135. löggjafarþing — 35. fundur,  3. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[20:01]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hæstv. forseti Alþingis hefur talað fyrir breytingu á lögum um þingsköp Alþingis. Ég minni á að við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum gagnrýnt þetta frumvarp harkalega og vinnubrögðin sem því tengjast og það er dapurlegt til þess að hugsa að hæstv. forseti skuli stefna þessu máli inn í umræðu í þingsal í ósætti við stærsta stjórnarandstöðuflokkinn, Vinstri hreyfinguna – grænt framboð. Ég gerði grein fyrir afstöðu okkar við upphaf þessarar umræðu undir dagskrárliðnum fundarstjórn forseta og vísa til þess sem þar kom fram. Ég gat þess jafnframt þá að þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hefði boðað til fundar með fréttamönnum í dag til þess að skýra afstöðu okkar til þessa frumvarps en greinargerð sem fjölmiðlum var afhent var jafnframt komið í hólf sérhvers þingmanns. Ég ætla að lesa upphaf þessarar greinargerðar og fara síðan orðum um þær tillögur sem hér liggja fyrir. Í upphafsorðum greinargerðar þingflokks VG segir, með leyfi forseta:

„Hornsteinar stjórnskipunar Íslands, eins og annarra vestrænna lýðræðisríkja, er þrískipting valdsins í löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald. Þannig er leitast við að tryggja viðunandi jafnvægi í samfélaginu milli lýðræðislegs valds almennings, beins og óbeins, í gegnum kjörna fulltrúa og framkvæmdarvaldsins sem situr í umboði Alþingis þar sem hér ríkir þingræði og þingbundin ríkisstjórn er við völd. Dómsvaldið sker úr ágreiningi. Almennt er ekki um það deilt að á Íslandi er þjóðþingið veikt gagnvart framkvæmdarvaldinu og hefur því miður fremur veikst en hitt undanfarinn einn til einn og hálfan áratug. Staða Alþingis sem slíks gagnvart framkvæmdarvaldinu snýst eðli málsins samkvæmt einkum og sér í lagi um möguleika og réttindi minnihlutans hverju sinni til þess að sinna sínu mikilvæga hlutverki, hlutverki stjórnarandstöðunnar, aðhaldshlutverkinu. Mikilvægur liður í þessu hlutverki stjórnarandstöðu, eða hvers og eins þingmanns ef svo ber undir, er að standa fyrir rökræðum og koma mismunandi sjónarmiðum á dagskrá og út í samfélagið. Því má aldrei gleyma að hlutverk Alþingis er margþætt, sem sagt ekki bara löggjafarstarf, heldur er Alþingi líka helsti vettvangur pólitískra skoðanaskipta og umræðu í landinu. Þar takast stjórnmálaflokkarnir og lýðræðislega kjörnir fulltrúar á og þeirri viðureign verður að skapa viðunandi umgjörð sem felst einkum og sér í lagi í því að tryggja réttindi minni hlutans, tryggja málfrelsi hans og rétt til þess að vera ávallt á varðbergi og koma ávallt að sínum sjónarmiðum.

Því fer fjarri að það sé ræðutíminn einn sem skipti hér máli heldur er hann hluti af stærri heildarmynd. Réttindi stjórnarandstöðunnar og ákvæði þingskapa sem tryggja eiga lýðræðisleg skoðanaskipti, umræður, vönduð vinnubrögð og vandaða lagasetningu Alþingis eru allt ein heild. Réttindi stjórnarandstöðunnar, þar á meðal möguleikar hennar til málflutnings, eru hluti af stærri heildarmynd og verða ekki frá henni skilin. Það er ekki markmið í sjálfu sér að halda langar ræður og þaðan af síður leiðinlegar eða innihaldsrýrar. Markmiðið er að tiltekið lágmarksjafnvægi sé alltaf til staðar á Alþingi Íslendinga, þar sem kjörnir fulltrúar allra helstu sjónarmiða í stjórnmálum landsins eiga sinn vettvang til að koma skoðunum sínum á framfæri. Þingsköp Alþingis geyma þar af leiðandi fjölmörg ákvæði sem öll miða að því sama: að tryggja vandaða umfjöllun um mál, að tryggja að þingnefndir geti sinnt rannsóknaskyldu sinni, að tryggja að öll sjónarmið fái að heyrast og tryggja að framkvæmdarvaldið geti ekki í krafti meiri hluta síns rúllað umdeildum eða viðamiklum málum í gegn fyrirvaralítið eða fyrirvaralaust. Það gefist bæði tími, ráðrúm og aðstæður til þess að rannsaka mál og ræða og vekja um leið í gegnum hinn opna umræðuvettvang Alþingis, þar sem fundir fara fram í heyranda hljóði, athygli á því sem þar er á dagskrá.“

