135. löggjafarþing — 35. fundur,  3. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[17:06]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að greiða atkvæði um þessa gagnmerku breytingartillögu um tilfærslur í málefnum ofanflóðasjóðs en því bað ég um atkvæðagreiðslu með nafnakalli að þegar svo var komið að stjórnartillögur voru samþykktar með 25 atkvæðum og atkvæðagreiðslan þá og því einungis lögleg að hið rafræna kerfi telur stjórnarandstæðinga með sem þátttakendur í atkvæðagreiðslunni var mér alveg nóg boðið, að 43 manna meiri hluti skuli koma sínu eigin stjórnarfrumvarpi í gegn með alveg niður í 25 pósitífum atkvæðum. Ég held að það sé allt í lagi að vekja athygli á því hvernig frammistaða stjórnarliðsins er í þessum efnum og menn mega hæða mig og spotta alveg eins og þeir mögulega vilja úr baksætunum þess vegna. Ekki er ég viðkvæmur fyrir því.

Þetta er að mínu mati ekki beysin frammistaða og ég varð nokkuð undrandi á því að forseti skyldi ekki lýsa úrslitum hinnar handvirku atkvæðagreiðslu með hefðbundnum hætti, sem sagt með því að segja: Það er ónóg þátttaka í atkvæðagreiðslunni. Það var auðvitað það sem kom í ljós, stjórnarmeirihlutinn hafði ekki menn í salnum til að koma málum sínum áfram (Forseti hringir.) með hinum hefðbundnu gömlu aðferðum. Ég greiði ekki atkvæði.