135. löggjafarþing — 35. fundur,  3. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[17:37]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Hér er verið að greiða atkvæði um svokallaðar heimildargreinar, tiltölulega opnar heimildir fyrir ríkissjóð og fjármálaráðherra til að skuldbinda ríkissjóð. Við höfum rætt það t.d. í sambandi við Grímseyjarferjuna í haust hvernig þeirri opnu heimild var beitt. Hér er verið að sækja heimildir til að selja jarðir, jarðeignir og jarðspildur í eigu ríkisins án þess að því fylgi neinar tilhlýðilegar skýringar.

Ég set mikla fyrirvara við beitingu á þessum heimildargreinum. Ég set mikla fyrirvara við þær heimildir sem landbúnaðarráðherra fær til að selja jarðir vítt og breitt um landið. Ég set mikla fyrirvara við beitingu á þessum heimildargreinum og tel að afnema eigi þessar heimildarákvæðisgreinar og menn komi þá bara inn í fjáraukalög þegar þarf að taka fyrir breytingar eða heimildir til að skuldbinda ríkissjóð. Það á ekki að fara með þetta í formi heimildargreinar (Forseti hringir.) sem hæstv. fjármálaráðherra virðist ekkert kunna að fara með.