135. löggjafarþing — 35. fundur,  3. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[16:42]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við greiðum atkvæði um greiðslu úr ríkissjóði sem tengist deilu Öryrkjabandalagsins og 11 lífeyrissjóða. Þannig er að margir öryrkjar sem eru í fullri vinnu eru með hærri laun en áður en þeir urðu öryrkjar þegar tekið er tillit til bóta úr bæði lífeyrissjóði og frá Tryggingastofnun og sérstaklega barnalífeyris. Hins vegar eru margir öryrkjar sem voru í hálfu starfi eða voru í námi sem hafa farið halloka vegna þessarar breytingar hjá lífeyrissjóðunum sem þeir framkvæma samkvæmt reglugerðum sjóðanna og líka þess að sumir sjóðirnir miða við neysluvísitölu í staðinn fyrir launavísitölu. Þetta finnst mér að þessir aðilar eigi að leysa með samkomulagi sín á milli. Það er mjög brýnt að þeir leysi þetta með samkomulagi þannig að það náist úr þessari deilu einhver vitræn niðurstaða. Ég sit hjá við þessa atkvæðagreiðslu.