135. löggjafarþing — 35. fundur,  3. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[17:00]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Eins og glöggir þingmenn hafa kannski tekið eftir greiddum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs atkvæði gegn því að lækkað yrði framlag til aðalskrifstofu umhverfisráðuneytisins. Við gagnrýndum það í umræðunni að verið væri að lækka framlag ríkissjóðs til umhverfisráðuneytisins í heildina og við teljum þetta til hins mesta vansa fyrir þessa nýju ríkisstjórn og fara gegn þeirri yfirlýsingu sem þó er birt í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að Ísland eigi að vera í fararbroddi í umhverfismálum. Við teljum þetta líka fara gegn áherslum umhverfisráðherra sem hafa verið gefnar út í sérstökum bæklingi þannig að við reynum í breytingartillögum okkar að róa í aðra átt en ríkisstjórnin vill gera.

Í þessari breytingartillögu viljum við auka fjárframlög til lítillar rannsóknastöðvar við Mývatn sem á sannarlega skilið (Forseti hringir.) að fá aukna fjármuni og til Umhverfisstofnunar sem á líka skilið að fá hærra framlag.