Í greinargerðinni minnum við á þær breytingar sem gerðar hafa verið á þinginu. Árið 1991 voru málstofur þingsins, efri og neðri deild, sameinaðar í eina. Áður höfðu öll lagafrumvörp önnur en fjárlög farið hið minnsta í gegnum sex umræður í þinginu. Þó að ég ætli ekki í þessari ræðu minni að fara að elta ólar við einstaka þætti í málatilbúnaði og röksemdafærslu hæstv. forseta þingsins þegar hann mælti fyrir þessu frumvarpi verð ég þó að segja að mér finnst ansi langt gengið þegar sagt er að með þessu frumvarpi sé verið að rýmka málfrelsi á Alþingi. Hvers vegna? Jú, vegna þess að nú geti menn fengið að tala svo oft.

Eins og sakir standa gengur það fyrirkomulag sem við búum við núna út frá því að við 2. og 3. umr. lagafrumvarpa sé ótakmarkaður ræðutími. Með þeim breytingum sem hér eru lagðar til er hugmyndin sú að við 2. og 3. umr. fái sérhver þingmaður 15 mínútur í upphafi máls, fyrsta ræða 15 mínútur. Síðan kemur að því sem hæstv. forseti segir að sé svo mjög til góðs til að rýmka málfrelsið, menn fá að tala eins oft og þeir vilja eftir þetta, 5 mínútur í senn. Með öðrum orðum, einstaklingur sem ætlar að koma málstað sínum á framfæri og röksemdafærslu í flóknu máli á 50 mínútum þarf að taka tíu sinnum til máls. Þetta er frelsið sem hæstv. forseti þingsins, Sturla Böðvarsson, býður stjórnarandstöðunni upp á.

Er ekki eitthvað undarlegt við það, er ekki eitthvað bogið við það að reynt sé að þröngva í gegnum þingið breytingum á þingsköpum sem ganga í blóra við það sem stjórnarandstaðan vill, stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn vill? Er ekki eitthvað að því?

Breytingar hafa verið gerðar á þingskapalögum á undanförnum árum. Gerðar voru breytingar á þingskapalögum síðast í vor en á síðasta vetri voru einnig lögfestar breytingar á þingsköpum. Hvaða breytingar voru það? Þar var fyrst og fremst verið að laga þingið, þingsköpin, lögin sem gilda um þinghaldið, að þeim breytingum sem í reynd höfðu átt sér stað, að færa til samræmis veruleikann og lögin. Það voru þær breytingar sem verið var að gera vegna þess að þingið er að sjálfsögðu að þróast, þingið er að breytast. Frá þeim tíma sem ég kom fyrst til þings, 1995, hafa orðið breytingar á ýmsum þáttum í vinnulagi þingsins, sumt mjög til góðs. Þannig hefur það verið að breytast, tel ég, að afgreiðsla á málum sem lítill ágreiningur er um gengur hraðar fyrir sig en áður.

Yfirleitt eru umræður um þingmál stuttar á Alþingi Íslendinga og yfirleitt fer fram vönduð umræða í nefndum þingsins. Þetta er það vinnulag sem gildir um allflest þingmál. Síðan eru undantekningarnar og hverjar skyldu þær vera? Þær eru einkum af tvennum toga. Annars vegar þingmál sem koma frá ríkisstjórn og stjórnarmeirihluta sem að kröfu ríkisstjórnar eða viðkomandi ráðherra þurfa að fá mjög hraða afgreiðslu. Við þekkjum það hvernig málum hefur verið hent inn í þingið og þingheimi síðan þröngvað til að afgreiða málin með miklum hraða og þá gerast slysin. Þá hafa menn reynt að spyrna við fórum og knýja fram málefnalega umræðu um viðkomandi mál.

