135. löggjafarþing — 35. fundur,  3. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[16:06]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Þessi breytingartillaga felur það í sér að settir verði auknir fjármunir í listgreinakennslu í framhaldsskólum, í fyrsta lagi listgreinarnar sem framhaldsskólanemar fá tækifæri til að nýta sér sem þreyttar einingar til stúdentsprófs en verulega skortir á að fjárframlög séu næg til þessara listgreina í fjárlagafrumvarpinu. Sömuleiðis felur tillagan í sér sjálfstæða fjárveitingu til framhaldsnáms í tónlist.

Nú liggur fyrir Alþingi Íslendinga breyting á framhaldsskólalögum í frumvarpsformi frá hæstv. menntamálaráðherra. Þar er gert ráð fyrir breytingum í þessum efnum og að framhaldsstig í tónlistarnámi fari yfir til ríkisins og verði á ábyrgð þess en í fjárlagafrumvarpinu eru engar krónutölur, engar krónur áætlaðar í þann kostnað. Mér þykir þetta óeðlilegt og við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum þess vegna lagt fram þessar breytingartillögur og hvetjum þingheim til að styðja þær.