135. löggjafarþing — 35. fundur,  3. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[17:41]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Við erum þá komin að lokum þessarar atkvæðagreiðslu við 2. umr. fjárlaga ársins 2008. Þetta hafa verið frekar umfangsmiklar atkvæðagreiðslur, sérstaklega vegna tveggja atriða, annars vegar mótvægisaðgerða og hins vegar verkaskiptingar í Stjórnarráði Íslands. Frumvarpið, eins og það hefur verið í meðförum, ber þess vott. Það ber þess einnig vott að forusta í fjárlaganefnd er örugg og þar hafa komið fram traustar tillögur. Frumvarpið ber enn fremur vott um trausta stöðu ríkissjóðs.

Það vekur athygli að Framsóknarflokkurinn greiðir ekki atkvæði sem út af fyrir sig er rökrétt miðað við aðkomu ráðherra hans í fyrri ríkisstjórn að þessu. Það kemur hins vegar svolítið á óvart að þeir skuli ekki treysta sér til að greiða atkvæði með breytingartillögum. Vinstri græn eru jafnóábyrg og -óraunhæf og venjulega en ég greiði atkvæði með frumvarpinu til 3. umr.