135. löggjafarþing — 35. fundur,  3. des. 2007.

breytingar á þingsköpum.

[18:14]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Þær athugasemdir sem ég vil gera við fundarstjórnina hér eru sérstaklega þær að þetta mál, eins og allt er í pottinn búið með það, skuli sett hér á dagskrá án nokkurs samráðs þar um og án þess að rætt hafi verið hið minnsta um málsmeðferðina að þessu leyti þótt vitað sé að um málið og vinnubrögðin öll í kringum það er mikill ágreiningur.

Við erum búin að ljúka hér því sem næst hefðbundnum starfsdegi á mánudegi og klukkan talsvert gengin í sjö. Miðað við að fundi ljúki um kvöldmatarleytið eins og venja er, nema eitthvað alveg sérstakt sé á ferðinni, er sérkennilegt að hefja hér umræðu um þetta stóra mál á þessum tíma sólarhringsins ofan í hefðbundinn dag þar sem búnar eru að vera fyrirspurnir á dagskrá og langar atkvæðagreiðslur, þar á meðal og ekki síst að lokinni 2. umr. fjárlagafrumvarps.

Það er mikið umhugsunarefni að þau vinnubrögð skuli vera stunduð í þessu máli sem við stöndum nú frammi fyrir. Ég vek athygli á og minni á að við erum að tala hér um fyrstu mánuði nýhafins kjörtímabils. Það er ekki eins og að það sé að hlaupa algjörlega frá Alþingi á kjörtímabilinu 2007–2011 að vinna að þessum málum ef það hugarfar væri lagt til grundvallar.

Það er undarlegt að menn skuli telja það mikilvægara að þjösna þessu máli hér inn í þingið og á dagskrá einhverjum vikum eða þess vegna mánuðum fyrr en ella hefði kannski verið hægt í góðri sátt ef lögð hefðu verið drög að slíkum vinnubrögðum. Það hefur því miður ekki verið gert. Forseti þingsins hefur brugðist þeirri skyldu sinni að skapa frið og samstöðu um vinnubrögð hér og grundvallarleikreglur í samskiptum manna.

Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði látum ekki stilla okkur upp við vegg og við látum ekki kaupa okkur með sporslum sem litlu máli skipta þegar kemur að stóru dráttunum í samskiptum stjórnar og stjórnarandstöðu hér inni og þingsins alls í glímu sinni við framkvæmdarvaldið sem hefur á undanförnum árum gerst æ ágengara og sýnt tilhneigingar í þá átt að líta á Alþingi sem hreina afgreiðslustofnun fyrir sig.

Við ætlum ekki að bregðast þeirri skyldu okkar að standa vörð um sjálfstæði þingsins og rétt þingmanna að þessu leyti þannig að þeir séu í færum til að sinna sínu mikilvæga hlutverki, veita ríkisstjórn og framkvæmdarvaldi aðhald og verja hér leifarnar af sjálfstæði Alþingis Íslendinga í þeim samskiptum. Þess vegna eru það líka mikil vonbrigði og mikið umhugsunarefni að forseti skuli án skýringa og án nokkurra undangenginna umræðna ætla nú að fara að taka þetta mál á dagskrá.

Ég beini því til virðulegs forseta að hann (Forseti hringir.) endurskoði það, og spyr hann: Er ekki skynsamlegt og þess virði (Forseti hringir.) að fresta nú því að taka þetta mál fyrir þannig að mönnum gefist eitthvert ráðrúm til að spá í stöðuna?