135. löggjafarþing — 35. fundur,  3. des. 2007.

breytingar á þingsköpum.

[18:32]
Hlusta

Sturla Böðvarsson (S):

Hæstv. forseti. Vegna þeirrar umræðu sem hér fer fram, um fundarstjórn forseta, vil ég taka fram að sá forseti sem stjórnar fundi ræður að sjálfsögðu för.

Vegna þess sem fram kom hjá hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni tel ég einsýnt að umræðan komist af stað og við freistum þess að að koma henni svo langt fram að nefndin sem fær málið til meðferðar geti farið að líta yfir það. Það er að sjálfsögðu mjög mikilvægt viðfangsefni, ekki síst vegna þess að skoðanir eru skiptar eins og verða vill með ýmis mál. Ég sé ekkert athugavert við að þetta mál sé á dagskrá og umræður hefjist um það og við reynum að nýta tímann. Fyrir liggur hins vegar að sérstaklega hefur verið óskað eftir því að tíminn verði tvöfaldaður í þessari umræðu þannig að þess heldur þarf að byrja sem allra fyrst svo að við getum notað tímann í efnislega umræðu um málið í stað þess að fara yfir það með hvaða hætti við viljum hafa umræðuna núna.

Ég hvet hv. þingmenn til þess að hafa skilning á stöðu forseta, sem hér stjórnar fundi, og vilja hans til að koma málinu í umræðu.