflutning ættu þegar að vera afgreidd á hv. Alþingi áður en farið er að setja breytingar inn í fjárlög næsta árs sem taka eiga gildi 1. janúar nk.

Feril málsins teljum við ekki í réttum farvegi eins og hann ber að varðandi málatilbúnað. Þess vegna munum við þingmenn Frjálslynda flokksins sitja hjá við þann þátt málsins við 2. umr. fjárlaga sem snýr að þeim verkum sem flutt eru á milli ráðuneyta þó að við getum út af fyrir sig tekið undir þó nokkuð af því sem þar er lagt upp með.