135. löggjafarþing — 35. fundur,  3. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[17:16]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hér á að fara að greiða atkvæði um tillögur sem lúta að því að búa til nýja fjárlagaliði, breyta verkaskiptingu innan ráðuneyta, flytja verkefni til og frá ráðuneytum — bara með einfaldri atkvæðagreiðslu við 2. umr. fjárlaga. Ég minni á að þetta er eitt stærsta málið sem er á þinginu og enn til meðferðar. Þetta stórmál um verkaskiptingu innan Stjórnarráðsins er enn óafgreitt.

Hér er gerð tillaga um að Alþingi greiði atkvæði um fjárlagaliði sem ekki eiga sér lagastoð. Það er heimild til þess í fjárreiðulögum að séu samþykkt lög sem hafi áhrif á gjalda- og tekjuhlið ríkissjóðs eða breyti í einhverju samþykktum fjárlögum flytji maður um það frumvarp til fjáraukalaga. Óháð því hvort við erum sammála gjörningnum um þessa uppstokkun á milli ráðuneyta og verkefnatilfærslur ber að mínu mati samt að fara að lögum og þingsköpum. Það er að mínu viti ekki gert með því að krefjast þess að Alþingi greiði hér atkvæði um tillögugreinarnar við afgreiðslu fjárlaga án nokkurrar lagaheimildar. Ég skora því á meiri hlutann að kalla þær tillögur sem lúta að verkefnatilfærslu milli ráðuneyta og endurskipulagningu á Stjórnarráðinu til baka úr fjárlagaumræðunni og afgreiða málið fyrst með þinglegum hætti, afgreiða þau frumvörp sem eru til vinnslu í þinginu — sum eru reyndar enn ekki komin fram — sem lúta að fjárlagaliðum sem hér á að samþykkja án þess að nokkur lagaheimild sé fyrir.

Herra forseti. Ég skora á hæstv. forseta að beita sér fyrir því að farið verði að þingsköpum eða þau a.m.k. látin njóta vafans í þeim efnum og kalla þessi frumvörp til baka. Þau geta þá komið inn í þingið eftir að búið er að afgreiða þau lög sem þarf þá að afgreiða til að hér megi greiða atkvæði með þeim hætti sem hér er lagt til. (Forseti hringir.) Að öðrum kosti er að mínu viti, herra forseti, (Forseti hringir.) um mjög vafasaman gjörning að ræða sem er að mínu viti hrein lögleysa.