Hins vegar eru mál sem hafa kallað á mikla umræðu. Það eru þau hitamál sem heitast brenna á þjóðinni hverju sinni. Þetta eru ekki mörg mál. Ef við lítum aftur til ársins 1990 eða þar um bil hygg ég að þetta séu á milli 10 og 15 mál, (ÖS: Þrjú.) Þrjú, hugsanlega, segir hæstv. iðnaðarráðherra. Þetta eru mjög fá mál. Hvaða mál eru þetta? Það er EES-samningurinn, það var deilt um það hér dögum og reyndar vikum saman hvort hann stæðist stjórnarskrá Íslands. Er ekki eðlilegt að taka góða umræðu um slíkt? Jú. Úti í þjóðfélaginu voru háværar kröfur um að fram færi þjóðaratkvæðagreiðsla um málið, þjóð og þing kölluðust á. Það var líflega umræða um málið, mynduð voru samtök úti í þjóðfélaginu. Hefði verið eðlilegt að hespa þessu máli af? Ég segi nei. Einkarekinn gagnagrunnur á heilbrigðissviði, var ekki eðlilegt að menn tækju sér tíma til að ræða það mál? Kárahnjúkavirkjun kallaði á mikla umræðu. Hún var ekki ýkjamikil úti í þjóðfélaginu áður en málið kom til kasta þingsins. Hópur listamanna var reglulega með fundi og vakningarsamkomur fyrir utan þingið til að reyna að vekja okkur og vekja samfélagið. Síðan fór það að gerast smám saman að þjóð og þing fóru að kallast á, umræða skapaðist í fjölmiðlum. Er það slæmt? Nei, það er bara mjög gott.

Það á að vera erfitt að koma umdeildum málum í gegnum þing og lögfesta þau. Menn þurfa að geta sannfært þingið og menn þurfa að geta sannfært þjóðina. Við skulum ekki gleyma því heldur að mörg þeirra mála sem hafa verið hvað umdeildust fengu ekki lýðræðislega umfjöllun í þjóðfélaginu áður en þau komu skyndilega fram sem tillögur stjórnarmeirihluta um lagabreytingar. Ég er að vísa hér í einkavæðingu undangenginna ára og í ýmis mál sem hafa verið hvað mest umdeild á liðnum árum. Ég tala fyrir því að við förum mjög varlega þegar við takmörkum lýðræðislega umræðu, við eigum að stíga þar varlega til jarðar.

Hv. þm. Helgi Hjörvar talaði hér um daginn. Helgi Hjörvar er skemmtilegur ræðumaður og var ræðusnillingur fyrr á tíð. Hann sagði að ef einhver þyrfti að tala lengur en í 15 mínútur um tiltekið málefni þyrfti að senda viðkomandi í endurmenntun. Menn höfðu svolítið gaman af þessu, þótti þetta vera hnyttið. Mig langar þá líka til gamans að lesa hér úr umhugsunarverðum pistli eftir Þorstein Siglaugsson um nákvæmlega þetta efni. Hann segir um þessi ummæli Helga — ég vík að þessu af því að mér finnst þetta snerta kjarna málsins að ýmsu leyti — hann segir, með leyfi forseta:

„Ef við rýnum aðeins í orð Helga Hjörvars virðist sem að baki þeim liggi sú afstaða að tilgangur þingræðna sé sá einn að koma skoðunum á framfæri. En er það svo? Til hvers starfar þingið? Til hvers halda þingmenn ræður?

Ef markmiðið með ræðuhöldum á þingi er bara það að koma skoðun á framfæri mætti væntanlega að ósekju stytta ræðutímann í fimm mínútur, jafnvel eina eða hálfa mínútu. Líka mætti enn auka skilvirknina og sleppa ræðuhöldunum alveg enda geta þingmenn auðvitað komið skoðun sinni á framfæri í atkvæðagreiðslu.

