135. löggjafarþing — 35. fundur,  3. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[16:14]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Hér eru lagðar til breytingartillögur á liðnum Þróunarsamvinna, þ.e. að Þróunarsamvinnustofnun Íslands fái 250 millj. kr. viðbótarfjárveitingu og að liðurinn Þróunarmál og alþjóðleg hjálparstarfsemi – mannúðarmál og neyðaraðstoð hækki sömuleiðis um 150 millj. kr. Þetta yrðu þá 400 millj. sem væru innan við 0,1% hækkun á fjárlagafrumvarpinu en er viðleitni í þá átt að hækka hin skammarlega lágu framlög sem Íslendingar leggja til málefna af þessu tagi. Það er ekki vansalaust að enn skuli ganga jafnhægt og raun ber vitni að þoka því hlutfalli þjóðartekna upp á við sem við verjum til þessara mála.

Það er ekki í sjónmáli að við verðum hálfdrættingar á við það sem ætlunin er meðal velmegunarríkja, þ.e. að verja um 0,7% af þjóðartekjum í formi opinberra framlaga til þessara málefna. Er þó nýlega búið að monta sig af því á þessum stað að Ísland sé best í heimi, að við búum við einhverja mestu velmegun og velsæld sem nokkurs staðar fyrirfinnst á byggðu bóli — og það er vel að því marki sem innstæður eru fyrir slíku. Þess skammarlegra er það að við skulum enn gera svona illa þegar kemur að því að hjálpa okkar fátækustu meðbræðrum annars staðar í heiminum.