135. löggjafarþing — 35. fundur,  3. des. 2007.

breytingar á þingsköpum.

[18:21]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það eru ósköp rýr svör að upplýsa það að dagskrá hafi legið hér fyrir í dag. Það er rétt. Hún birtist í endanlegri mynd sinni einhvern tímann í morgun. Nei, það voru drög að dagskrám sem kynnt voru fyrir helgi.

Það eru í sjálfu sér engin svör. Það eru ekki rök. Það eru ekki útskýringar á því af hverju staðið er með þessum hætti að málum. Það svarar ekki spurningunni: Af hverju setur forseti þetta á dagskrá án þess að gera svo mikið sem tilraun til að ræða hvort menn séu sáttir við það út af fyrir sig, burt séð frá ágreiningi um málið, að það verði tekið hér fyrir með forgangshraði og sett hér á dagskrá undir kvöld?

Hver ákveður dagskrána? Það er forseti. Hann hefur alræðisvald um það eins og mál eru hér í pottinn búin og það er ágætt fyrir menn að hafa það í huga. Það er hluti af því mikla valdi sem forsetaembættinu fylgir hér. Forsætisnefnd er í raun ekki fjölskipað stjórnvald í eiginlegum skilningi þess orðs. Það er forsetinn sem ræður. Hann fer með mjög mikið óskorað vald. Það leggur auðvitað forsetanum skyldur á herðar, eða alvöruforsetum, að þeir reyni að hafa frið um þær ákvarðanir sem þeir taka í krafti embættis síns.

Það er greinilega ekki ætlunin hér. Það má fara að spyrja, virðulegi forseti: Er það ásetningur? Er það orðið að markmiði í sjálfu sér að keyra þetta mál hér áfram í ágreiningi? Fá menn eitthvað sérstakt út úr því að hafa illindi og ósamkomulag, meira að segja um fyrirkomulag og tímasetningu umræðunnar ofan í allt hitt? Það er eiginlega erfitt að draga aðra ályktun af því hvernig forsetar standa hér að verki en að svo sé. Og því mótmælir maður auðvitað algerlega, herra forseti.

Ég held að undir venjulegum kringumstæðum og ef einhver vilji væri til þess að menn töluðu saman og þreifuðu þá á því — þótt ekki væri annað, hvort mögulegt væri að hafa hér eitthvert samkomulag um tilhögun umræðunnar, um málsmeðferðina að öðru leyti og hvernig menn ætli þá að vinna þetta mál áfram — hefði hann ekki byrjað á því svona.

Ég er farinn að halda að þetta sé orðið að þráhyggjumáli hjá hæstv. forseta, hann sé kominn inn í eitthvert öngstræti sem hann finnur enga leið út úr. Auðvitað hlýtur forseti að gera sér grein fyrir því að þetta er meiri háttar áfall fyrir hann. Það er meiri háttar áfall fyrir forsetann að verða ber að vinnubrögðum af þessu tagi. Það er það.

Þetta verður enginn minnisvarði um glæsta forsetatíð hæstv. forseta Sturlu Böðvarssonar, heldur einmitt hið gagnstæða. Honum brást bogalistin. Honum mistókst eða hann lagði ekkert á sig, hæstv. forsetinn, til þess að skapa hér samstöðu um vinnubrögð og mikilvægustu leikreglur á Alþingi sem eru næstar kosningalögum og stjórnarskrá að því leyti að menn hafa alltaf lagt mikið á sig fram að þessu til að skapa samstöðu um þau vinnubrögð. Hér er verið að rjúfa gamla hefð og það er engum til (Forseti hringir.) sóma sem á því ber ábyrgð.