Ég vissi hins vegar ekki betur en svo að tilgangur löggjafarsamkundunnar væri sá að tryggja að mál fengju vandaða umfjöllun. Að þau væru rökrædd í þaula.

Sum þingmál eru flókin. Stundum eru þingmál þess eðlis að til að hægt sé að fjalla um þau af skynsamlegu viti þarf langar ræður því öðruvísi er ekki hægt að rekja röksemdirnar með eða á móti í samhengi, með þeim tilvísunum til gagna sem þörf er á.

Engum hefur, mér vitanlega, komið til hugar að takmarka þann tíma sem lögmenn hafa til að spyrja vitni eða flytja ræður í rétti. Ástæðan er auðvitað sú að slíkt kemur niður á málflutningi. Alþingi er ekki réttarsalur. En í réttinum er starfað eftir lögum sem Alþingi setur. Ef rétturinn takmarkar ekki málflutningstíma er þá ekki enn síður ástæða til að löggjafarsamkundan sem setur lögin sjálf takmarki hann?

Helgi Hjörvar er gamall ræðusnillingur úr Morfís. Ræðuhöld í Morfís snúast um að höfða til tilfinninga áheyrendanna og fá þá til að snúast á sveif með ræðumanni, oft á mjög yfirborðslegum forsendum. Fyrir löngu síðan gagnrýndi Sókrates morfísmenn síns tíma, sófistana. Hann sagði ræðusnilld þeirra innantóma og spillandi því hún leiddi athyglina frá sannleika málsins að yfirborði og aukaatriðum. Sókrates skrifaði engar bækur en það sem eftir honum er haft fyllir margar bækur, líklega merkilegustu bækur heimspekisögunnar. Í þeim er ekki aðeins verið að „koma skoðunum á framfæri“ heldur færa fyrir þeim rök. Ég er ekki viss um að mikið vit yrði eftir í Gorgíasi eða Faídoni eftir Platón ef Helgi Hjörvar stytti þessi verk niður í fimmtán mínútna yfirlit um skoðanir Sókratesar, jafnvel þótt hann sé góður penni.

Það er vissulega rétt að stundum eiga þingmenn það til að tala lengi bara til að tala lengi og tala þá stundum um ekki neitt. En stundum flytja þeir líka langar ræður sem geisla af rökvísi og viti. Lausnin á vondum málflutningi er ekki sú að banna vandaðan málflutning. Hún felst í því að bæta málflutninginn.

Það er því skoðun mín að með því frumvarpi sem nú liggur fyrir sé verið að hefla viðinn í líkkistu þingræðisins því verði það að lögum verður oft á tíðum einfaldlega ekki hægt að halda uppi vitrænni umræðu um flókin þingmál. Ég hefði auðvitað getað látið duga að setja skoðun mína fram rakalaust. Það hefði orðið miklu styttri texti. Ég bið Helga Hjörvar og félaga hans afsökunar á því, að láta það ekki duga.“

Mér finnst þetta vera skemmtileg hugleiðing og snerta kjarna máls.

Það er tvennt sem ég vil gera hér að umfjöllunarefni og snertir aðdragandann að því að við höfum þetta frumvarp hér fyrir framan okkur. Þegar hæstv. forseti þingsins, Sturla Böðvarsson, tók við stjórnartaumum þar lýsti hann eindregnum vilja að gerðar yrðu breytingar á þingskapalögunum. Hann er ekki einn um að lýsa yfir slíkum vilja því að það hafa nánast allir forverar hans gert enda ekkert nema gott um það að segja að menn vilji bæta starfsumhverfi sitt og þau lög og þær reglur sem við störfum eftir.

