135. löggjafarþing — 35. fundur,  3. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[16:21]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg):

Herra forseti. Þessi liður hefur verið baráttumál Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Samfylkingarinnar og fleiri, þ.e. að koma honum á fastan fjárlagalið á fjárlögum. Tillagan gengur út á það að tryggja þessari afar mikilvægu stofnun, Mannréttindastofnun Íslands, sjálfstæði gagnvart framkvæmdarvaldinu þannig að stofnunin sé ekki háð duttlungum þess á hverjum tíma. Það er afar brýnt að okkar mati að þetta sé sjálfstæður fjárlagaliður vegna stöðu þessarar skrifstofu í gæslu mannréttinda í landinu. Ég ítreka að hér er ég líka boðberi stefnu Samfylkingar þó að ég sé ekki málsvari hennar í þessu máli og ég hvet samfylkingarþingmenn til að greiða þessari tillögu atkvæði sitt.