135. löggjafarþing — 35. fundur,  3. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[16:08]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er stórfurðulegt að eina afgreiðslan sem Lánasjóður íslenskra námsmanna fær í tillögum meiri hlutans og við þessa fjárlagaafgreiðslu skuli vera niðurskurður, vera til lækkunar. Það örlar hvergi á efndum á hástemmdum loforðum um að þriðjungi námslána yrði breytt í styrk að námi loknu hjá þeim sem lokið hefðu því á tilsettum tíma, að námsgögn yrðu ókeypis í framhaldsskólum og fleira í þeim dúr sem a.m.k. annar stjórnarflokkanna lofaði fyrirvaralaust fyrir síðustu kosningar. (Gripið fram í.) Já, m.a. hæstv. iðnaðarráðherra og fór ekki lítinn í þeim efnum. Það er auðvitað alveg kostulega sárgrætilega lýsandi fyrir þessa afgreiðslu að metnaðurinn sé ekki meiri en svo að lánasjóðurinn er meira að segja frekar skorinn niður en hitt, að honum séu tryggðir auknir fjármunir til þess a.m.k. að sýna lit og byrja að efna kosningaloforðin.