Hann gerði hins vegar þau mistök að mínu mati að tengja tvennt saman — og svo ég vitni í hans eigin orð, „órjúfanlegum böndum“ — annars vegar breytingar á starfsaðstöðu þingsins og þingmanna almennt og breytingar á þingskapalögunum hins vegar. Ágreiningur okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði við aðra þingflokka hér, bæði stjórnarmeirihluta og Framsóknarflokk og Frjálslynda flokksins snerist að hluta til um þetta, við vildum höggva þarna á milli. Hæstv. forseti vísaði í skínandi utanferðir sem bíða þingmanna núna, aðstoðarmenn flokksforingja og bætta aðstöðu, bætta aðstöðu í þinginu almennt, (Gripið fram í: Nei.) og hér er komin skýringin á því að við töluðum um verslun og viðskipti. Við vildum ekkert hafa með slíkt að gera. Það ætti ekki að tengja breytingar á þingskapalögum … (GÁ: Ómerkilegt.) Ómerkilegt, segir hv. þm. Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins. Ég er að lýsa veruleikanum, hann er ekkert ómerkilegur. Ef hv. þingmanni finnst hann vera ómerkilegur ætti hann að horfa í spegil síns eigin flokks og spyrja hvernig þeir hafi komið fram í þessu máli, flokksmenn hans.

Við vorum að segja að ágreiningur okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði við aðra flutningsmenn þessa frumvarps byggir að hluta til á þessu, að við vildum greina þarna á milli, höggva þarna á milli. Við vildum og viljum bæta aðstöðu þingsins en gera þetta óháð. Andstaðan og gagnrýnin sem kom hér fram í dag þegar greidd voru atkvæði um fjárlög og þá m.a. fjárlagaliði sem lúta að þinginu var að þeir voru tengdir breytingu á þingskapalögunum, orðalagið var á þá lund. Þetta var eitt sem við lögðum áherslu á, að þarna yrði gerður alger greinarmunur á milli.

Áður en ég vík frá þessum þætti málsins, þ.e. bættri aðstöðu þingsins, vil ég leggja mjög ríka áherslu á að við höfum um árabil barist fyrir því að starfsaðstaða þingsins verði stórefld, verði stórbætt, og við höfum viljað láta efla nefndasviðið með það að markmiði. Ég vil lýsa því yfir hér að ég tel mjög brýnt að það sé gert í góðu samstarfi og góðri sátt við starfsmenn þingsins. Ég tel mikilvægt að þetta sé gert í samráði og góðri samvinnu við þá. Hér eru starfandi starfsmannasamtök og mér finnst eðlilegt að teknar séu upp formlegar viðræður við þau um þessar breytingar. Ég hef alllanga reynslu sem forsvarsmaður í stéttarfélögum og hlýt að gera sömu kröfu hér og ég geri annars staðar þar sem verið er að gera skipulagsbreytingar á starfsumhverfi starfsfólks. Á þetta vil ég leggja ríka áherslu.

Þetta var annar þátturinn sem varð til þess að slit urðu með okkur og stjórnarmeirihlutanum ásamt Framsóknarflokki eða forsvarsmönnum framsóknar og Frjálslynda flokknum, að við vildum höggva þarna á milli þessara þátta, fresta breytingu á þingskapalögunum.

Síðan kemur að hinum þættinum, þ.e. breytingum á sjálfum þingskapalögunum. Við áttum ágæta fundi um þetta efni í sumar, bæði á fundum þingflokksformanna og síðan ræddust menn við innbyrðis að einhverju leyti og reyndu að þreifa fyrir sér um samkomulag, nokkuð sem við vildum skjóta á frest fram yfir áramót, við lögðum mjög ríka áherslu á það. Á hinn bóginn tefldum við fram hugmyndum sem byggðu á því að við einblíndum á markmiðin sem við vildum ná, þ.e. að tryggja málefnalega og ítarlega umræðu og koma í veg fyrir að umdeild mál, flókin hitamál yrðu samþykkt hér með miklum hraði. Hvernig yrði það gert? Meðal annars með því að breyta vinnulaginu í þinginu með tilliti til vinnutíma. Við vildum lengja þinghaldið og færa umræður sem iðulega fara fram að nóttu til inn í dagsljósið, stytta vinnudaginn. Eins og hæstv. forseti vék að áðan þá var á einhverju stigi teflt fram þeirri hugmynd að vinnudagurinn yrði ekki lengri en til klukkan fimm, það er það sem fjölskyldufólk talar um, þegar rætt er um fjölskylduvænan vinnudag þá er verið að horfa til barnanna og barnafólks að þessu leyti.

Í þessu frumvarpi eru stigin fyrstu skrefin í þá átt og hæstv. forseti sagði að sá dagur kynni að renna upp að við færðum okkur yfir í slíkt fyrirkomulag. Það höfum við ekki gert enn. Það stóð ekki á svari frá okkur um frumvarpið, við sögðum: Við föllumst á að ótakmarkaður ræðutími sem nú er í 3. umr. um þingmál verði takmarkaður og farið inn í sama eða svipaðan farveg og er við 1. umr. Þetta vorum við búin að fallast á. Við vildum hins vegar skilja 2. umr. eftir með ótakmörkuðum ræðutíma þar til frekari skref yrðu stigin, þótt á allra síðustu metrunum léðum við máls á því við forseta þingsins í leit að samkomulagi að við skoðuðum einnig einhverjar breytingar á þessu.

Við höfum lagt áherslu á að þessi mál, eins og kemur fram í þeim texta greinargerðarinnar sem ég las upp, séu skoðuð heildstætt, að þær breytingar sem gerðar eru byggist á því að náum því sameiginlega markmiði að gera þinghaldið markvissara en vandað. Til að tryggja jafnræði með stjórn og stjórnarandstöðu hefur sú hugmynd líka verið viðruð á þessum fundum að æskilegt gæti verið að nefndir þingsins lytu stjórnarformennsku þingmanna úr stjórnarandstöðu og að forseti þingsins komi úr röðum stjórnarandstöðunnar. Það er einnig hugmynd sem hefur iðulega skotið upp kollinum bæði í þessari umræðu og í umræðu á síðustu missirum þegar rætt hefur verið um þessi mál. Þetta er að sjálfsögðu umræða sem er ekkert að byrja núna í sumar eða haust, þetta er umræða sem hefur farið fram á undanförnum árum, og eins og ég segi hefur vinnulagið við þingið verið að taka breytingum smám saman og það sem við höfum verið að hamra á er að þegar gerðar eru breytingar á sjálfri lagaumgerðinni verði það ekki gert nema með samkomulagi allra.

Ég hef heyrt því haldið fram, og þannig mun þetta hafa verið kynnt í þingflokki Sjálfstæðisflokksins a.m.k., að við þingflokk Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafi ekkert þýtt að tala, að þingflokkurinn hafi ekki viljað gera samkomulag eða verið líklegur til þess. Er það sem ég er að nefna hér ekki vilji til breytinga á samkomulagi? (Gripið fram í.) Ha? Hér er fyrirspurn utan úr sal. (Gripið fram í: … þetta er rangt sem þú ert að halda fram.) Nú, þetta er rangt sem ég er að halda fram. Með öðrum orðum, það er verið að segja við mig núna að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins samþykki að setja frumvarpið fram án aðildar og samkomulags við stærsta stjórnarandstöðuflokkinn, bara eins og blankan tékka. Mér finnst þetta nánast verra ef þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hefur samþykkt frumvarpið eins og það lá fyrir án þess að hann haldi að tilraun hafi verið gerð til þess að ná samkomulagi við stærsta þingflokkinn í stjórnarandstöðunni. (Gripið fram í.)

Ég er ekkert að snúa út úr. Ég er bara að horfa á þá staðreynd að fyrir þinginu liggur frumvarp um breytingar á starfsreglum Alþingis sem verið er að setja fram af stjórnarmeirihluta og hann ætlar að knýja í gegn, gegn mótmælum stærsta stjórnarandstöðuflokksins. Þetta er veruleikinn. (Gripið fram í.) Ég er líka að benda á að hefðin er sú að þegar breytingar eru gerðar á þingskapalögum eru þær gerðar með samþykki allra. Sú hefð er nú rofin og við höfum verið að mótmæla því og lýsa furðu okkar á því að flokkur eins og Sjálfstæðisflokkur skuli standa að því sameinaður að slík vinnubrögð séu viðhöfð.

Ég hef einnig lýst hryggð minni yfir því að Samfylkingin, sem stóð með okkur í stjórnarandstöðu árum saman og við töluðum einum rómi gegn vinnubrögðum af þessu tagi, skuli núna taka höndum saman með hinum stjórnarflokknum um að knýja fram breytingar á þingskapalögum eins og hér er gert. (Gripið fram í: Hefðin hefur verið sú að koma þessu ekki í gegn.)

Venjan er sú og niðurstaðan hefur orðið sú, segir hæstv. forseti Alþingis, að koma þessu ekki í gegn. Það eru ýmsar breytingar sem á ekki að koma í gegn nema með samþykki þingsins alls. Ég tala ekki um þegar um er að ræða þau tæki sem stjórnarandstaðan hefur til þess að veita stjórnarmeirihluta aðhald. Að sjálfsögðu á ekki að gera breytingar á slíku fyrirkomulagi nema í sátt og samlyndi. Það er hefðin, það er hin þingræðislega hefð. Þegar ég spyr sjálfan mig: Er líklegt að stjórnarmeirihlutinn, meiri hlutinn á Alþingi, gæti komið þessu máli fram óbreyttu? Já, að sjálfsögðu. Að sjálfsögðu knýr hann málið óbreytt í gegn, ef hann vill. Ef hann heldur áfram að vinna á þann hátt sem hér er unnið mun honum takast það á nákvæmlega sama hátt og honum tókst að knýja fram Kárahnjúkavirkjun, einkarekinn gagnagrunn á heilbrigðissviði, öryrkjamálið á sínum tíma og önnur mál þar sem meirihlutavaldi er beitt.

Meiri hlutinn á Alþingi á að sjálfsögðu að ná sínu fram þegar upp er staðið. Við erum einvörðungu að tala um hvaða vinnulag skal haft á og hvort æskilegt sé að flókin hitamál sem brenna heitt á þjóðinni fái ítarlega og djúpa málefnalega umræðu á Alþingi. Um það snýst þetta mál. Við erum að vara við því að settar séu reglur sem geri meiri hluta, ég tala nú ekki um meiri hluta sem styðst við yfirgnæfandi meirihlutafylgi eins og nú er, kleift að geta þrýst og þröngvað í gegnum þingið umdeildu máli á mjög skömmum tíma. Um það snýst þetta mál.

Við höfum gert grein fyrir því og ég hef verið að vísa til þess í ræðu minni á hvern hátt við teljum að hægt sé að gæta jafnræðis, a.m.k. einhvern vísi að jafnræði með aðilum, stjórn og stjórnarandstöðu, með öðrum hætti, með því að verkstjórinn á þinginu komi úr röðum stjórnarandstöðunnar, með því að verkstjórar í fagnefndum þingsins komi úr röðum stjórnarandstöðunnar, með því að breyta vinnutímanum, með því að lengja þinghaldið, með því að stytta vinnudaginn, með því að auka vægi nefndanna. Þá getum við búið til munstur sem tryggir að við í stjórnarandstöðu náum markmiðum okkar og getum rækt það hlutverk sem okkur er ætlað að rækja, að veita stjórn og stjórnarmeirihluta verðugt aðhald á Alþingi. Um það snýst þetta mál. Það er mikil afvegaleiðing að telja fólki trú um að málið snúist um það eitt að tryggja stjórnarandstöðunni langan ræðutíma á þingi. Málið snýst ekki um það. Það snýst um þetta samhengi hlutanna.

Undir lok máls míns vil ég minna á umræðu sem fór hér fram fyrir fáeinum dögum, það var umræða um fjárlög ríkisins. Þetta er stærsta mál hvers þings. Í fjárlögum eru ákvörðuð skilyrði fyrir nánast allar velferðarstofnanir landsins, alla vega þær sem njóta fjárstuðnings úr ríkissjóði, spítalana, heilbrigðisstofnanirnar, stofnanir fyrir fatlaða, stjórnsýsluna almennt og að sjálfsögðu þá sem hafa tekjur sínar úr ríkissjóði, aldraða, öryrkja. Það skiptir miklu máli hvernig á því er haldið.

Hvað tókum við langan tíma í þá umræðu? 2. umr. um fjárlög, sem að jafnaði er lengsta umræðan sem fram fer um fjárlögin, tók tvo daga. Við hófum umræðuna að morgni dags á fimmtudag og lukum henni um kvöldmatarleytið á föstudag. Er eitthvað athugavert við það? Nei. Stjórnarandstæðingar jafnt sem stjórnarsinnar fluttu ítarlegar ræður, sumir langar, sumir stuttar. Ég fylgdist með öllum þessum umræðum og hafði mikið gagn af. Það var vakið máls á ýmsum athyglisverðum þáttum í stuttum ræðum og í löngum ræðum. Þingmenn úr mínum hópi, Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, fluttu sumir allítarlegar ræður. Formaður flokksins fór yfir stöðu efnahagsmála, vék að þeim skýrslum sem fram hafa verið reiddar frá Seðlabanka, bönkum, greiningardeildum, og fjallaði um stöðuna nú og framtíðarhorfur og mátaði síðan fjárlögin inn í þann ramma. Fulltrúi okkar í fjárlaganefndinni fór yfir vinnubrögðin þar og síðan tóku einstakir þingmenn til umfjöllunar þá málaflokka sem þeir höfðu sérstaklega beint sjónum sínum að og höfðu starfað við. Er eitthvað athugavert við þetta? Nei. Þetta er gott, þetta er sjálfsagt, þetta er okkar starf. Auðvitað eigum við að sinna þessu.

Stjórnarsinnar svöruðu á móti. Ég saknaði helst ráðherra við umræðuna. Að undanskildum hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. iðnaðarráðherra voru þeir flestir fjarri góðu gamni. Auðvitað eiga þeir að sitja umræðuna. Við getum stórbætt þinghaldið, t.d. við umræðu um fjárlög, með því að tryggja að fagráðherrar séu ætíð viðstaddir umræðu um sinn málaflokk. Við getum sameinast um að gera þetta. Það eru margir aðrir þættir sem lúta að störfum þingsins sem við getum hæglega bætt ef vilji er til og ég hef trú á því að vilji sé hjá öllum til að gera það. En með þeim vinnubrögðum sem hér eru ástunduð undir forustu þess aðila sem á að hugsa um hag okkar allra, hæstv. forseta þingsins.

(Forseti (StB): Og er að því.)

Hann fer því miður fram með þetta þingskapafrumvarp þvert á óskir okkar. Við báðum um að málið yrði látið bíða, látið kyrrt liggja um sinn og við freistuðum þess að ná samkomulagi. Ég er sannfærður um að það hefði tekist ef menn hefðu haft raunverulegan vilja til þess að semja um málin. Það er hægt, að sjálfsögðu er enn hægt að semja um þessi mál. Þetta þingskapafrumvarp er ekki orðið að lögum. Ég vek athygli á niðurlagsorðum í greinargerð okkar sem allir þingmenn fengu í hendur í dag. Þar segir, með leyfi forseta:

„Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er jafnáhugasamur og fyrr um að endurskipuleggja starfshætti Alþingis, bæta og vanda mun meir til vinnubragða við lagasetningu, þróa Alþingi í átt til faglegri og fjölskylduvænni vinnustaðar og gera breytingar sem raunverulega styrkja þingið, þingræðið og lýðræðið í landinu. Þessum markmiðum ná hins vegar hvorki óbreytt frumvarp forseta og þaðan af síður þau vinnubrögð að rjúfa hefð um samstöðu um slík mál og keyra þau áfram í ágreiningi við stærsta flokk stjórnarandstöðunnar. Breytingar á hvoru tveggja, frumvarpinu og vinnubrögðum forseta, eru því óhjákvæmilegar eigi farsæl niðurstaða að nást.“

Við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að tryggja að farsæl niðurstaða náist.